Þessi ferð var titluð "Vatnsfjörður" í ferðakynningu klúbbsins, en gert ráð fyrir róðri í Arnarfirði til vara. Áætlað var að hafa bækistöð í Flókalundi í Vatnsfirði og róa þaðan vestur í Hagavaðal fyrri daginn og yfir í Skálmarnes og Kjálkafjörð þann seinni.

P.reynis

6. júlí

Dagana fyrir þessa ferð í Vatnsfjörðinn var veðurspá ekki upp á það besta. Aðeins tveir gáfu áhuga sinn til þátttöku til kynna og annar afboðaði sig síðan. Því var ákveðið að fella þessa klúbbferð niður. Undirritaður lagði þó ekki árar í bát heldur hélt einn vestur með allt sitt hafurtask og treysti á að ef veður á Barðaströndinni yrði ekki hliðhollt þá gæti vel ræst úr í Arnarfirði.

Það var suðlæg átt og súld er ég kom í Vatnsfjörðinn um miðjan dag 6. júlí. og ákvað að kanna aðstæður í Hagavaðli og bætti því um 20 km við þá 340 km sem þegar voru eknir. Úsýni var takmarkað, lágskýjað og rigninigarsuddi, en vindur frekar hægur. Ákvað ég að gista í Krossholti. Eftir kvöldmatinn afréð ég að taka smá upphitunarróður um Hagavaðalinn. Beið ég átekta eftir kvöldflóðinu og hélt síðan niður að Birkimelslaug, sem er þar við sjávarborðið. Það var stórstreymt um þetta leyti og auðvelt að koma bátnum á flot við laugina. Dúllaði ég mér um lygnan vaðalinn í þokunni í eina 2 tíma og hafði gaman af.

Þar lágu 7 km.

7. júlí

Morguninn eftir var veður ámóta og afréð ég því að halda akandi yfir í Arnarfjörð í þeirri von að þar væri bjartara yfir. Frá Flókalundi og yfir í Trostansfjörð er um brattan háls að fara, en ekki nema 20 km. Greinilegt var að Barðastrandarfjöllin tóku við mesta suddanum og var hæglætisveður, þurrt og þokkalega bjart yfir Arnarfirðinum. Réri ég af stað um hádegisbilið í skínandi veðri frá svonefndum Hjöllum í Trostansfirði. Fór ég með landi fyrir Ófærunef. Þá blasti við Geirþjófsfjörðurinn, hátt í 8 km langur.

Í Geirþjófsfjörðinn liggur enginn akvegur og þótti mér freistandi að róa eitthvað inneftir suðurströndinni. Endaði ég reyndar í fjarðarbotni. Þar var nokkuð um smábáta við legufæri og fólk á ferli. Hélt síðan sem leið lá út norðuströnd fjarðarins. Blástrar frá hnúfubak eða hrefnum sáust langt að og voru þeir greinilega í einhverju æti og fuglagerið vitlaust fyrir ofan. Ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð. Víða var hægt að taka land án mikillar fyrirhafnar, t.d. í Steinanesi. Þar hefur verið búið góðu búi áður fyrr og nokkuð um menjar frá þeim tíma. Ég hafði lengt talsvert fyrirhugaðan dagsróður með því að halda inn Geirþjófsfjörðinn, en ég hafði litlar áhyggjur, því dagsbirtan endist nær allan sólarhringinn á þessum tíma árs. Einnig var víða mögulegt að finna þokkalegt tjaldstæði á leiðinni inn í Dynjandisvog, en þangað var förinni heitið. Víða voru skemmtilega klettamyndanir með ströndinni og ekki síst við vitann á Langanesi. Frá Langanesi tók við drjúgur róður inn að Dynjandisvogi, en veðrið var gott og ekkert lá á. Reyndar ákvað ég að nátta ekki á tjaldstæðinu neðan við fossinn Dynjanda, heldur 2-3 km utar þar sem heitir Deildarnes. Þaðan var útsýni til fossins en niðurinn lágvær.

Þetta var orðinn langur dagur, klukkan hálf ellefu að kvöldi. Það var því ekkert annað að gera en njóta útsýnis litla stund með öldós í hendi og taka svo á sig náðir.

Um 45 km lágu þennan dag.

8. júlí

Eftir morgunverð var tilvalið að halda léttlestaður inn að Dynjanda. Raunar var ekki síðra að skoða lítinn foss aðeins utar þar sem Svíná fellur í voginn. Eftir að hafa endurnýjað vatnsbirgir og tekið saman pjönkur mínar á hinu einstaka tjaldstæði hélt ég út fjörðinn sömu leið og daginn áður.

Munurinn var þó sá að nú horfði ég sífellt út hinn stóra Arnarfjörð. Í þetta sinn þveraði ég Geirþjófsfjörðinn og tók land við Hjallana þar sem ferðin hófst daginn áður. Það var um kvöldmatarleytið og lágu ríflega 30 km þennan daginn. Er hér var komið sögu var um tvennt að velja, að gista í Flókalundi eða brenna í bæinn. Síðari kosturinn varð fyrir valinu.

Þannig lauk þessari fyrirhuguðu klúbbferð með eins manns róðri og ekki laust við að hringfaratilfinning gerði vart við sig, sem er ekki leiðinleg.

Páll Reynisson

 

P.S. Læt nokkrar myndir fylgja. Það er auðvitað fátt um fólk á myndunum, hross og annar búfénaður sést og svo báturinn af og til.