Siðast breytt 23.02.2023:
1. grein
Félagið heitir Kayakklúbburinn og er aðsetur þess og varnarþing í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins er að standa fyrir iðkun kayak- og kanó-róðurs, standa fyrir keppnum og skipuleggja kayakferðir.
3. grein
Hver sá sem taka vill þátt í starfi klúbbsins getur orðið félagsmaður. Fullgildir félagar eru þeir sem staðið hafa full skil á gjöldum til Kayakklúbbsins.
4. grein
Stjórn félagsins getur sett félaga sem gerast sekir um vítavert hátterni í fyrirvaralaust æfinga-, keppnis- og ferðabann á vegum félagsins. Slík mál skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi félagsins. Stjórn félagsins getur vísað félagsmanni úr félaginu, ef sýnt þykir að hann hafi brotið öryggisstefnu klúbbsins með þeim afleiðingum að lífi og heilsu hans, félaga hans eða fólks, hafi verið stefnt í voða. Sé félagsmanni vikið úr félaginu getur hann borið mál sitt undir aðalfund félagsins og hefur aðalfundur einn rétt til að breyta ákvörðun stjórnar.
5. grein
Aðalfundur félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins og setur því nauðsynleg lög. Stjórn Kayakklúbbsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda, setur reglur um öryggismál, keppnir og aðra þætti í starfi félagsins og framfylgir þeim. Reikningsár Kayakklúbbsins er almanaksárið.
6. grein
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í febrúar mánuði ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst þriggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar og hefur hver félagi eitt atkvæði. Tillögur að lagabreytingum og önnur málefni (sem krefjast atkvæðagreiðslu) sem félagar óska að tekin verði fyrir á fundinum, skulu tilkynnt stjórn félagsins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Stjórn félags skal auglýsa dagskrá fundarins viku fyrir fund. Fundurinn er lögmætur, ef löglega hefur verið til hans boðað. Aðeins sá, sem er fullgildur félagi er kjörgengur til stjórnar.
7. grein
Dagskrá aðalfundar:
1. Setning aðalfundar og kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
3. Skýrslur nefnda lagðar fram.
4. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram og útskýrðir.
5. Umræða um skýrslu stjórnar, nefnda og reikninga.
6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
7. Lagðar fram tillögur að lagabreytingum og bornar undir atkvæði.
8. Önnur málefni sem borist hafa til stjórnar lögð fram og borin undir atkvæði.
9. Kosning formanns og fjögurra meðstjórnenda sem skipta með sér verkum í samræmi við 9. grein.
10. Kosning skoðunarmanns ársreiknings.
11. Ákvörðun félagsgjalda.
12. Önnur mál.
13. Fundargerð.
14. Fundarslit.
Kosning stjórnar og aðrar atkvæðagreiðslur
Kosningu á aðalfundi skal framkvæma með handauppréttingu en sé þess óskað sérstaklega, skal haldin leynileg atkvæðagreiðsla. Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi og þá með 2/3 hlutum atkvæða. Í öðrum kosningum á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti. Aðalfundur getur með 2/3 atkvæða viðstaddra, tekið fyrir mál utan dagskrár aðalfundar, þó ekki lagabreytingar.
8. grein
Félagsfund má halda, ef stjórn félagsins telur ástæðu til eða 50 félagar óska þess. Boða skal til félagsfundar með minnst viku fyrirvara. Rétt til setu á félagsfundi hafa fullgildir félagar í Kayakklúbbnum. Ekki er heimilt að gera lagabreytingar á félagsfundi og aðeins er heimilt að kjósa bráðabirgðastjórn ef þörf er. Að öðru leyti gilda sömu reglur um félagsfundi og um aðalfund.
9. grein
Stjórn félags skipa formaður, sem kosinn er sérstaklega og fjórir stjórnarmenn sem skipta með sér verkum ritara, gjaldkera og tveggja meðstjórnenda. Ritari gegnir störfum formanns í forföllum hans. Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi og er starfstími stjórnarmanna er eitt ár. Stjórnarmenn geta verið endurkjörnir að þeim tíma liðnum.
10. grein
Formaður stjórnar öllum félags- og stjórnarfundum eða setur fundarstjóra í sinn stað. Stjórn félagsins ber ábyrgð á að félagið starfi lögum samkvæmt. Ritari sér um undirbúning funda stjórnar auk þess sem hann bókar allar ákvarðanir sem teknar eru. Gjaldkeri sér um fjárhagshlið félagsins og færir bókhald.
11. grein
Stjórn félagsins skipar í nefndir eftir þörfum. Þær helstu eru húsnæðisnefnd, ferðanefnd, fræðslunefnd, keppnisnefnd,straumkayaknefnd og sundlaugarnefnd. Nefndir starfa sjálfstætt á sínu sviði en gefa skýrslur til stjórnar. Allar ákvarðanir nefnda sem fela í sér stefnubreytingar eða fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu lagðar fyrir stjórn til samþykktar. Nefndir skulu velja sér formann sem er tengiliður nefndarinnar við stjórn félagsins. Nefndir halda fundargerðir og skila starfsskýrslu til stjórnar í lok starfsárs eins og við á.
12. grein
Tillögur um að leggja Kayakklúbbinn niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst ¾ hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera grein fyrir henni í fundargerð aðalfundar og tillaga látin ganga til næsta auka aðalfundar sem stjórn félagsins skal boða til með lögmætum hætti. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja Kayakklúbbinn niður. Sé Kayakklúbburinn þannig löglega lagður niður skulu eignir klúbbsins renna til SÍL.
13.grein
Um þau atriði, sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda ákvæði í lögum ÍSÍ eftir því sem við getur átt.
14. grein
Lög þessi öðlast gildi við samþykki þeirra á aðalfundi Kayakklúbbsins í janúar 2013 og að lokinni staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og falla þá eldri lög úr gildi.