Reykjanes í haustlitunum

26 sep 2009 22:21 #1 by Ingi
Þegar við Geiri komum í Geldinganesið á föstudaginn fyrir viku tilað sækja Bahaiuna hans, voru dauðþreyttar margæsir að háma í sig fjörugróðurinn við Geldinganesið. Nýkomnar frá Kanada þar sem þær hafa sumardvöl. Á vorin og haustin koma þessar elskur hingað og fita sig aðeins áður en næsti leggur hefst. Þær eru auðþekktar svartar og kubbslegar og eins og með hvítt hálsmen framan á hálsinum. Þegar þær láta sjá sig er óhætt að fara að tygja sig á Reykjanesið bæði vor og haust.

Fyrir þá sem hafa farið á Reykjanesið þarf ekki að hafa mörg orð um róðrana. Næturferðir í Borgarey og á daginn heilsað uppá selina sem umkringja kayakhópinn sem þræðir strandlengjuna í nágrenninu við Hótelið. Röstin var á sínum stað og þurfti einn að snúa botninum upp í öldurótinu sem myndast þegar straumurinn undan brúnni var á fullu eða þvi sem næst. Þeir sem ekki þorðu að fara einir undir brúna fóru í samfloti og héldu sér dauðahaldi í hvern annan á meðan á salibununni stóð og komu svo bíspertir í heitustu laug landsins.

Eftir heilan dag í róðri verða menn auðvitað svangir en ekki tókst okkur að éta kokkinn útá gaddinn í þetta sinn.

Sem sagt frábær ferð í góðum félagskap í stórkostlegum haustlitum og blíðu og hlýju veðri. Þeir sem tóku Kollafjarðarheiði tilbaka fengu extra bónus þar sem tófurnar tippluðu Kjarvalsmálverki sem Guð sjálfur hefði haft heima í stofunni sinni.

Ég þakka Ísfirðingunum fyrir að skipuleggja þessa skemmtilegu helgi vonast til að sjá alla þá gesti sem komu aftur í vor og fleiri til.

Kær kveðja,
Ingi<br><br>Post edited by: Ingi, at: 2009/09/26 18:59

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum