Félagsróðrar á vegum Kayakklúbbsins fara fram vikulega, á laugardögum kl. 09:30 frá september til maí og kl. 18:30 frá maí til september. Róið er frá Geldinganesi. Í upphafi félagsróðurs, áður en sjósett er, skulu róðrarstjórar, viðurkenndir af stjórn klúbbsins, hafa frumkvæði að því að tala við nýja félaga og meta hvort þeim sé óhætt að fara á sjó í samræmi við hæfni þeirra, veður og sjólag og sinna hlutverkum sínum að öðru leyti. Aðrir vanir ræðarar sem ekki eru róðrarstjórar hverju sinni skulu sömuleiðis vera meðvitaðir um ábyrgð sína.
Hlutverk róðrarstjóra:
- Kynna sjálfan sig og tilkynna ferðaáætlun
- Meta hópinn m.t.t. reynslu og aðstæðna
- Telja fjölda ræðara á sjó
- Velja einn ræðara til að reka lestina og annan til að vera fremstan
- Samþykkja/vita þegar hópnum er skipt upp
- Vera stjórnandi á vettvangi þegar hætta skapast
Stjórn Kayakklúbbsins hvetur nýliða eindregið til að sækja námskeið fyrir sinn fyrsta félagsróður og að fara ekki einir síns liðs í fyrstu æfingaróðra. Stjórn klúbbsins beinir þeim eindregnu tilmælum til nýliða að í félagsróðri séu þeir ekki í sitt allra fyrsta skipti að setjast í bát.
Róðrarstjóri skal ganga úr skugga um að sérhver nýliði (sem helst hefur gengið inn í þartilgert nýliðaprógramm klúbbsins) hafi a.m.k. einn stuðningsaðila (tengilið) sem fylgist með honum meðan á róðri stendur. Við stjórnina skal róðrarstjóri stöðugt meta sjólag og tryggja eftir því sem kostur er að hópurinn fari ekki inn í aðstæður sem erfitt eða ómögulegt er að hafa stjórn á.
Reyndir félagar yfirgefi ekki hópinn meðan róðrarstjóri telur þörf fyrir stuðning þeirra. Þeir sem taka sig út úr hópnum og velja erfiðari aðstæður láti róðrarstjóra vita hvert þeir ætla. Róðrarstjóri þarf að tala við nýliða áður en lagt er af stað og athuga hvort þeir séu sjálfbjarga. Skilyrðislaus regla í félagsróðrum er að vera í björgunarvesti. Klúbburinn leggur einnig þunga áherslu á notkun vandaðra hlífðarfata á sjó svo sem þurrgalla, Neopren hettur, lúffur, þurra aukapeysu, aukahúfu og vettlinga.
Nýliðaprógrammið er að finna á heimasíðunni okkar undir „Klúbburinn“ og „Til nýliða“
Klúbburinn hvetur alla reyndari ræðara til að hafa búnað í bátnum til að hlýja a.m.k. tveim ræðurum sem hafa lent á sundi. Komi upp erfiðar aðstæður eða björgun, stjórnar róðrarstjóri aðgerðum á vettvangi, einkum með því að skipta verkum og fela reyndari ræðurum verkefni. Vettvangsstjórnun getur falist í að kalla á utanaðkomandi hjálp og koma í veg fyrir frekari óhöpp og/eða slys.
Mælst er til þess að reynslumeiri félagar hafi dráttarlínu, hjálm, lensidælu og annað sem verða má til stuðnings við erfiðar aðstæður.
Klúbburinn boðar að haldin verði ein formleg björgunaræfing á hvorri önn, með tilkynningu á vefnum og kynningu. Þessum æfingum verður sérstaklega beint að nýliðum sem ekki hafa æft sjóbjörgun og þeir hvattir til að prófa, í því skyni að verða betur í stakk búnir að stunda félagsróðrana. Þeir sem stjórna æfingunni hugi sérstaklega að þörfum hinna reynsluminni. Auk þess eru félagar hvattir til að auka færni sína saman með óformlegum æfingum þegar færi gefst.
Allir sem taka þátt í róðrum á vegum Kayakklúbbsins eru þar á eigin ábyrgð
Róðrastjórar Kayakklúbbsins skulu vera virkir ræðarar, hafa lokið 4 stjörnu BCU Sea kayak leader prófi, í þjálfunarferli fyrir BCU 4* Leader eða sambærilegri þjálfun.