Aðalfundur Kayakklúbbsins 2014 fór fram fimmtudaginn 6. febrúar að viðstöddum tæplega 30 félagsmönnum og á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Stjórn og nefndir lögðu fram skýrslur sínar og farið var yfir endurskoðaða reikninga klúbbsins. Fjárhagsleg staða klúbbsins er sterk og fundurinn samþykkti að hafa félagsgjöld óbreytt fyrir árið 2014, 4500 kr. Breyting varð á stjórn klúbbsins en Páll Gestsson formaður og Örlygur Steinn Sigurjónsson stjórnarmaður gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Klara Bjartmarz var kosinn nýr formaður og með henni í stjórn voru kosnir þeir Andri Þór Arinbjörnsson, Gísli S Karlsson, Sigurjón Magnússon og Sveinn Axel Sveinsson. Eins og oft áður voru fjörugar umræður undir liðnum önnur mál þar sem meðal annars var rætt um möguleika á því að halda alþjóðlegt kayaknámskeið (symposium) hér á landi, fræðslu og ungliðamál og réttindamál kayakleiðsögumanna og kennara.

Á fundinum fékk Guðni Páll Viktorsson sérstaka viðurkenningu frá klúbbnum fyrir hringferð sína.

Í lok fundarins var fráfarandi stjórnarmönnum sérstaklega þakkað fyrir góð störf fyrir félagið svo og var Reyni Tómasi Geirssyni sem nú tekur sér frí frá ferðanefnd þakkað fyrir að leiða Breiðafjarðarferðir í 10 ár.

Ólafía Aðalsteinsdóttir var fundarstjóri og fundarritari var Sveinn Axel Sveinsson. Fundargerð aðalfundar verður birt fljótlega hér á heimasíðunni.