Þakkir.

26 sep 2009 04:15 #1 by Gíslihf
Þakkir. was created by Gíslihf
Það er kominn tími til að þakka fyrir sig, en við Lilja fengum peningagjöf frá stórum hópi úr röðum kayakfólks sem var ætluð til að „bjóða ykkur hjónum upp á gistingu og kvöldverð á hóteli að ykkar vali“ eins og sagði í orðsendingu frá Palla formanni með gjöfinni. Við fórum á Hótel Rangá og áttum þar stórfínan sólarhring við góðan kost og aðbúnað. Það er ekki hægt að þiggja slíka gjöf hugsunarlaust, þegar allir hafa meira en nóg að gera við sína peninga – en við nutum þess vel.

Mér þykir þetta sýna jákvætt viðhorf til hjónabands og fjölskyldu en hringferð mín í sumar virkaði styrkjandi á sambandið, enda var Lilja stöðugt að sýna mér umhyggju og merkilegt var að þá nótt sem ég lenti í mestri tvísýnu og þrekraun við Kúðafljót, vaknaði hún án sýnilegrar ástæðu og var óróleg mín vegna og bað fyrir mér.

Það er alkunna að karlmenn sem eru lengi fjarri eiginkonum sínum finna fyrir vissum skorti og fer að verða tíðlitið á aðrar konur. Ég minnist dagsins þegar ég fór frá Raufarhöfn eftir hádegi, reri yfir Þistilfjörðinn, út með Langanesi, fyrir Fontinn og síðan inn með Langanesinu að sunnanverðu. Markmiðið var að komast að Skálum, en það var kominn morgunn og þreytan sótti á og krafturinn var að mestu þorrinn. Bjargið var tekið að lækka og við tók stórgrýtt nokkurra km löng fjara en fyrir augum mér tók hún að umbreytast í ljúfan móa þar sem gott væri að sofa, ég gat varla róið lengra og mér fannst ég verða að komast í land. Staðreyndin var sú að þetta var brött urð undir klettum og þegar ég loks lenti við Skála var þar gott tjaldstæði, hreinlætisaðstaða, gott drykkjarvatn, víðlent og áhugavert umhverfi, í stuttu máli dásamlegur staður til að hvílast á – eins og gott heimili er.
Ég læt ykkur um að skilja merkingu dæmisögunnar.

Kær kveðja,
Gísli H. Friðgeirsson
og Lilja.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum