Tekið af korkinum frá 13.06.2008 

Fjórtán réru í kvöld. Einn atvikamesti róður lengi.

NV stinningskaldi og svolítil alda út að norðurenda Viðeyjar, þar sem verulega tók að þyngjast róðurinn í stórum öldudölum frá úthafsöldu. Reyndar brotnuðu þær ekki langt úti fyrir landi þannig að þetta var allt undir stjórn, þótt hægt gengi. Það var síðan við enda eyjarinnar sem fór að kárna gamanið. Á þessum tímapunkti var róið í þremur hópum og urðu fjöldahvolfanir í þeim öllum. Síðasti hópurinn, 4 manna lenti í hvolfunum beint undan norðurhluta Viðeyjar þar sem braut á eyjunni og bisaði við félagabjörgun og dráttartog rétt utan brimgarðsins. Þarna urðu þrjár hvolfanir í miðjum atganginum og munaði hálfri bátslengd að menn og bátar færu sem einn inn fyrir brimgarðinn.

Á meðan var næsti hópur að berjast við svipaða uppákomu aðeins sunnar og þar var dráttarklárinn Maggi í hörkuvinnu við línutog og bras sem endaði með því að hann fékk árablað í hausinn líkt og Þráinn Sigfússon öxi Skarphéðins á Markarfljóti, nema hvað Maggi lifði af en Þráinn ekki. En Maggi er með myndarlegt strik fyrir ofan augabrúnina. Þá segir frá fremsta hópnum sem fékk líka sitt sund nokkru utan við Eiðið þegar tvær hvolfanir urðu og enn eitt sundið. Hálfgert neyðarkaffi var tekið á Eiðinu og reynt að stoppa yfirvofandi ofkælingu með te og nothæfum flíkum. Heim var síðan haldið um Viðeyjarsund meira og minna í dráttartogum og stuðningsbátaflekum í hliðaröldu.

Þetta gekk ágætlega en rétt utan við Fjósaklettana kom svo lokasyrpan í þessum hvolfunum, en þar var skárri sjór og félagabjörgun gekk vel. Heitt á brúsum og dráttarlínur skiptu sköpum í þessum róðri. Og samvinna. Róður sem maður gleymir ekki í bráð.

Það má líka bæta við að í 4 manna hópnum slitnuðu tvær línur í miðjum klíðum. Í fyrra tilvikinu raknaði hnúturinn upp en í því seinna losnaði belti af fyrir slysni. Það fór smátími í að endurhnýta. Þetta bras í gær var ekki hnökralaust. Ég sá klaufavillur bæði hjá mér og öðrum. En margt var rétt gert.
 

Þetta kallar á öryggisumræðu í félagsróðrum ekki síst í því ljósi að þeir eru mjög tíðir og sífellt sækja nýliðar inn á þessi mið. Ég er með nokkrar tillögur sem mætti skoða t.d. á félagsfundi yfir kaffi og hrískubbum og leggja meitlaða ályktun fyrir stjórn. Sjálfsagt hafa aðrir einhverjar tillögur líka.

 

(Maggi) :

þetta var róður í hressara lagi má segja , það reyndi verulega á allt sem menn kunnu en frábær róður þar sem allt gekk upp að lokum allir fengu feitan bita í reynslu pokann sinn.

(Svenni):

... skemmtilegur róður í gærkvöldi þar sem reyndi á flest það sem maður hefur lært í kayaksportinu.. Var mjög sáttur að hafa tekið hjálminn með og notað allan róðurinn.
Það var aðeins 1 sem hvoldi í fyrsta hópnum og það var undirritaður. Við vorum komnir í öldubrotið sunnan megin Viðey í flott surf, þegar ég varð að gefa eftir að hafa fengið 3 brot í röð yfir mig. Fyrst var það High brace sem reddaði málunu svo hefðbundin velta, en Ægir hafði svo betur á endanum. Það er ljóst að maður verður að æfa veltuna báðum megin á bátnum.

Hvað urðu velturnar margar? 9?

Þessum róðri hefði ég ekki viljað missa af.

(Tóti Matt):

Kærar þakkir fyrir frábæran róður. Nú lærði maður líka hvað það er mikill munur á þeim sem kunna nóg til að hjálpa sér sjálfum og hinum sem geta hjálpað bæði sér og öðrum. En dráttarlínan mun ekki gleymast aftur. Þórólfur.

 

 

(Gísli Hf): 

Ég var í aftasta 4ra mann hópnum.  Það var um kl. eitt eftir miðnætti sem ég lagðist í rúmið nokkuð lúinn og sagði eiginkonunni frá því helsta.
Það kom mér á óvart að ég átti erfitt með að rekja nákvæmlega hvernig hlutirnir gerðust og í hvaða röð - margt gerðist hratt og óvænt.
Hún sagði bara - \"þið þurfið að fara vel yfir þetta\" - og ég er mjög sáttur við að eiga konu sem fer ekki í flækju og vill fá loforð um að maður hætti öllu svona.
Eftir ferðina er ég feginn að hafa haft hjálm, dráttarlínu, ullarundirföt sem voru vel blaut án þess að mér væri kalt og það sem mestu skiptir góða félaga sem héldu ró sinni og unnu úr málinu þótt stutt væri eftir í urðina í fjörunni.