Það blés hressilega þegar mætt var við höfuðstöðvarnar í morgun. Vindmælir á Geldinganes sýndi að milli klukkan 9-10 var mesti meðalvindhraði 18 m/s og hviður allt að 23 m/s. Vegna veðurs átti róðrarstjóri ekki von á mörgum félögum. Sífelt fleiri mættu og mest voru 16 manns í aðstöðunni. Töluverður tími fór í að ræða veðrið og hvort halda ætti í róður. Að lokum fór það svo að flestir klæddust í galla en þó máttum við sjá af stjörnum krýndum ræðurum sem höfðu þarfari hluti að gera. Farið var á flot sunnan til og róið út að Fjósaklettum. Róið var nokkra hringi umhverfis klettana og var Lárus þrautakóngur. Ein björgun var framkvæmd og tókst vel til þótt hún væri áveðurs og þétt við kletta. Heimferðin sóttist seinlega því róið var upp í stífan vind.

Allir þátttakendur réðu vel við þær aðstæður sem róið var í. Það sem helst reyndist krefjandi í þessum vindi var að snúa bát á lítilli ferð upp í vindinn, beygjuradíus flestra var mikill.
Fyrsti róður ársins á vegum Kayakklúbbsins var staðreynd og þáttakendur sáttir við gott upphaf á nýju róðrarári.

Þeir sem reru voru: Lárus, Sigurjón M., Gunnar Ingi, Þorbergur, Andri, Páll R, Örlygur, Marc, Howard og Egill.