Fyrsti formlegi fundur óstofnaðs félags var haldinn 10. febrúar 1981 þar sem ákveðið var að boða til stofnfundar og um leið fyrsta aðalfundar Kayakklúbbsins þann 7. apríl, fyrstu félagsgjöld voru þó greidd 25. febrúar.
Kayakklúbburinn var stofnaður vorið 1981, og er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Starfsemi klúbbsins hefur farið ört vaxandi undanfarin ár og eru virkir félagar nú um það bil 400.
Innan kayakíþróttarinnar eru nokkrar gerðir kayaka, en hér á landi er aðalega lögð stund á róður á straumvatns og sjókayökum. Klúbburinn hefur aðstöðu í Sundlaugunum í Laugardal, Geldinganesi þar sem geymsluaðstaða fyrir 200 báta auk félags- og sturtuaðstöðu, í Nauthólsvík er búnings- og sturtuaðstaða ásamt geymslu fyrir 40 kayaka.
Æfingar í sundlaugunum byrja á fullum krafti í september og eru einu sinni í viku fram í maí, sjáið nánar æfinga- og námskeiðatöflu. Yfir veturinn hittast menn á Geldinganesinu á laugardagsmorgnum klukkan 09:30 og róa saman, en á fimmtudagskvöldum klukkan 18:30 á sumrin. Nánar er hægt að lesa um félagsróðrana (og margt fleira) undir liðnum "Til nýliða".
Nokkrar keppnir eru haldnar, fyrst skal nefna Reykjavíkurbikarinn 10 km kappróður fyrir vana og 3 km fyrir nýliða sem haldin er í lok apríl / byrjun maí. Straumkayak kappróður er í Tungufljóti og síðustu keppnirnar eru Hálfmaraþon og Þjórsár-Rodeo í byrjun sept.
Nokkrar kayakferðir eru skipulagðar á hverju sumri, bæði á sjó og í ánum. Allar upplýsingar um þessar ferðir og keppnirnar má finna í dagskrá klúbbsins.
Spurningar og athugasemdir mega gjarna sendast á info <at> kayakklubburinn.is Þeim verður svarað eftir bestu getu.