Fiskur á þurru landi!

08 maí 2009 03:57 #1 by Ingi
Replied by Ingi on topic Re:Fiskur á þurru landi!
Já einmitt, Gísli þegar maður er staddur í svona frekar ljótu manngerðu umhverfi langar manni mest til að vera úti í óspilltri náttúrunni. Rotterdam er að vísu með ljótari borgum en þar eru samt perlur eins og Boyman van Boinigen safnið með fullt af VanGogh málverkum og öðrum hollenskum meisturum. Þarna er líka lítið þorp sem heitir Brielle sem ég var vanur að skokka til þegar ég var þarna með reglulegu millibili á rútuskipum Eimskips. Það er gott dæmi um þorp á miðöldum svona um það leyti sem sjóræningjar frá Alsír komu í heimsókn til Eyja. En við sem höfum haft þau forréttindi að róa hér í þessu frábæra umhverfi hér finnum það best hvað við erum heppin þegar við komum í það sem sumir kalla siðmenningu.:dry:

kk.
Ingi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 maí 2009 04:56 #2 by Gíslihf
Það er mikið á dagskrá hjá klúbbnum þessa dagana, ferðir næstu tvo laugardaga, fyrst sjókayakferð á stöðuvatni og straumfélagar velkomnir. Síðan er straumkayakferð í Hvtítá og sjómenn velkomnir! Þetta fer að verða ruglandi.

Við sem hittumst hjá Magga til að æfa skipti á skeggvír og fara yfir viðgerðir og viðhald almennt og var það vel heppnað, við fengum einnig að verða ýmsum hnútum kunnugir hjá Örlygi en við höfum ekki enn heyrt hvernig fór fyrir öldureið félaganna frá Álftanesi.

Ég er hér í Rotterdam í vinnuferð í þrjá daga, gisti við höfnina, stórbyggingar eru hér í byggingarstíl sem minnir á skip eða t.d. brú á skipum, sjóminjasöfn, veitingahús á fljótaskipum og hótelið mitt fullt af skipalíkönum. Auk fundargagna er ég að lesa bókina Sea Kayaking eftir John Dowd, sem Lárus lánaði mér.

Það er margt sem má dást að hér, en allt er það manngert og órafjarri íslenskri náttúru. Ég hef sökkt mér svo niður í kayakmennsku í vetur að ég finn það hér í stórborginni að það að vera kayakræðari er orðinn hluti af sjálfsmyndinni, það má segja eins og um fiskinn, að ég sé hér eins og kayakræðari á þurru landi. Ég passa ekki hér, frekar í litlu tjaldi á lítilli eyju eða skeri með þang undir höfði og sel og skarf fyrir nágranna.

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum