Uppskeruhátíð SÍL var haldin um síðustu helgi í félagsheimili Ýmis. Félagar úr öllum siglingafélögum á höfuðborgarsvæðinu mættu og skemmtu sér saman yfir góðum mat og enn betri félagsskap. Meðal annars voru veitt verðlaun fyrir kayakmann og konu ársins:

Kayakkona ársins 2012:

Þóra Atladóttir: Þóra er Íslandsmeistari kvenna í sjókayak 2012. Hún sigraði fjölmennustu keppni sumarsins, Reykjavíkurbikarinn, og var eina konan sem tók þátt í Hvammsvíkurmaraþoninu. Þóra var einnig hársbreidd frá því að taka titilinn í fyrra, en missti af fyrsta sætinu í hlutkesti eftir keppnir sumarsins. Þóra er feyki öflugur ræðari og mjög sjáanleg í öllu klúbbstarfi, sundlaug, félagsróðrum, æfingaróðrum, ferðum o.s.frv. Alltaf tilbúin að miðla reynslu og aðstoða.

Kayakmaður ársins 2012:

Ólafur Einarsson: Ólafur er Íslandsmeistari karla í sjókayak 2012. Hann sigraði þær sjókayakkeppnir sem boðið var upp á 2012 örugglega og er vel að titlinum kominn. Ólafur er Íslandsmeistari fjögurra af síðustu fimm árum og þar kemst enginn með tærnar sem hann hefur hælana. Ólafur er einnig formaður ungliða- og fræðslunefndar Kayakklúbbsins og hefur undanfarið ár skipulagt æfingahóp sem stundar reglulega róður á brimskíðum sem er skemmtileg viðbót við hinn hefðbundna sjókayakróður.