Article Index

Þann 7 ágúst  var haldið Breiðafjörð þar sem við  fetum í fótspor Reynis Tómasar sem hefur haft veg og vanda af þessum vinsælu ferðum í áratug eða svo, við nutum góðs af góðu orðspori Reynis og Kayakklúbbsins hvar sem við bárum niður við undirbúning ferðarinnar.


Akureyjar undirbúnar

Akureyjar urðu fyrir valinu að þessu sinni  en sannarlega eru margar frábærar eyjar sem við hefðum getað heimsótt.

Við unnum heimavinnuna eftir bestu getu, hringdum í eyjaskeggja Birgi og Lilju og fórum i heimsókn og  skoðuðum aðstæður og handsöluðum leyfi til dvalarinnar, sem var auðfengið, ásamt því að hitta bændur á Skarðströnd, Höllu Steinólfsdóttur sem er eigandi  hluta Akureyja og Sigurð og Steingrím eigendur Hrúteyja.

Allt var klappað og klárt nema veðrið þar höfðum við ekki eins góð sambönd enda var útlitið ekki uppá það besta fyrir helgina, norðaustanátt og vindur i efri mörkum að okkar mati en i ljósi þess að hópurinn sem var skráður til fararinnar  var sterkur og vel vanur héldum við okkar striki þó efasemdar raddir innra með okkur létu vissulega á sér kræla.


Fimmtudagur Staðahóll

Við Guðni ásamt Kollu, Gísla Karls, Gunnari Inga og Marc  héldum i dalina eftir hádegi á fimmtudegi  og slógum upp tjöldum á Staðarhóli.

Kvöldið var svo notað til að skoða aðstæður í Akureyjum frá landi og útlitið var ekkert mjög slæmt en heldur ekki hið besta.

Við höfðum undirbúið plan B ef hið fyrra gengi ekki eftir, höfðum verið i sambandi við  Jón i Purkey um að fá að koma  þangað og Svein eiganda Hnúks til að fá að skilja bila eftir við Kvennhólsvog, hvoru tveggja var vel tekið.

Við ókum út fyrir Klofning og í Kvennhólsvogi  var útlitið miklu betra en Skarðstrandar megin og þar sem veðurútlit var svipað fyrir helgina og það var  þetta kvöld töldum við okkur hafa nokkuð gott B-plan.


Föstudagur Ytra Fell

Föstudagur rann upp og við Guðni tökum daginn snemma og fórum i bíltúr út á Skarðströnd og munduðum kíki og vindmæli og útlitið var ekki gott hvítt i báru  og mælirinn sló í 13 m.sek. i landi við Foss þar sem þó virtist vera mun lygnara en úti á firðinum.

Við héldum til baka þar sem von var á ræðurum sem við ætluðum að hitta um hádegi. Í ljósi aðstæðna  kvöldið áður tókum við fram B-planið, hringdum nokkur símtöl og málið virtist vera leyst, við stefndum á Purkey.

Við Kvennhólsvog var ekki lognið sem við höfðum vonast til að finna þar heldur hávaða rok þar sem vindmælir Guðna sló i 23 m.sek a augabragði.

Þar fór það plan fyrir lítið og nú voru góð ráð dýr og ýmsum möguleikum velt upp, i samtölum mínum við Svein á Hnúki hafði hann nefnt að ágætis  aðstaða til sjóferða og tjald dvalar  væri á Ytra Felli sem er nokkrum kílómetrum austar á Fellsströnd, Gunnar Ingi átti heimboð á Harrastöðum sem eru i næsta nágrenni Ytra Fells  þannig að við áttum uppi i erminni plan C og D, símanúmer Björgvins á

Ytra Felli var grafið upp og hringt, þar gátum við fengið að sjósetja og tjalda ef okkur hugnaðist það.

Þar var veður allt annað hægur vindur og útlitið allt annað en vestan við eyjaklasann, þar sem við vorum alls óundirbúnir fyrir þennan dvalarstað var ákveðið að tjalda og róa dagróðra enda aðstaða þarna góð og salernisaðstaða og vatn  i boði gegn vægu gjaldi.

Föstudags seinnipart var róinn stuttur róður inn að Harrastöðum svona til að skoða aðstæður þar, þegar í náttstað var komið var safnast  saman i klúbbtjaldinu og spjallað .


Laugardagur Purkey

Laugadagurinn var var nýttur i dagróður i vestur átt, við lofuðum engu en stefndum á að hádegismatur yrði snæddur í Purkey, sem við og  gerðum.

Guðni og Gunnar Ingi leiddu hópinn örugglega milli eyja og hólma og i gegnum strauma.

Straumurinn Knarrarbrjótur sem var á þriðja tíma á útfalli og vel straumharður, vel gekk að fara yfir hann enda öflugur hópur a ferð og var leikið og æft þar um stund áður en haldið var áfram i Purkey, þar tókum við góða hvíld við sumarhús sem stendur við vog að sunnanverðu nokkuð frá gamla bænum þar sem við ætluðum að tjalda ef plan B-gengi eftir.

Á meðan við snæddum og skoðuðum okkur um i eynni voru fallaskipti þannig að við fengum strauminn með okkur a leiðinni til baka sem var skemmtilegt enda mikil ferð á hópnum þegar mest lét en þó ekki meira en svo að allir réðu vel við aðstæður og í  lok ferðar fengum við smá bónus þegar við sáum örn og unga á hreiðri tilsýndar.

Síðasta spölinn fengum við svo að kljást við mótvind sem jókst þegar leið á daginn.

Á laugardagskvöldinu var svo eins og vanalega i þessum ferðum hópast saman og grillað eða eldað og varðeldur kveiktur. Við Guðni treystum okkur ekki i skó Reynis og segja sögur og fróðleik um staðinn en höfðum nefnt það við Hildi þar sem hún er mesti sögusnillingurinn i hópnum og hvort hún  gæti  tekið þann hefðbundna þátt að sér sem hún auðvitað tók vel i en þar sem hún hafi lesið Akureyja sögur  má sá þáttur bíða betri tíma.


Sunnudagur vindur

Sunnudagsróðurinn var skipulagður sem stuttur róður með landi þar sem veðurútlit var þannig að vænta mátti vinds af landi, strax við upphaf róðrar var tekið að hvessa og steypti vindur sér niður fjöllin sem gerði að við fengum ágætis æfingu í að róa i sterkum hliðarvindi og öldu.

Þar og annarstaðar sýndi yngsti þátttakandinn Viktor Kristinnson 14 ára  snilldar takta sem upprennandi mjög öflugur ræðari.


Ferðalok

Við höfðum fyrir ferðina tryggt okkur hjálp öflugra ræðara við hópstjórnun sem gerði að við vorum vel i stakk búnir að takast á við aðstæður sem  upp kynni að koma en ekki kom til neinna aðgerða enda eins og fyrr sagði mjög öflugur og vanur  hópur.

Ræðar voru  auk undirritaðra:   Svenni, Hildur, Kolla, Gísli K. Gunnar Ingi, Örlygur, Palli R. Perla, Klara, Þóra,  Egill,  Hákon,  Kristinn, Viktor, Ólafía og Marc.

Guðni Páll Viktorsson Lárus Guðmundsson

 

Myndir frá :

Myndbönd frá: