3* æfingar í maí

23 maí 2018 13:02 - 23 maí 2018 13:10 #1 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic 3* æfingar í maí
Sæl 3ja stjörnu hópur.
Ég rakst á myndskeið sem sýnir aðeins önnur vinnubrögð en við höfum eftir Bretunum og fróðlegt er að skoða. Takið eftir áhersluatriðum og hvað er öðruvísi:
  1. Sundmaður réttir stefnið þannig að hann sé framan við björgunarmann og geti haldið sér þar í dekklinuna. Við eigum reyndar að gera þetta svona en sá sem er í sjónum hefur það ekki alltaf í huga og björgunarmaður á að segja honum til.
  2. Kayak sundmanns er færður til þannig að lítill tími fer í að synda meðfram. Þetta geri ég oftast en hef ekki kennt sérstaklega.
  3. Maðurinn fer upp á dekkið aftan við mannop eins og við gerum í klifri (cowboy reentry) og þarf ekki að ná í dekklínu björgunarbáts. Þetta er fínt fyrir þá sem ráða vel við þessa hreyfingu en sumir eru þungir og snúa kayak sinn úr höndum björgunarmanns og ættu því frekar að hafa tak á dekklínu hans eins og við höfum kennt. Sumir eru það stirðir að þeir koma fætinum ekki upp í mannopið og þá verða þeir að komast upp fyrst. Ef ekkert af þessu gengur er þrautalendingin að halla kajaknum, mjaka sundmanni inn í sætið, grípa í axlaról vestis og ýta með hinni höndinni niður á kinnunginn um leið og manni er velt upp.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 maí 2018 20:28 - 18 maí 2018 20:31 #2 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic 3* æfingar í maí
Tökum dæmi: Á korti með línum fyrir N-S og með hjálp gráðuboga má sjá að stefnan frá Réttarnesi (nesið við Veltuvík) að sandfjörunni í Þerney (aðeins norðan við flotbryggjuna) er 5° réttvísandi. Réttvísandi merkir að norður er 360°eða 0°sem er það sama. Þegar seguláttaviti bendir í þá átt sýnir hann 5°+ 15° = 20° vegna misvísunar á þessu svæði. Áttvitinn er strekktur í dekklínurnar þannig að hann situr á miðju dekki í þægilegri fjarlægð framan við mannop. Talan sem áttavitinn sýnir næst manni er stefna kajaksins. Kajaknum er því snúið þar til áttavitinn sýnir töluna 20° og róið í þá átt.
Þetta gildir ef enginn vindur eða straumur veldur reki. Sé það fyrir hendi þarf að stýra móti rekinu og horfa á tvö mið (transits) í landi til að sjá hvenær hreyfingin er í rétta stefnu. Þegar það er fengið er gott að lesa á áttavitann og halda þeirri stefnu.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 maí 2018 16:42 #3 by Þormar
Replied by Þormar on topic 3* æfingar í maí
Þessi var að detta í dótakassann. Erum við með einhverjar kompás æfingar sem maður gæti farið eftir?



Kv. Þormar
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 maí 2018 21:29 - 13 maí 2018 18:26 #4 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic 3* æfingar í maí
Við þökkum Örlygi fyrir að koma til liðs í þetta sinn þegar ég var bundinn af námskeiði.
Þá er ekkert eftir af æfingadagskrá okkar nema sundlaugaæfing á morgun og ég læt ykkur um að æfa þessa daga sem eftir eru fram að námskeiði Steve Banks 26.maí. Verið getur að þið vitið um einhver atriði sem mættu vera betri. Þá er um að gera að setja á flot og æfa, best að mæla sér mót með einhverjum öðrum.

Ég þakka samvinnu ykkar og vona að þið sýnið góða frammistöðu á námskeiðinu/prófinu. Hlutverk mitt þá verður hlutlaust gagnvart ykkur, Steve stjórnar og ég geri það sem hann leggur fyrir og verð 'þykjast' prófdómari með honum. Fyrir það fæ ég undirskrift fyrir verkefni í BCU-kennaraþjálfun.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 maí 2018 18:21 #5 by Orsi
Replied by Orsi on topic 3* æfingar í maí
Í 3 stjörnu ferðinni í dag voru fjórir þátttakendur. Tekinn var Engeyjarhringur með glæsibrag, allskonar atriði rædd og æfð, eitthvað "sem gæti komið á prófi". Annars veit ég ekkert um þetta. Ég reyndi bara að vera ekki fyrir.


Þessi röru: Kiddi, Sarah, Perla ok Þormar.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 maí 2018 21:16 - 10 maí 2018 21:30 #6 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic 3* æfingar í maí
Verkefni laugardag 12. maí.
Góðir 3ja stjörnu kandídatar! Ætlun okkar var að æfa í öldu eins og s.l. helgi en það verður ekki í boði, spáð er blíðu og sléttum sjó. Þá gerum við annað. Förum í róður sem er í lengra lagi miðað við venjulega félagsróðra og þarf að vera 3 klst. eða 15 km (8 Nm) eða lengri. Það er ekki erfitt að finna slíkar leiðir á róðrasvæði okkar, en Viðeyjarhringur er aðeins um 10 km og nægir því ekki. Lítum á þetta sem ferð sem þið eigið að undirbúa:
  1. Verðið ykkur út um kort af svæðinu eða prentið svæðið af kortasjá landmælinga ( kortasja.lmi.is/ )
  2. Teiknið inn á kortið leggi, vegalengdir, stefnur og tíma miðað við 5 km/klst
  3. Skoðið hvernig mun standa á sjávarföllum ( www.ukho.gov.uk/Easytide/easytide/SelectPort.aspx )
  4. Skoði vindaspá ( www.vedur.is/vedur/spar/thattaspar/ )
  5. Skoðið ölduspá ( www.vegagerdin.is/vs/olduspa-a-grunnslod/?startPlace=1 )
  6. Gerið lista um búnað sem þið ættuð að hafa með þó þið eigið ekki allt
  7. Með þessu sláum við tvær flugur í einu höggi:
  • Þið eigið að hafa farið a.m.k. þrjár svo langar ferðir
  • Prófið verður hugsanlega byggt upp sem slík ferð
Ég mæti í Geldinganes kl. 9:30 og lít á undirbúning ykkar, en fer ekki með, því að ég fæ fólk á námskeið í hádeginu. Ef við erum heppin fáum við einhvern reyndan til að vera róðrastjóra í ferðinni.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 maí 2018 07:14 #7 by Andri
Replied by Andri on topic 3* æfingar í maí
Gott að þetta fór vel. Hér er góð uppskrift:
villimadurinn.is/grafnar-skarfabringur

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

06 maí 2018 21:01 - 07 maí 2018 08:35 #8 by Orsi
Replied by Orsi on topic 3* æfingar í maí
Frábær samantekt og frábær dagur.

Hvað varðar umrædd ferðalok, þá gerðist eftirfarandi:

Á heimleið þurfti ég endilega að reka augun í plastrusl á Kríusandi og út á Þórsnes. Stökk í land 2-3 sinnum og kippti þessu um borð. Dróst afturúr hópnum - en hvorki undirr. né aðrir rmeð áhuggjur sem endranær. Nema hvað í síðasta skiptið, fangaði athygli mína aðframkominn skarfur sem reyndist vera með girni út úr kjaftinum. Ég náði honum eftir smá eltingarleik, og togaði ógeðið út úr honum og gekk að mér fannst vel. En svo stóð allt fast og ljóst var að restin var flækt um innyflin og fuglinn nánast kafnaður þegar hér var komið sögu. Og í því slitnaði girnið. Ekkert meira hægt að gera og aflífun var eina úrræðið úr þessu. En þá fattaði ég að báturinn minn var kominn út á haf. Fuglinn var snúinn í snatri og minning hans heiðruð eftir hetjulega en vonlausa baráttu við úrgang okkar mannfólksins. Sem betur fer rak bátinn upp á eiði - en árin hafði haldið áfram sem ákafast. Staða mín var sú að ég var ekki með síma eða talstöð, ekki vara ár eða neitt. Haldiði að sé til fyrirmyndar? Og ekki blys. Og þá skall á með éljum. Nú, ég sjósetti bát og tók sénsinn á að geta buslað með höndunum og náð árinni. Þetta tókst með tilheyrandi fyrirhöfn og ískulda um hendur. Skömmu eftir að ég náði árinni, birtust Kiddi og Eymi út úr hríðarkófinu - að leita að mér. Gæðadrengir. Þeir höfðu snúið við með grun um að ekki væri allt í góðu. Svona var þetta.

PS. Ég fer ALLTAF með varaár og fjarskipti. Nema núna auglóslega hm. Höfum við ekki öll sagt okkur að daginn sem við SLEPPUM þessum öryggishlutum, þá munum við þurfa að nota þá? Þakklæti mitt fyrir að sleppa með skrekkinn er ósvikið og innilegt. Og skömmustulegur innra með mér kom ég í land. Ég reifa þessa frásögn sem innlegg í atvika- og öryggisumræðu með hvatningu til ALLRA um að hafa þetta dótarí meðferðis. Í ALLA róðra. Andskoti var þetta glatað.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 maí 2018 19:12 - 05 maí 2018 20:02 #9 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic 3* æfingar í maí
Jú háttvirtur kennari! Reyndar er ég búinn að drekka kaffi með kennaranum, skrá 3 nýja nemendur á námskeið, bjóða fólki heim, senda gjafakort fyrir námskeiði til styrktarfélags barna og gera við frárennsli undir handlaug og loks hugleiða 3ja * æfinguna síðan í morgun.

Þetta var afar gagnleg æfing þar sem okkur tókst að nýta aðstæður, vind og öldu. Grótta var of stór fyrir okkur í dag, aldan í Syðri Eiðisvík vestan og sunnan við Eiðið sem skiptir Viðey var hæfileg fyrir okkur til æfinga. Sjósetningar, lendingar, stjórnun úti í öldunni og rabb um verklag í stærri öldu. Loks bjarganir við Gufunesbryggju úti í vindstrengnum. Ferðalok Örsa eru sér þáttur sem ekki verður sagður hér.

Aldan var minni en metri, 1-2 fet eftir staðsetningu, vindurinn var aftur á móti byljóttur eins og háttur er suðvestan áttar og sló trúlega upp í 15 m/s þó hann væri að jafnaði um 8 m/s. Það er allt annað að leysa félagabjörgun við slíkar aðstæður en í kyrru veðri. Maðurinn í sjó sem hangir á stefni virkar sem rekakkeri, kajak björgunarmanns snýst þá upp í vind og þegar reyna á tæmingu leggst hann aftur með samsíða og er erfitt að ráða við þá hegðun. Nú er það ágæt heimavinna kandidata að velta fyrir sér hvað gera má til að ráða betur við slíkar aðstæður.
Annars var þetta bara fínt og allir stóðu sig vel. 3ja stjörnu hópurinn voru 4 ræðarar (Erna, Kristinn, Indriði,Sarah) en fleiri eru ekki á landinu eða í grenndi við Höfuðborgina um sinn.

Að lokum ber að þakka Örlygi og Eyma fyrir gæðamikið samstarf og Smára fyrir góða nærveru :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 maí 2018 18:22 #10 by Orsi
Replied by Orsi on topic 3* æfingar í maí
Guð minn almáttugur, á ekki að skrifa um æfinguna rektor minn? Það er dagsekt við að geyma þetta í meira en 4 klst.
Þetta var frábær æfing. Nú bíðum við eftir skýrslu rektors.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

03 maí 2018 09:59 #11 by Orsi
Replied by Orsi on topic 3* æfingar í maí
Ég skelli mér með.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

02 maí 2018 12:16 #12 by Gíslihf
3* æfingar í maí was created by Gíslihf
Það líður að lokum þessa 3ja stjörnu tímabils í Kayakklúbbnum.
Við æfðum undir Gullinbrú í gær 1 maí og framundan eru æfingar við Gróttu næstu tvo laugardaga 5. og 12. maí. Þar er meiri alda en við Geldinganes. Tvö úr hópnum verða á Symposium í Anglesey/Wales næstu helgi og þar fæst góð þjálfun.

Það lítur út fyrir meters ölduhæð n.k. laugardag þannig að þá náum við einnig að æfa sjósetningu og lendingar í öldu.

Svo bendi ég á æfingu í Laugardalslaug sd. 13. maí.

Höfum samráð um bíla þegar nær dregur helginni.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum