Það var fámennt en góðmennt í síðasta róðri ferðanefndar í dag (að undanskildum næturróðrunum).

Fimm gallvaskir ræðarar mættu á Miðsand um 9:30 og byrjuðu að hafa sig til er við fengum óvænta heimsókn og reyndist sá mikill senuþjófur. Heyrðum við bara allt í einu „meeee“ og sáum hvar geit kom hlaupandi til okkar (greinilega heimalingur) og spígsporaði hún allt í kringum okkur er við höfðum okkur til (sjálfsagt að vonast eftir einhverju góðgæti). Er kom að sjósetningu rétt rúmlega 10:00 fylgdi þessi elska okkur alveg niður í fjöru og fékk smá flatbrauð að skilnaði sem henni fannst nú heldur „klént“ en það var þó betra en ekkert. Róið var yfir í Geirshólma í blíðskaparviðri og spegilsléttum sjó og tókum því rólega þar án þess þó að nema land. Þaðan var svo þverað beint yfir á Þyrilsnes og fylgdum þar landi fyrir Geirsnesið áður en þverað var yfir í mótvindi, upp á 8 m/s að við álitum, en vel gekk að halda hópinn og námum við land svoltið innan við Hvítanes. Nesti var snætt í góðri grasbrekku, undir þungbúnum himni í rigningu og regnboga, fljótt skipast hins vegar veður í lofti og áður en nestispásan var úti hafði lægt verulega.

Eftir nestisstopp var róið aðeins meðfram landi áður en þverað var á nýjan leik yfir að Þyrilsnesi og þaðan róið sömu leið til baka. Þegar komið var að bryggjunni var tekin smá útúrdúr og róið undir bryggjunni áður en land var numið kl. 13:30.

Vel gekk að halda hópinn alla ferðina sem er nauðsynlegt í svona ferðum.

Þess skal geta að upp úr krafsinu höfðust einir 13,5 km.

Þessir réru: Maggi B, Friddi, Harpa, Sveinn Muller og Perla.

Myndir:

- Sveinn Muller

- Perla