Á kayak umhverfis Ísland

04 júl 2009 04:43 #76 by Sævar H.
3.júlí 2009

Hvíld frá róðrum um helgina.


Gísli hringdi í mig kl. 21 í kvöld :

Nú hefur Gísli kayakræðari gengið frá bát sínum í nausti nálægt Buðlungahöfn undir Núpum.

Framundan er kærkomin hvíld frá róðrum í tvo daga og tvær nætur.
Sonur Gísla var að koma norður í dag .
Hann starfar sem sjálfboðaliði næstu tvær vikurnar á sumarbúðunum að Ástjörn (sem er eins og Vatnaskógur sunnan heiða)
Hann náði í föður sinn þarna í fjöruna í Buðlungavík og bauð honum í hús að Ástjörn í Ásbyrgi.
Gísli þáði það með þökkum.
Kayaknum var því lagt til hlunns og helgardvalar þarna í Buðlungahöfn.
Það var létt yfir Gísla þegar ég ræddi við hann og hann ánægður að fá loks tvo helga daga.
Ekki segi ég hér þær ævintýrasögur sem hafa safnast í sarpinn hjá Gísla á þessu ferðalagi- það bíður ferðaloka...mikill sagnabálkur....

Nú birtist ekkert frá mér fyrr en á sunnudagskvöld vegna ...útivistar við fjallavatn...með fjölskyldunni<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:16
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

04 júl 2009 00:12 #77 by Steini
Nú er ferðin hjá Gísla að verða hálfnuð, það er kanski svolítið erfitt að segja til um nákvæmlega svona fyrirfram hvar það verður, ekki er þó eftir mikið af löngum þverunum. Hringurinn mun vera u.þ.b. 2000 km ætti því mið leið að vera um eða rétt eftir Rifstanga sem er nyrsti oddi Íslands, spurning hvort Gísli noti tækifærið og rói þar nokkra km í norður og skelli sér yfir Heimskautsbaug ??

Heimskautsbaugur er á 66° og 36 min norður eða 4NM norður af Rifstanga.<br><br>Post edited by: Steini, at: 2009/07/03 19:36

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

03 júl 2009 19:32 #78 by Sævar H.
3.júlí 2009

26. róðrarleggur: Húsavík- Buðlungahöfn



Eins og fram koma áðan talaði ég við Gísla kayakræðara þar sem hann var
staddur við ós Sógarkíls í Öxafirði.
Vindur af norðan fer vaxandi með tilheyrandi öldu.
Gísli stefnir á að fara að Buðlungahöfn sem er norðan við Núpa og láta þar fyrirberast.
Það var mikið ævintýri hjá Gísla kayakræðara að fara fyrir ósa þess mikla vatnsfalls- Jökulsár á Fjöllum.
Straumstrengurinn og boðaföllin náðu um 1 km frá ströndinni- kolmórautt yfir að fara.
Mjög glögg skil voru síðan milli jökulvatnsins og sjávarins þegar yfir straumkastið var komið.

Heildarróðrarleið Gísla kayakræðara á þessum 26. róðrarlegg verður því um 63 km-
En það er eins og áður ofurgott veður freistaði til róðrarlengdar<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/07/03 14:41
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

03 júl 2009 17:06 #79 by Sævar H.
3.júlí 2009

26.róðrarleggur: Húsavík - Kópasker

Eins og fram kom í gærkvöldi þá ýtti Gísli kayakræðari úr vör á Húsavík kl 20.30 þann 2. júli
og hóf sinn 26 róðrarlegg.
Gísli hafði hvílst vel á Húsavík og fengið úrlausn á fótaangri sem hafði gert vart við sig.

Gísli tók stefnuna norður með Tjörnesinu og síðan fyrir það og suður Öxarfjörðinn með
vesturströndinni.
Um kl 4.40 í nótt þ. 3 júlí tekur hann land i Fjallhöfn ,sem er innst í krikanum í Öxarfirði, við Lónslón.
Eftir um tveggja tíma hvíld heldur hann áfram með sandinum mikla sem Jökulsá á Fjöllum hefur
borið fram í aldanna rás.
Nú um kl. 9.30 ,þegar hann er kominn framhjá ósum Jökulsár á Fjöllum- setur hann stefnuna á
Kópasker á Melrakkasléttu.
Þegar hér er komið hefur Gísli lagt að baki 50 km sjóleið frá Húsavík.
Og rói hann til Kópaskers verður sjóleið á þessum 26. róðrarlegg um 69 km.

Veður er með eindæmum gott 16 °C hiti í Ásbyrgi og vindur N 1 m/sek og á Rauðanúpi NA 5 m/sek og 10 °C

Kl. 11.30
Ég var að tala við Gísla kayakræðara:
Nú hefur Gísli tekið smá róðrarhlé við Skógarkíl skammt austan við Jökulsá á Fjöllum-
en hann verður að fara aðeins austar ,að Buðlungahöfn ,til að fá gott næði til að láta
fyrirberast eftir þennan langa róður.<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:15
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

02 júl 2009 19:36 #80 by Sævar H.
2.júlí 2009

Róðrarhvíld á Húsavík


Nú tekur Gísli kayakræðari sér góða hvíldarpásu-
þar sem hann er nú staddur í þeim fallega norðlenska bæ- Húsavík.
Allt frá því Gísli lagði upp frá Asparvík á Ströndum
hafa dag og næturleiðir hans verið mjög langar og hvíldarstundir á milli mjög fáar.

Það er öfugsnúið að segja að afburða gott veður og sjólag hafi verið Gísla mjög andstætt.
En gott veður hvetur til langra róðra og ofur gott veður hvetur til ofurlangra róðra...
að ná sem lengst áður en \&quot;lægðin djúpa tefur för\&quot;...

Að halda hvíldardaginn heilagan fundu menn í fornöld að var manninum nauðsyn.
Að gera hlé á striti sínu - einn dag í viku.
Að safna kröftum fyrir næstu átök.

Nú er Gísla kayakræðara hollt að halda \&quot;hvíldardaginn heilagan\&quot; á Húsavík.

Myndin hér að ofan segir að það sé gott að hvílast á Húsavík.

Kl.20.30 í dag 2. júlí hélt Gísli kayakræðari frá Húsavík að lokinni hvíld frá því í morgun.

Gísli stefnir nú norður með Tjörnesinu og í framhaldinu yfir á Öxarfjörð- hvar hann tekur síðan land er óráðið .
Væntanlega þverar hann sem mest af Öxarfirðinum til að spara sér óþarfa krók...

En sjáum til í fyrramálið...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:14
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

02 júl 2009 16:12 #81 by Sævar H.
2.júlí 2009

25. róðrarleggur: Hvalvatnsfjörður- Húsavík



Í gær þann 1.júlí lá leið Gísla kayakræðara frá Hvalvatnsfirði - þar sem hann lagði
upp kl 16.40 og tók stefnuna á Flatey á Skjálfanda.
Gísli tók land í Flatey og átti þar góða viðdvöl. Síðan liggur leiðin suður með Víkum og allt suður í Naustavík.
Þar hefur Gísli nokkra viðdvöl.
Og lokastefna á þessum 25. legg er sett á Húsavík.
Kl 6 í morgun þann 2. júlí tekur Gísli kayakræðari land á Húsavík og lætur þar nú fyrirberast.

Heildarróðrarleið Gísla á þessum 25. legg er um 46 km.

Flatey
Flatey á Skjálfanda liggur rétt undan Flateyjardal.
Framan af 20. öldinni byggðist upp lítið þorp suðaustan á eynni
og varð íbúafjöldi mestur um 120 manns í kringum 1940, en fer að fækka upp úr 1950 .
Búsetu í Flatey lýkur síðan um 1967.
Lífsbjörgin var sjósókn og smá fjárbúskapur.

Naustavík
Sá sem fyrstur nam land og fékk sér fastan samastað á Íslandi -var hann Náttfari -
eða svo segir Landnáma.
Talið er að Náttfari hafi fyrst um sinn búið í Naustavík.
Mikið útræði var frá Naustavík á fyrri öldum- enda lendingarskilyrði góð frá náttúrunnar
hendi og gjöful fiskimið á Skjálfanda skammt undan.

Núna hvílist Gísli kayakræðari á Húsavík.
Svona langir kayakróðrar, dögum saman ,reyna á.
En mesta áraunin eru hinar stórgrýttu fjörur sem tíðum eru einu lendingastaðirnir.
Kayakskórnir eru illa gerðir fyrir stórgrýtisgöngur með þungan kayakinn í eftirdragi-
Gísli er orðinn mjög sárfættur...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/07/02 09:49
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

02 júl 2009 00:52 #82 by Sævar H.
1.júlí 2009

25.róðrarleggur : Hvalvatnsfjörður- Tjörnes


Nú er Gísli kayakræðari lagður af stað í sinn 25 róðrarlegg.

Gísli ýtti úr vör í Hvalvatnsfirði á Fjörðum um kl 16.40 í dag þ. 1.júlí.
Hann stefnir nú á Flateyjarsund.
Óvíst er hvort hann rær með \&quot;Víkunum \&quot; eða þverar Skjálfandaflóann.

Vist er að ekki verður hann einmanna á Skjálfanda.
Mikil hvalagengd er nú á svæðinu .

Veður er gott og fer batnandi með nóttinni.

Gísli tók land í Flatey á Skjálfanda og hafði þar góða viðdvöl.
Síðan tók hann stefnuna suður með Víkunum í stað þess að þvera Skjálfandaflóann.

Óvíst er um hvar hann lætur fyrirberast í nótt eða fyrramálið--
þetta er orðin hálf tímalaus veröld hjá honum þarna norður í miðnætursólinni...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:13
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 17:51 - 09 nóv 2011 23:42 #83 by Sævar H.
1.júlí 2009

Hvalvatnsfjörður

Ekki amalegt hjá Gísla kayakræðara að halda upp á eins mánaðar afmæli kayakróðursins
umhverfis Ísland- hér á þessum ægifagra stað sem Hvalvatnsfirði á Fjörðum .

Nú - þegar í Hvalvatnsfjörðinn er komið -hefur Gísli lagt að baki sjóleið sem nemur 936 km
frá því hann yfirgaf Geldinganesið í Reykjavík þann 1. júní 2009

Fjörður
Það er sumarfagurt á Fjörðum - eins og sést á myndinni hér að ofan.
En á vetum eru snjóþyngsli mikil. Hún Látra-Björg sem ól allan sinn aldur á Látraströnd á Fjörðum
kveður svo um byggðalagið :

" Fagurt er á Fjörðum / þá Frelsarinn gefur veðrið blítt/ heyið grænt í görðum
/ grös og heilagfiski nýtt/ en þá vetur að oss er að sveigja,/
veit ég enga verri sveit / um veraldrarreit / menn og dýr þá deyja."

Og rithöfundurinn Theódor Friðriksson sem ólst upp á Gili innsta bæ á Fjörðum segir svo frá :
"Að þegar hann kom heim að Gili eitt sinn , gangandi úr sjóferð og á skíðum utan frá Eyri-
þá fann Theódór hvergi bæinn sinn í fyrstu- en þá stóð hann ofan á bænum - sem þá hafði fennt á kaf..."

En nú er sumar og blíða hjá Gísla í Hvalvatnsfirði á Fjörðum<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:12
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 17:24 #84 by Sævar H.
1.júlí 2009

24. róðaraleggur : Fljót í Skagafirði- Hvalvatnsfjörður á Fjörðum



Í dag þann 1.júlí 2009 er einn mánuður liðinn frá því Gísli kayakræðari
lagði upp frá Geldinganesinu í Reykjavík með það að markmiði að róa umhverfis Ísland
einn síns liðs.
Gísla sækist róðurinn mjög vel.
Í gær lagði hann upp frá Fljótavík í Fljótum í Skagafirði um kl 13.30 og
lauk þessum 24. róðrarlegg sínum í Hvalvatnsfirði á Fjörðum - austan Eyjafjarðar.

Sjóleiðin sem Gísli hafði lagt að baki frá því kl. 13.30 í gær og þar til róðrinum lauk kl. 7.20 í morgun
þann 1. júlí, er um 64 km.

Ekkert smá afrek hjá Gísla kayakræðara á 1 mánaðar afmæli hringferðarinnar um Ísland.
Þetta gefur fyrirheit um að hann ljúki markmiði sínu að róa einn síns liðs umhverfis Ísland-fyrstur Íslendinga...

Til hamingju Gísli.<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/07/01 15:05
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 06:02 #85 by Hannes


Þessi mynd er tekin út Siglufjörð og sýnir endann á Siglunesi. Gísli fór fyrir nesið um kl. 19 í kvöld en myndin var tekin tveimur klukkustundum síðar. Eins og sjá má eru aðstæður hinar ákjósanlegustu. Skipið á myndinni er varðskip Landhelgisgæslunnar.

Siglunes og Hellan sem gengur út frá því virkar eins og brimbrjótur fyrir úthafsöldunni og því er minni alda í Siglufirði en nálægum fjörðum, Héðinsfirði og Ólafsfirði. Þetta var helsta ástæðan fyrir því að Norðmenn hófu síldarvinnslu á Siglufirði upp úr aldamótum.

Kveðja,
Hannes
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 05:59 #86 by Hannes
<br><br>Post edited by: Hannes, at: 2009/06/30 23:03
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 05:56 #87 by Hannes
<br><br>Post edited by: Hannes, at: 2009/06/30 23:02
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2009 00:30 #88 by Sævar H.
30.júní 2009

24. róðrarleggur :Fljótavík í Fljótum- Siglufjörður


Gísli kayakræðari lagði upp frá fjörunni vestan Reykjarhóls í Fljótum um kl 13.30 í dag þ. 30 júní.
Hann stefnir á að láta fyrirberast í nótt í Siglufirði.
Hinsvegar er ekki á vísan að róa þegar Gísli er á ferð-hann gæti þess vegna endað í Héðinsfirði.

En sjáum til....

Kl. 22.45
Það fór sem mig grunaði. Gísli kayakræðari leit aðeins inn til Siglufjarðar og hélt síðan áfram róðri sínum- fyrir Siglunesið .
Þveraði síðan Héðinsfjörð og tók land fyrir stuttu , skammt sunnan Hvanndalaskriðu og litlu norðan við eyðibýlið Hvanndali.
Síðast var búið í Hvanndölum 1894-96.

Það er ólíklegt að Gísli láti fyrirberast þarna í nótt.
Líklegt þykir mér að þverum Eyjafjarðar freisti hans mjög . Veður er með eindæmum gott - logn og ládauður sjór.
Gísli hefur nú róið um 35 km í dag.
Ef hann þverar Eyjafjörðinn - þá er Þorgeirsfjörður næsta lending - í Fjörðum.
Það er um 25 km róður frá Hvanndölum í Þorgeirsfjörð

Enn og aftur- sjáum til...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:10
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 jún 2009 14:47 #89 by Sævar H.
30.júní 2009

23. róðrarleggur Gísla kayakræðara: Hraun á Skaga- Fljót í Skagafirði


Gísli lagði upp kl 14.30 þann 29.júní ,frá Hrauni á Skaga og hafði síðan viðkomu skammt norðan við bæinn Ketu í vestanverðum Skagafirði.

Eftir gott stopp ýtti Gísli síðan úr vör kl. 19.45 og setti stefnuna á þverun Skagafjarðar , djúpt norður af Málmey.

Gíslí kayakræðari tekur síðan land kl. 3.40 í nótt , aðfararnótt 30.júní skammt vestan við bæinn Reykjarhól í Fljótum - austast í Skagafirði og lætur þar fyrirberast

Heildarróðrarleið Gísla á þessum 23. legg sínum er um 47 km.

Þar sem ég hef ekki náð sambandi við Gísla kayakræðara - er mér ekki kunnugt um veðurskilyrði á leið hans þvert yfir Skagafjörðinn.
kl 13.15
Ég náði sambandi við Gísla kayakræðara kl 13 í dag 30 júní.
Veðurskilyrði á öllum róðrinum í gær og þar til honum lauk í nótt- var þoka og ofast svartaþoka.
Þannig að róðurinn var allur með kompás og Gps leiðsögn.
Á miðjum Skagafirði kom nokkuð langur kafli með 6-7 m/sek af NA og um 0.5 m ölduhæð.
Það gekk síðan niður þegar Gísli nálgaðist landið,

Gísli er fjallhress og er að leggja í næsta legg- þann 24.

Langróðrar á kayak
Að leggja í sjóferð á kayak umhverfis Ísland er meiriháttar mál.
Það krefst mikils undibúnings.Viðkomandi verður að vera í mikilli róðrarþjálfun í langan tíma
fyrir hringferðina og í góðu líkamlegu ástandi . Hann verður að geta bjargað sér við erfiðar aðstæður á sjó.
Vera með veltuna á hreinu við allskonar aðstæður . Sjálfbjörgun upp í bátinn takist veltan ekki verður að vera æfð..
Hann verður að búa yfir góðri alhliða róðrartækni . Hann verður að hafa reynslu og þekkingu á brimlendingum.
Hann verður að hafa þekkingu til að sigla eftir kompás og korti og geta hagnýtt sér GPS tækni. Fjarskiptatækni með VHS stöð er nauðsynleg.
Hann þarf að geta lesið í sjávarföll og hafstrauma . Hann verður að geta framkvæmt viðgerð á kayaknum og búnaði hans.
Og síðast en ekki síst er þekking ,reynsla og kunnátta í að lesa úr veðurspám - mikilvæg.
Fatnaður er mikilvægur og verður að vera þægilegur og vandaður- einkum sjógallinn.
Kunnátta í að lesta kayakinn rétt er mikilvæg.
Matur verður að vera orku og næringarríkur.... Og að sjálfsögðu útheimtir langróður – mikinn sálarstyrk og æðruleysi.... Ekkert smá...sem þarf til<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/06/30 13:31
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 jún 2009 06:10 #90 by Sævar H.
29.júní 2009

23. róðrarleggur Gísla kayakræðara


Nú kl. 23 þann 29. júní er Gísli kayakræðari að nálgast Málmey - norðanverða- á róðri sínum þvert yfir Skagafjörðinn.

Kl. 19.45 ýtti Gísli kayakræðari úr vör skammt norðan við Ketu í vestanverðum Skagafirði . Róðrarleiðin sem Gísli þverar Skagafjörðinn
er um 27 km og þar af 22 km að norðurenda Málmeyjar.

En bíðum morguns með hvar Gísli kayakræðari lætur fyrirberast í nótt... eftir að hafa lokið sínum 23. róðrarlegg á leið sinni umhverfis Ísland á kayak...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:10
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum