Félagsróður 26 ágúst

27 ágú 2010 21:28 #1 by Gíslihf
Rétt er það, fögur var hlíðin og frítt var liðið í þessari frægðarför!

Ég þakka Örlygi fyrir ítarlega stuttorðan, fjálglega jarðbundinn og fróðlegan pistil. Ljóst er að hér heldur á penna maður vel lesinn í fornbókmenntun og Gerplu að auki. Hrifningin á jöklinum kann þó að vera undir áhrifum Kjarvals eða Heimsljóss Laxness.

Vissara væri þó að bregða fyrir sig öðrum og yngri stíl bókmennta næst þegar þú verður róðrarstjóri eða hafa með túlk (blaðafulltrúa) að öðrum kosti.

Hér eru fáar myndir:
picasaweb.google.com/gislihf/FelagsroUr2...v1sRgCNbNnPTc67f4Ww#

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 ágú 2010 01:19 #2 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Félagsróður 26. ágúst
Firnagóð mæting í róður kvöldsins. Nærri lætur að hér hafi mætt til leika 20 mannss. Jöfn kynjaskipting eða þar um bil.
Róið var út í Leiðhamra í Kollafirði í stilltum sjó og áð þar. Stórkostlegt sólsetur á heimleiðinni og Snæfellsjökull eins og stakstæður þríhyrningur í langt úti í hafi, baðaður roðagullnum bjarma við sjóndeildarhring. Virtist ekki tengjast Snæfellsnesi eða neinu landi yfirhöfuð - aðeins jökullinn. Hann logaði. Ógleymanlegt.

En hvað um það. Eymi var róðrarstjóri og fór með skýr og meitluð formálsorð í upphafi róðurs. Gagnorður og stuttorður hann Eymi. Við eigum þetta sameiginlegt, enda báðir að vestan. Hann allavega. Eftir predíkun var síðan róið af stað með þeim undrum sem hér að ofan gat.

Gerður var góður rómur af einarðri sókn nýliða í róður þennan og höfðu þeir bersýnilega hlýtt herhvöt landvætta og kalli ómótstæðilegrar fegurðar Kollafjarðarins. Og þarna var líka gnótt frægra manna. Tveir hringfarar s.s. Gísli Friðgeirs. og Magnús Sig (kannski ekki alveg búinn en jæja) Og síðan var þarna sjálfur Jónas Guðmundsson, sá er teljast má guðfaðir Öryggisstefnunar.
Ps. Nauðsyn ber til að magna útiljósið rafi. Hver ku vera best til slíkrar virkjunar fallinn?
Ok lýkr þar þætti vorum að sinni, þökk.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

26 ágú 2010 13:47 #3 by eymi
Replied by eymi on topic Re:Félagsróður 26 ágúst
Það er bara að bíta á jaxlinn og berjast mót sólargeislum.

Vonum að þetta verði ekki eins og hjá sjóaranum sem lenti í svo miklu logni við Langanesið að hann þurfti að hlaupa fram og til baka á dekkinu til að ná andanum B)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

26 ágú 2010 13:34 - 26 ágú 2010 13:35 #4 by Gíslihf
Það er félagsróður í kvöld eins og venja er til á sumartímanum.

Mæting 18:30 og komin á sjó um kl. 19.

Það stefnir í NV blíðu - en það verður að hafa það :)

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum