Við Klumbu

Leið róin: Hestvík-Klumba-Nesjaey-Sandey- Mjóanes og til baka

Kayakklúbbsferð á Þingvallavatn 25.06.2006

Við vorum aðeins fjögur sem mættum á Select við Vesturlandsveg um kl 8.30 að morgni sunnudagsins 25.júní 2006 .. það sýndist því ætla að verða fátt í Þingvallavatnsróðrinum.  Við lögðum samt alveg galvösk af stað og ókum Nesjavallaleiðina í Hestvíkina.  Þegar þangað var komið rétt fyrir kl 9.30 var byrjað á því að spá í veðurútlit dagsins.

Vatnið var spegilslétt en láskýjað og fjallasýn frekar óskýr vegna súldar . Hiti var um 10 °C.   Fljótlega eftir að komið var í Hestvíkina fór fljótt að fjölga í róðrarhópnum og þegar lagt var af stað í róðurinn um kl 10.15 vorum við orðin 14 .  Fyrst var róið að klettaeyjunni Klumbu og siglt um hina mögnuðu hella sem einkenna Klumbu og eru sem sniðnir fyrir kayakumferð. Nú var súldin tekin að tvístrast og ský að stíga til himins…þetta lofaði allt góðu með daginn. Frá Klumbu var stefnan sett á Nesjaey og róið suður fyrir hana..falleg klettaeyja Nesjaey. Þegar hér var komið var sólin heldur betur farin að hella hitageislum sínum á kayakræðrana og sama lognið hélt vatninu spegilsléttu og nú var heldur betur komin alveg mögnuð fjallasýn. Þetta veðurfar hélst síðan alla ferðina. Frá Nesjaey var síðan tekin stefna á Sandey og róið með Heiðabæjarhólma.  Tekið var land í sandfjörunni NV á Sandeynni og haft þar gott kaffistopp og spjall. Sumir lögðu í smá "fjallgöngu " . Útsýni frá Sandey var alveg stórbrotið í þessu dýrindis veðri.  Og för var enn haldið áfram . Nú var róið austur með Sandeynni og stefna síðan sett á Mjóanesið sem var í um 2.2 km fjarlægð. Farið var suður fyrir Mjóanestangann og lent nokkuð innan við hann. Nú var tekinn góður tími í hvíld og næringu og áfram hélt fjörugt spjall.  Himbrimar sungu opg skammt undan landi var netalögn og sást glitta í fangaða urriða þegar horft var niður í kristaltært vatnið.  Frá Mjóanesi var stefnan sett á vestur enda Sandeyjar og róið með henni og að því búnu var stefnt norður fyrir Nesjaey og því næst stefnt á Klumbu. Róið var um hellana og inní Hestvíkina. Og áður en varði var lent við bílana sem biðu okkar í fjörunni í Hestvíkinni.  Afarvel heppnuðum kayakróðri á vegum Kayakklúbbsins var á lokið

Það var ánægður hópur kayakræðara sem hélt heimleiðs eftir góðan hásumardag á Þingvallavatni.

Höfundur :Sævar Helgason

Myndasafn : {2006-06-25_Thingvallavatn}