Hring róður 2010

15 jún 2010 13:18 - 15 jún 2010 13:23 #16 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Hring róður 2010
Þá skal rita. Ég skildi við Magga og John í Djúpafirði í gærkvöldi eftir 6 fína daga á Breiðafirðinum, þar af róið í fjóra daga. Gæðamikill túr með öllum veðratilbrigðum og sjólagi, allt frá sléttu upp í úfið.

Róðurinn út í Flatey var langbestur að mínu mati. Sævar sagnaritari fer nærri um hvernig þetta var; hopperí af bestu gerð í vestankalda frá Bjarnareyjum en kaflaskipt fram að því. Síðan var flatmagað í Flatey þangað til á föstudag. Þá róið í Hergilsey í sól og blíðu. Loks komið í Brjánslæk og tjaldað á ný. Síðan var ljóst að ófært yrði fyrir Látrabjarg og þá var haldið inn með fjörðum og tjaldað á ævintýralegum stöðum. Skálmarnesmúli er staður sem maður þarf að rannsaka betur t.d. Það var belgingur á sunnudeginum og skapaði röst í Kvígindisfirðinum á útfalli, að öðru leyti var rólegt til sjávar. Við settum einhverja 120 km á mælinn í þessari lotu. Virkilega gaman að þessu. Kalt og heitt, þurrt og blautt til skiptis. Eftir róður á laugardeginum afrekuðum við að leggja á okkur 10 km göngu til að skoða kirkju. Vorum sársvangir eftir þá kirkjuferð get ég fullyrt.

Nú, við sáum þrjá erni á þessu ferðalagi, seli af öllum stærðum, og einhver sá hnísu. Loks var komið í Djúpafjörðinn þar sem ausandi rigning og steikjandi sól og þurrkur var til skiptis. Við vorum hættir að nenna að klæða okkur úr og í eftir dyntum í veðrinu. Hergilsey stendur þó uppúr - frábær að heimsækja. Miklar rústir þar og sagnaarfur.

Nú eru hringmennin bara tvö á ferð og að koma hlé. Ég er að spá í að sjósetja í næstu lotu með Magga.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 jún 2010 11:05 - 12 jún 2010 15:49 #17 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Ég var spjalla við Magga leiðangursstjóra á hringróðrinum, núna um kl 11 í morgun.

Þeir hafa verið að meta veðurútliðið fyrir róðra næstu daga en leið þeirra myndi liggja um mjög erfitt róðrarsvæði. Leiðina fyrir Bjargtanga.

Eftir að hafa ráðfært sig við reynslumikla ræðara um þetta svæði þá er matið að fresta frekari hringróðri - jafnvel fram í júlí. :(

Og nú er planið þetta:
Þeir munu nú á næstu 4 dögum róa austur um suðurfirði Vestfjarðanna og allt í Gislfjarðarbotn. Þá skilja leiðir.

John verður sóttur af Halldóri Sveinbjörnssyni á Ísafirði og mun róa undir hans leiðsögn um a.m.k. Djúpið. ;)

Þeir félagar Maggi og Örlygur verða sóttir og fluttir suður heiðar til síns heima.

Maggi gerir hlé á róðrinum vegna breytinga á starfsfríi.

Nú verður jafnlangt hlé á þessum pistlum mínum hér.

En klárlega birtist hér mögnuð frásögn þeirra félaga af Breiðafjarðarróðri þeirra -úr þeirra eigin ranni eftir að þeir eru komnir til byggða. :P

En svona er íslenskt veður ,straumar og öldufar-ekki á vísan að róa.

Kveðja, Sævar H.

Ps. Þeir verða að sjálfsögðu með spottækið opið við róðra-endilega fylgjast með þeim, um það.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jún 2010 19:41 #18 by gudmundurs
Replied by gudmundurs on topic Re:Hring róður 2010
Þekkjandi Örlyg og hans fyrirlestra veit ég að áheyrendum hefir í það minnsta verið skemmt og hafa að auki farið fróðari og betri menn frá lestri þessum :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jún 2010 18:43 - 11 jún 2010 19:09 #19 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Góð myndasería hjá Palla formanni.

Ég var að heyra í þeim félögum þar sem þeir eru staddir í Vatnsfirði skammt sunnan Flókalundar í frábæru veðri.

Þeir réru frá Flatey í dag og áttu langt stopp í Hergisley.

Grandskoðuðu hverja þúfu og veltu einhverjum steinum í þessari sögufrægu ey.
Örlygur hélt fyrirlestur fyrir áheyrendur um Gísla sögu Súrsonar sem þarna hafðist við um árið 1000 . Og í framhaldinu , söguna allt fram á okkar daga. Gerður var góður rómur að fyrirlestri Örlygs og klöppuðu báðir áheyrendurnir fyrirlesara lof í lofa.

Að þessu góða stoppi í Hergisley loknu var stefnan sett á Brjánslæk og þaðan á Flókalund þar sem þeir ætla að láta fyrirberast nú nótt og eiga berdreymna nótt fyrir framhaldi róðursins.

Nú hafa þeir hringróðrarfarar lokið um 10% af hringnum eða um 216 km frá því lagt var upp þann 1. júní.

Þessi dagur mun að mati kappanna vera sá besti frá upphafi ferðar.

Nú verður vindafar óstöðugt í um vikutíma en samt hægt að skjóta róðri og róðri milli hviðanna. Þeir hafa frá einhverju að segja í fyrramálið um framhaldið..við bíðum þess

Kort af róðrarleið yfir Breiðafjörðinn

picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5481594612233072994

Kveðja Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jún 2010 13:50 #20 by palli
Replied by palli on topic Re:Hring róður 2010
Þeir félagar eiga aldeilis magnaða ferð fyrir höndum undir Látrabjargi. Þar held ég reyndar að sé ekkert spaug að vera ef eitthvað er að veðri. Allt í góðu svosem í norðanátt en þá getur gamanið kárnað um leið og komið er fyrir Bjargtangana. Við fórum nokkrir þarna um frá Rauðasandi og inn á Bíldudal í ágúst 2008 og var það eftirminnilegt í meira lagi. Nokkrar myndir af þeirri reisu eru á
picasaweb.google.com/palligests/200808_Kayak_Latrabjarg#

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jún 2010 09:04 - 11 jún 2010 20:24 #21 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Ég var að tala við Magga nú um kl 8.30 í morgun. Þeir félagar eru að undirbúa róðurinn yfir á fastalandið. Veður núna er gott og þeim hagstætt.
En veðurútlit næstu vikuna er slæmt auk þess sem stórstreymt er. Þeir ætla því að róa inn að Flókalundi í Vatnsfirði og hugsa sín ráð.
Til Látra fyrir Bjargtanga eru um 90 km róður frá Flókalundi.
En við fréttum meira um framhaldið á morgun þegar ný langtíma veðurspá liggur fyrir.

En svona til að skýra þær aðstæður og hvað við er að fást læt ég fylgja með smá ritstúf:

Sjóferðir um Breiðafjörðinn fyrr á öldum og nú.

Auk þess sem sjóferðir um Breiðafjörðinn einkenndust af fiskiróðrum smábáta, um aldir ,þá voru það skreiðarferðirnar sem settu svip sinn á athafnalífið kringum Breiðafjörðinn yfir sumartímann.
Svona eins og kayakræðarar nútímans nýta sér svæðið til iðkunnar sjómennskunnar á Breiðafirði.

Þessar skreiðaferðir voru um margt sérstakar. Ástæða fyrir þessum ferðum var að flytja heim og til verslunarfaktora , frá verstöðvunum allan þann fiskafla sem dreginn var á land um vetrar og vor vertíðina og var hertur í skreið, en það var sú aðferð sem vel hentaði til geymslu á fiskinum.

Þessar skreiðarferðir hófust um miðjan júní og stóðu yfir fram í júlí. Breiðfirðingar fóru í ver bæði í Dritvík undir Jökli og til verstöðvanna við Bjargtanga. Þangað varð því að sækja skreiðina-mörg hundruð lestir.

Þetta voru áhættusamar ferðir. Lagt var upp frá verstöðvunum norðan Bjargs í suðurfalli fyrir Bjargtanga og þá tók við austurfall inn með Látrabjargi og þá meðstreymi ella var ógerlegt að komast leiðar sinnar.

Straumur var svo harður inn með Látrabjarginu að gekk sem siglt væri, en sex menn undir árum gerðu lítið betur en að halda við í mótstreymi á fullhörðu falli í stórstreymi.

Og oft gat verið voði að snúa við ef ólga hljóp í Látraröstina sem þráfaldlega gerðist á svip stundu.

Hafnleysa var frá Látravík og allt til Sigluness á Barðaströnd fyrir þessi hlöðnu skreiðarskip. Þó mátti bjarga sér við Skor .

Hleðslan á þessum teinæringum, sem notaðir voru var vandaverk, og ekki mátti hlaða meir en að sjólína næmi við saumfar á þriðjaborði. Þessar skreiðarhleðslur í bátana voru taldir hættulegir farmar , einkum vegna stöðugleika í ólgu sjó.

Breiðfirðingar þurftu að sækja skreiðina fyrir tvær slæmar straumrastir. Röstina fyrir Svörtuloft undir Jökli og Látraröstina fyrir Bjargtanga.

Oft þurftu sjómenn að bíða dögum sama eftir hentugu veðri – svona eins og kayakræðarar nútímans verða að taka tillit til náttúruaflanna í formi vinda,strauma og öldufars.

Nú fer að styttast í að okkar menn rói þessa leið – frá Siglunesi á Barðaströnd fyrir Skor , með Rauðasandi að Keflavík. Þá tekur við róður með hinu 14 km langa Látrabjargi.

Síðan er það róðurinn fyrir Bjargtanga þar sem Látraröstin býður sæfarenda –stillt og prúð eða ólgandi óhemja....spennandi tímar....

(tilv. ´“ Íslenskir sjávarhættir“)

Kveðja Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 jún 2010 22:54 - 10 jún 2010 22:58 #22 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Gaman að skoða þessar bátamyndir hjá Gísla. Sá heillegi er greinilega í ætt við breiðfizka lagið- enda straumar við Langanes miðin.
En framgangur á ferðinni hjá þeim félögum :
Ég lagði mjög að Magga í morgun að reyna sem kostur væri að ná fyrir Bjargtanga ekki seinna en um miðnætti á föstudagskvöld - vegna versnandi veðurs upp úr því-til lengri tíma. Þeir virðast ætla að fara aðeins yfir að Heggstöðum á Barðaströnd á morgun. Það er því viðbúið að þeir tapi tækifærinu fyrir Bjargtanga fyrir helgina. Það veldur þeim miklum töfum. Best hefði verið að leggja af stað nú um miðnættið í góðu leiði... en sjáum til.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 jún 2010 22:16 - 10 jún 2010 22:26 #23 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re:Hring róður 2010
Sævar skrifar um breiðfirzka bátalagið.

Tveir bátar úr fortíðinni urðu á vegi mínum í hringróðrinum s.l. sumar. Þeir eru á tveim myndum hér:
picasaweb.google.com/gislihf/2009Trebata...1sRgCMfMgvW3prPCkAE#

Mér varð einkum starsýnt á þann fyrri, en ég rakst á hann þegar ég var að rölta nálægt næturstað mínum og sækja vatn í árós þar nálægt. Mér er ekki ljóst hvert ætternið er, en ef hann verður hreyfður þá er hann ónýtur.

PS: John segir á bloggi sínu að hann komist yfir fjörðinn á morgun en síðan ekki norður með Vewstfjörðum fyrr en eftir helgina. Þetta skil ég ekki ef trúa má vindaspákortum Veðurstofu. Miðað við það mundi ég leggja í hann í nótt eða eldsnemma í fyrramálið og reyna að ná fyrir Látrabjargið og sem lengst norður um helgina, síðan verðu trúlega ófært í tvo daga.

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 jún 2010 09:07 - 10 jún 2010 16:08 #24 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Ég var í sambandi við Magga nú um kl 9 í morgun. Allt útlit er fyrir að þeir láti fyrirberast í Flatey nú í dag vegna veðurs.
Veruleg alda er inn Breiðafjörðinn og veður versnar um miðjan daginn , einkum undan Barðaströndinni.
Framundan er um 20 km róður frá Flatey og að Rauðsdal á Barðaströnd.
Maggi og Örlygur eru klárir að leggja í róðurinn núna en John skortir þá þjálfun sem átökin krefjast.
En það lygnir með kvöldinu og á morgun verður rjómablíða á öllu ferðasvæði þeirra.
Við bíðum því morguns með frekari fréttir frá köppunum.

En á meðan við bíðum þá þetta :

Gömlu breiðfirzku bátarnir

Allt frá upphafi byggðar í Breiðafirðinum hafa bátar gegnt þar lykilhlutverki ,einkum í eyjabyggðunum. Sauðfé varð að flytja milli lands og eyjanna vor og haust. Eldivið varð eyjabóndinn að sækja í land jafnt mó og hrís. Heyfeng úr landi varð að flyja með bátum . Kaupstaðaferðir með afurðir og kaupmannsvöru til baka.

Og síðast en ekki síst var báturinn til bjargræðis með sjávarafla og veiðifang útskerjanna-sel , fugl og egg. Og fólkið fór í skemmtiferðir og til kirkju á bátunum.

Og þessir bátar á Breiðafirðinum vorum mjög sérstakir-breiðfirzka bátalagið .
Höfuð einkenni skipa með breiðfirzku lagi voru bogin stefni með miklum undirlotum, sem hentuðu vel við lendingar í misjöfnum fjörum-léttleiki-töluverður ávali í öllum formum til þess að mæta kröppum sjó- útsláttur á skutum og því samfara góð viðtök,svo að jafnvel mátti sigla mikið jafnt í graföldu sem óðum sjó-einkum á undanhaldi (lensi) og í bitahöfuðsbyr.

En umfram annað einkennir mikill formstöðugleiki breiðfirzka bátalagið, en hann er fólginn í því að þau skip hafa jafnt undir farmi sem seglum mikið viðnám-uppdrift í þeirri síðu sem þau hallast á . Neðstu umförin eru einnig nokkuð reist, en það skiptir máli fyrir sjóhæfni þeirra.
Allt þetta er einnig talið til höfuðkosta víkingaraldaskipa. ( tilv. „Íslenskir sjávarhættir“)

Þá höfum við kayakfólkið einhvern samanburð við alvöru sjóbáta. En enginn var svuntan á þeim breiðfirzku-allt opið - því er hætt við að fyrsta veltan yrði einnig sú síðasta.
En þeir á Breiðafirði lögðu allt uppúr að halda bátnum á réttum kili.. sem yfirleitt tókst vel.

Menn urðu sjómenn góðir við lífsbaráttuna á Breiðafirðinum.

kv. Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jún 2010 22:35 - 09 jún 2010 22:35 #25 by Andri
Replied by Andri on topic Re:Hring róður 2010
Þegar við Gísli rérum Breiðafjörðinn í fyrra var þetta einmitt erfiðasti kaflinn (Bjarneyjar-Flatey). Þá var vindáttin reyndar út Gilsfjörðinn og ekki nærri því svona hvasst, en við fengum í ofanálag mikinn straum í sömu stefnu.

Ég tók mynd af þessu svæði á leiðinni til baka með ferjunni
picasaweb.google.com/Kayakmyndir/BreiAfj...#5346035162880032930

Ég dauðöfunda þá félaga að vera að róa þarna núna.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jún 2010 19:42 - 09 jún 2010 21:53 #26 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Ég var áðan í sambandi við Magga hringfara þar sem hann er staddur í Flatey.

Þeim róðrarfélögum miðaði vel yfir Breiðafjörðinn frá Stykkishólmi í Flatey.Fóru leiðina á 6 klst.
Fyrsti áfanginn var í Fagurey.
Á þeirri leið var hörkulens sem reyndi á. Því næst koma þeir við í Gassaskeri og þarnæst í Stagley.

Og þegar Bjarneyjum er náð fer heldur betur að reyna á sjómennskuna. Mjög hvass vindpollur myndaðist þar á nokkuð þröngu svæði með vindstefnuna inn Gilsfjörðinn - á bilinu 10-20 m/sek.
Ef skoðuð er spotslóðin sést vel hvernig vindurinn í samvinnu við sterkan aðfallsstrauminn-hrekur þá í sveig frá stefnunni á Flatey.

Þessi veðra og sjókrappi kafli hélt þeim við efnið allt að Flatey.
Þá var komin ró á.

Verulega reyndi á Magga við þessar aðstæður þar sem John var ekki kominn í þá þjálfun sem þessar aðstæður kröfðust.

Maggi var með hann í togi frá Bjarneyjum til Flateyjar.

Íslenska sjó og veðurlagið með straumáhrifum er engu líkt. John hefur fengið forsmekkinn af því og metur stöðu sína.

En allir voru kapparnir hressir og kátir þarna í Flatey eftir afrekið og biðja fyrir kveðjur.
Maggi er orðinn góður í hendinni sem angraði hann við Búðir.
Siggi bróðir Magga hefur yfirgefið þá- tók ferjuna inní Hólm.

Og þeir félagar stefna yfir á Barðaströndina á morgun. Sennilega verður ekki orðið vel sjófært fyrr en um kl 11.

En það kemur nýr pistill í morgunsárið

Heildarróður þeirra félaga er nú um 190 km

picasaweb.google.com/1092184226548600605...g#548086096161312225

Frá Flatey

picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5480895550969366034

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jún 2010 09:42 #27 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
6. róðrarleggur: Stykkishólmur-Flatey

Það var um kl.9.15 í morgun, þann 9.júní 2010, að hringróðrarfararnir Magnús Sigurjónsson og John Peaveler ásamt Örlygi S. Sigurjónssyni og Sigga bróðir Magnúsar lögðu upp frá Stykkishólmi í 6. róðrarlegg.

Siggi rær með þeim yfir Breiðafjörðinn en Örlygur rær fleiri leggi með þeim m.a um Vestfirðina.

Áætlað er að róa í dag til Flateyjar og láta þar fyrirberast í nótt. Sjóleiðin frá Stykkishólmi til Flateyjar er um 36 km. Þeir áætla að hafa viðkomu í Fagurey og Bjarneyjum .

Veðurútlit er gott um 5 m/sek. Vindurinn og aldan verða á hlið inn Breiðafjörðinn og innfallsstraumurinn verður með öldunni og því hagstæðara sjólag.

Vindstrengja frá fjallendi gætir ekki-þetta er vindur af hafi og því stöðugur.

Þegar ég talaði við Magga í morgun voru þeir að sjósetja og gott hljóð í liðinu.
Nú fylgjumst við með á spottækinu góða

Breiðafjörðurinn er mjög sérstakur til sjóferða. Hvergi á landinu er hæðar munur á flóði og fjöru jafn mikill eða meira en 4 metrar. Það gerir landtöku og sjósetningu kayakana snúningasama –hitti menn á óhagstæðan sjávarfallatíma.

Þessi mikli munur á flóði og fjöru leiðir af sér mikla sjávarstrauma. Straumur á Breiðafirði er vaxandi næstu daga.
Vegna hinna „óteljandi“ eyja, skerja, grynninga og boða verða straumarnir ansi fjölskrúðugir á hinum ýmsu stöðum.

Í ritverkinu mikla „Íslenskir sjávarhættir“ er ýmislegt að finna um strauma. Um samspil tungls og strauma eru þessar vísur:
„Fullu tungli og förnu er nú fylgisamur/ ævinlega stærstur straumur/ styrkur hans er þá ónaumur“
„Ef hálfvaxið er nú tungl,þá hann er smæstur/ að hálfskertu eins óhastur/ er hann þá reglu fastur“

„Á Breiðafirði er aðfallið „austurfall“ þ,e aðfallsstraumurinn liggur beint inn Breiðafjörðinn. Hvergi eru straumar eins margir né stríðir sem í hinum mörgu eyjasundum Breiðafjarðar. Líklega má t.d. telja 18 rastir eða strauma milli eyja fyrir Skógarströnd einni. Kunnastur er Röstin, siglingaleiðin inn á Hvammsfjörð.

Margir eru þessir straumar eins og beljandi fossar í útfalli og aðfalli og ófarandi nema í meðstreymi eða um liggjanda.
Sum nöfn breiðfirzku straumanna segja meira en löng lýsing: Knarrarbrjótur-Kollköstungur-Mannsbani- Brattistraumur.

Við Breiðafjörð var talað um að bíða eftir ögrinu- liggjandanum . Og þá var bláliggjandinn sama og ögurstund. En hún var stutt og sé þá flæði, byrjar brátt útfall. Heldur svo fram þangað til fallið er hálfnað, en þá er stanz. ‚úr því smá dregur úr straumi þegar líður að fjöruliggjanda. Eftir fjöruliggjandann verður snúningur –straumskipti og byrjar fljótt að falla að“

Um aldir, fyrir tíma vélbátanna, hagnýttu sjómenn sér þessa strauma við fiskveiðarnar og sjóferðir almennt. Það var ýtt úr vör á útfallinu og reynt að nýta það á fiskislóð. Síðan var fiskað um fallaskiptin þegar fiskurinn gaf sig best til. Og þegar fór að falla að var haldið heimleiðis.

Straumarnir léttu mönnum erfiðið við róðurinn. En vindur gat gert sjólagið úfið þegar straumur fór gegn vindi-þá varð aldan kröpp.

Allt þetta fá þeir kayakróðarfélagar nú að reyna við róðurinn þvert yfir Breiðafjörðinn.

Kannski verða frekari fréttir frá þeim félögum í kvöld..við bíðum spennt..

kv. Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

08 jún 2010 08:56 #28 by maggi
Replied by maggi on topic Re:Hring róður 2010
Hér eru nokkrar myndir frá mér
picasaweb.google.com/maggisig06/2010_06_04#

Við förum úr bænum kl 18:00 til Stykkilshólms í dag , Siggi bróðir og Örlygur ætla að róa með okkur Breiðafjörðinn í fyrramálið

kv Maggi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 jún 2010 16:20 #29 by MaggiDan
Replied by MaggiDan on topic Re:Hring róður 2010
Þó ég sé ekki í klúbbnum þá les ég það sem þið sagnameistarar Sævar, Gísli og Örlygur skrifið og hefi af þeim skrifum hina mestu skemmtun og fróðleik.
Kveðja,
Magnús Dan Bárðarson

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 jún 2010 10:09 - 07 jún 2010 10:16 #30 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Hring róður 2010
Gott að heyra með að Maggi er klár í að halda áfram á hringferð sinni. :P

Kort af heildarróðrar vegalengd

picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5479971030040291090

Og næsti pistill frá mér verður þegar Maggi er kominn í Stykkishólm og lagður af stað yfir Breiðafjörðinn. Þá verða meiri beinar fréttir af framgangi- enda komið símasamband okkar á milli :)

Mér líst vel á að hringfarinn geymi sér þann góða bita, róðurinn um Svörtuloft, þar til síðar. T.d fyrstu viku í júlí. Það er að hætti fornra sjóvíkinga.

Og nú eru um 153 km að baki á hringróðrinum

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum