Grænlenskar árar eru mikið í tísku núna .  Í Gamlársdagsróðrinum okkar sýndi ég þessari nýjung mikinn áhuga - svo eftir var tekið.
Lárus G. var með tvær á sínum bát og var því aflögufær með að lána mér varaárina sína til prufu fyrir mig. Og þegar að Leirvogshólma var komið þá hófust mín fyrstu kynni af West Greenland kayakár- árategund sem þróuð hafði verið í þúsundir ára hjá Inúitum á heimskautaslóðum.  Þetta var stuttur róðrarleggur sem eftir var frá Leirvogshólma yfir að eiðinu við Geldinganesi-svona 15 mínútna róður. Eftir fáein áratök fékk ég strax mjög góða tilfinningu fyrir árinni. Hún var léttari í átaki fyrir axlir og handleggi. Þar sem árablöðin eru samása er snúningur um únlið ,óþarfur. Það léttir á þeim handleggshluta. Á móti koma vindáhrifin á það árablað sem uppi er hverju sinni þvert á árablaðið- en þar sem það er miklu mjórra lengst frá ræðaranum verða áhrifin  miklu minni en á þessum hefðbundnu spjaldaárum. (Evrópsku)
Ég varð sem sé heillaður af þessari Grænlenskættuðu kayakár- þó um skyndikynni væri á ræða.  Og um áramótin hvarf þessi góða reynsla ekki svo glatt frá mér. Þar sem ég var ekki reiðubúinn að leggja í mikla fjárfestingu til að komast yfir svona kjörgrip-þá ákvað ég að smíða mér eitt stk

West Greenland Paddel

Ákvörðun um smíði tekin

Og hvernig væri best að bera sig til við það ?  Internetið er töfratæki og þar er upplýsingar að finna um allt milli himins og jarðar. Ég sló inn leitarstrenginn „ Make West Greenland Paddle „ Fram kom allskonar um smíði á svoleiðis . Best leist mér á sem hann Chuck Holst setti upp á „ http://www.qajaqusa.org/QK/makegreen2.pdf".

Hann var greinilega reynslumikinn þekkingarmaður á þessu sviði og útfærði gerð svona kayakár mjög vel fyrir heimasmíði . Ákvörðun var tekinn.
Þá var það fyrsta að ná í efni . Margar tegundir af við koma til greina- en fyrst og fremst verður viðurinn að hafa lítinn eðlisþunga en vera þó nægjanlega sterkur fyrir svona átök sem kayaktök eru. Greni, fura,askur, Cedrus , allt kom þetta til álita. En samt er viður ekki bara viður. Efnið þarf að vera án kvista og með lágt rakastig og spennulaust (ekki undið) Best er að viðurinn hafi vaxið og dafnað  á láglendi og því ekki alist upp í sviftivindum háfjalla – sem sagt  slakur og ekki með innbyrðis spennu eftir erfitt tíðarfar.  Efnissalan í Kópavogi sérhæfir sig í svona sérvöldum viðum. Það eina sem þeir áttu til var Cedrusplanki 48 x 150 x 2150 m.m, spennulaus, kvistalaus og með hæfilegan raka. Og hann Chuck Holst er einmitt mjög hrifinn af Cedrusvið vegna léttleika og vinnslu. Ég keypti því Cedrusplankann  þó að hann væri örlítið stærri en gullna reglan með stærð planka í kayakár er 2 x4.  Og lengdin passaði – en kayakár af þessari gerð á að vera sem næst þeirri lengd að fingurgómar nemi við efribrún planka - þegar  handleggur er uppréttur.

Smíðin

Byrjað var á að hefla palankann til á yfirborði til að auðvelda að strika ytri línur þess efnis sem kayakárin krafðist. Stærðin á  minni kayakár var ákvörðuð 80 mm þar sem árablöðin eru breiðust og lengdin 2140 m.m og mesta þykkt 40 m.m .

Og verkfærin sem ég hafði tök á var vel brýnd handsög, hefill bæði meðalstór og lítill. Þvingur, stingsög vélknúin , málband og þykktarmælir. Blýantur , réttskeið og vinkill til að draga réttar línur. Þjöl og sandpappír af grófleika 80-240 . Tvö stk búkkar og annar með þvingustykki .

Plankinn var því í breiðaralagi svo saga þurfti renning af – sem þá getur orðið hluti næstu árar hjá mér –hugnist mér það og þá ásamt öðrum við til að ná fullri breidd – gæti orðið skrautlegri ár. En það bíður síns tíma.

Nú hefur efnishluti þess sem í árina fer verið sagaður út úr plankanum og í þeirri útlínustærð sem árin þarf. Og til hliðar á myndinni er afgangsrenningur af plankanum.
Á myndinni er sjáanleg miðlínustrik sem eru einkar mikilvæg til að árin verði í einni línu enda á milli bæði á hlið og kant. Það er mjög mikilvægt.
Þegar hér er komið tekur við að merkja fyrir þykkt árablaðanna- en þau mjókka frá miðju og til endanna . Á fullunninni ár verður blaðþykkt fremst um 13 m.m  en áraskaftið 38-40 m.m . Það er átakaverk að handsaga allt þetta efni til í hina endanlegu líkamsstærð árinnar. Það er á við hörkur róður í mótvindi – klukkutímum saman.  Á þessu stigi er vélknúin bandsög – draumur smiðsins.

Hér er svo komið smíðinni að búið er að saga allt til og frum heflun eftir sögun lokið. Einnig er búið að forvinna áraskaftið og rúnna það til að mestu.

.

Og hér er árin orðin klár til endanlegrar vinnslu á árablöðunum –forma þau til kantana og blaðendanna – Það er mikilvægt verk vegna tengsla við sjóinn á róðri. Áraskaftið er fullunnið afrúnnað 38 m.m næst árablöðunum til gripa og 40 m.m á miðjunni til styrktar áraskaftinu- en vogarafl árablaðanna endar á miðju skaftsins. Það er að ýmsu að huga við smíðina

Og nú er heflað og slípað bæði með sandpappír og þjöl allt eftir hvar smiðurinn er með hendurnar hverju sinni á gripnum sem óðum er að nálgast lokaáfangann .

Á þessu stigi þarf að vanda til – sérstaklega. Árablöðin eru einn mikilvægasti hlutinn.Vinnsla þeirra í sjó hefur áhrif á allan róðurinn og listgreinina að róa kayak ,ásamt því að létta ræðaranum lífið og veita honum ánægju. Það er ekki lítið.

smíð

Smíðalok

.

Og nú er West Greenland kayakárin mín full búin, Olíuborin með „Pure Tung Oil „ sem er vistvæn lífræn viðarolía – þróuð í Kína fyrir þúsundum ára .

Og svo er spurt eins og þegar nýr einstaklingur lítur ljós heimsins fyrst  „Hvað er afkvæmið þungt og langt ?

Við fæðingu reyndist West Greenland árin  vega 1000 grömm og er þó olían ekki orðin vel þurr eftir fæðingu og lengdin er 2135 m.m og mesta blaðbreidd er 80 m.m
Þetta er sagan um tilurð minnar nýju kayakárar „West Greenland „ gerð.
Svo er bara að fara að róa

smiley