Ferðadagskrá 2014

Dagskrá 2014.  Nánari lýsingar koma þegar nær dregur hverjum viðburði.  Ferðanefnd minnir einnig á viðburði annara eins og keppnisnefndar og Vor- og Haushitting Sæfara í Reykjanesi, Ísafjarðardjúpi.

Líklegt er að skellt verði á ferðum með stuttum fyrirvara og eru menn með hugmyndir um að krydda fimmtudagsróðar með nýjum staðsetningum :)

Sjá dagskrárauka fyrir náttbuxnaróðra í haust.

Skýringar á "árum"/erfiðleikastigi ferða er að finna hér.

6. Apríl - Stokkseyri - Selvogur

Brottför kl. 8 úr Reykjavík, fólk sameinast í bíla eftir þörfum. Skilja þarf einhverja bíla útí Selvogi.

Sjósett á Stokkseyri um kl. 10 og róið í fyrsta legg til Þorlákshafnar (18 km) fyrir ósa Hvítár, og tekið kaffistopp í fjörunni neðan við Þorlákshafnarkirkju. Þaðan róið vestur í Selvog og Strandarkirkja í Engilsvík skoðuð.

Heilsdagsróður, allt að 8 tímar. Erfiðleikastig: 3 árar. Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi góð tök á félagabjörgun o.s.frv. Nauðsynlegur lágmarksbúnaður: lensidæla, toglína, varaár, sími í vatnsvörðum pakkningum, hjálmur, sjóhetta, áralúffur, sjúkrapakki, neyðarblys nesti, drykkur og skjólflíkur til viðbótar við róðrargalla.

Umsjón: Örlygur Sigurjónsson

12. Apríl - Þingvellir

Þingvellir, róið innan þjóðgarðs.

Skemmtilegur róður á Þingvallavatni með viðkomu í gjánum, Silfrulón og Silfra skoðuð.

Mæting er á enda Vallhallarstígar, keyrt inn þar sem Valhöll stóð og meðfram ánni út á enda, þar ætlum við að hittast kl 9:30. Áætlað er að leggja af stað kl 10:00. Róum meðfram sumarhúsalóðunum að Nestá, þverum þá vatnið yfir að Arnarfelli, róum meðfram því og tókum kaffi stopp. Róum svo undir tjaldstæðunum og endum á að fara upp í Silfrulón og um gjárnar upp í Silfru sjálfa. Þá höldum við aftur út í vatnið og höldum að bílunum.

Þessi ferð er einnar árar ferð og ætluð öllum ræðurum. Róðraleið u.þ.b 16 km.

Umsjón: Einar Sveinn Magnússon

17. maí - Geldinganes - Nauthólsvík

Eyjahopp milli Geldingarness og Nauthólsvík. Þetta eru ca 22km róður. Lagt verður í hann frá Geldingarnesi kl. 10:00 (mæting 9:30). Róið suður fyrir Viðey, yfir í Engey, Akurey, fyrir Gróttu og Búðagranda, með suðurströnd RVK að Nauthólsvík. Möguleiki er á að koma inn í eða fara úr ferðinni við Skarfagarða (Viðey), Eyjaslóð (Grandi/ Engey), Gróttu eða Búðagranda (Golfvöllur).

Gert er ráð fyrir 5-6 klukkutímum í þessa ferð. Stoppað verður í Engey og jafnvel í Akurey líka (ef veður og áhugi leyfir), Búðagranda og svo verður eitt hressingarstopp síðasta spölinn ef þreyta er farin að segja til sín. Ef gott er veður er möguleiki á hringun Akureyjar áður en stímt er yfir á Gróttu.

Erfiðleikastig 2: Lengri dagsferðir eða dagsferðir um svæði utan alfaraleiðar. Einnig ferðir sem taka fleiri en einn dag ef dagleiðir eru stuttar. Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi æft félagabjörgun og geti róið a.m.k. 20 km á einum degi.

Umsjón: Sigríður Perla Thorsteinson 

31. Maí - Hörpuróður

Hinn árlegi Hörpuróður verður laugardaginn 31. maí. Farið verður frá Skarfabakka, með ströndinni og inn í Reykjavíkurhöfn. Róið verður um höfnina, til kynningar sportinu og okkur til ánægju og endað í fjörunni við Sjóminjasafnið.

Umsjón: Bjarni Kristinsson

21. Júní - Jónsmessuróður á Sumarsólstöðu 

Umsjón: Páll B. Reynisson

28. Júní - Mýrar: Miðhús - Knarrarnes/Hofstaðir

 

Róðrartíminn í þessari ferð er aðeins frábrugðinn venjulegum róðrartíma í dagsferðum og ræðst það af sjávarföllum. Stórstreymt er þennan dag.

Róðrarleiðin er u.þ.b. 17-18 km. Mæting við fjöruna við Miðhús kl. 12:00. Um tvær leiðir er að velja eins og staðan er núna.

    a) Róið frá Miðhúsum meðfram ströndinni og milli skerja og endað í Litlastekksvík við Hofstaði

    b) Róið frá Miðhúsum meðfram ströndinni, milli skerja, hringa Knarranes (eyja) og endað við Knarrarnes í landi

Reikna má með að róðurinn taki 5 klst og komið í land um kl. 18:00

Umsjón: Hildur Einarsdóttir

11.-13. Júlí - Langisjór

Þau sem ætla í ferðina verða að mæta á svæðið sjálf og sjá um að koma sér og sínum bát upp í Langasjó, en til þess þarf fjórhjóladrifið farartæki sem hægt er að aka yfir ár og ófærur án vandkvæða.

  • 11. júlí, föstudagur Fólk kemur sér austur og er að sjálfsögðu frjáls ferðatilhögun, val er um að aka austur í Skaftártungur eða að renna í Landmannalaugar og þaðan um fjallabaksleið nyrðri. Þó má reikna með að megin hluti hópsins tjaldi annað hvort í Hrífunesi eða við skálann í Hólaskjóli.
  • 12. júlí, laugardagur Róðarleið milli 18 og 19km Dagurinn verður tekin snemma og reiknað að leggja af stað frá veiðihúsinu eigi síðar en 11:30 síðan verður róið í rólegheitum inn með hlíðum Fögrufjalla og stoppa reglulega til að skoða sig um og njóta útsýnis. Róið verður að Útfallinu og farið þar í land til að skoða sig um. Að lokini skoðun við Útfallið verður róið að enda vatnsins og tjaldað þar. Eftir að allir hafa komið sér fyrir (grafið fyrir hreinlætisaðstöðu) og fengið sér kvöldmat verður gengið á Skaftártind og horft niður eftir Lakagígaröðini. Ef einhverjir verða með eldivið með sér verður sest við varðeldin og skrafað.
  • 13. júlí, sunnudagur Róðarleið milli 18 og 19km Dagurinn tekin snemma og róið til baka í rólegheitum og þeir staðir sem fólki fanst vera farið framhjá á laugardeginum skoðaðir betur. Endað við veiðihúsið og ferðini slúttað þar og allir dóla sér heim á leið með fullt af góðum minningum í farteskinu.
Umsjón: Guðmundur Jón Björgvinsson

9.-10. Ágúst - Breiðafjörður

Akureyjar norðan Skarðstrandar og nálægar eyjar.

Ferðin hefst á fimmtudags kvöldi þar sem hópurinn hittist á tjaldsvæði nálægt brottfarastað, að morgni föstudags verður haldið i Akureyjar þar sem tjaldað verður til tveggja nátta, seinnipart föstudags og laugardag verður róið i nálægar eyjar, dagleiðir verða fremur stuttar þannig að góður timi ætti að gefast til að njóta náttúrunnar og kynnast eyjunum.

Athugið að þetta getur orðið nokkuð krefjandi róður sjá hæfniskröfur klúbbsins: Ferðir þar sem þvera þarf firði eða róa um svæði þar sem langar vegalengdir eru milli landtökustaða.  Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi æft félagabjörgun, séu byrjaðir að tileinka sér rétta róðratækni, stuðningsáratök og geti róið 20 - 30 km á dag. 

Athugið að mæting vestur er á fimmtudagskvöldi.

Umsjón: Lárus Guðmundsson / Guðni Páll Viktorsson

 

Náttbuxnaróðrar í haust

Dagskrárauki, sem samanstendur af þremur næturróðrum í aðdraganda Friðarsúluróðurs þann 9. október. Fyrsti næturróðurinn í seríunni, hefst fimmtudaginn 19. september og síðan vikulega til og með 3. okt. Mæting er í Geldinganesi kl. 20.30 alla dagana, og sjósett kl. 21. Miðað er við að koma í land kl. 22.30 í síðasta lagi. Farið verður yfir ýmis hagnýt atriði í næturróðrum, svo sem samskipti innan hóps, rötun, fjarlægðarmælingar, öryggisráðstafanir af ýmsum sortum og sitthvað fleira.