Image

Dóri á Ísafirði tekur Grænlendinginn sinn til kostanna. Glæsilegur farkostur og skemmtilegt viðtal sem blaðamaður Fréttabréfsins tók við hann:

Innilegur sæluhrollur fór um Halldór Sveinbjörnsson prentsmiðjustjóra með meiru á Ísafirði þegar hann fyrst leit augum grænlenska kayakinn sinn í október. Síðan þá hefur hann róið eftir megni en alls kyns vesen, s.s. vinnan og flutningar úr einu húsi í annað, stal frá honum dýrmætum róðratíma. Hann féllst samt á að deila reynslunni af Grænlendingnum með öðrum kayakræðurum. 

“Mér leið eins og klifrara sem kemst upp á toppinn á Everest þegar ég stóð fyrst við bátinn. Mig hefur langað í svona bát í 15 ár. Það leið heilt ár frá því ég pantaði gripinn, þar til ég fékk hann, á þeim tíma var hann búinn að vera  hálft ár á höfninni á Grænlandi tilbúinn til sendingar. (Höfnin var lokuð vegna íss)

Báturinn er algjör snilld. Hann er svakalega skemmtilegur og það er jafnerfitt að róa honum á réttum kili eins og það er auðvelt að róa honum á hvolfi. Og ég er viss um að báturinn á eftir að gera mig að miklu næmari og færari kayakræðara, hann á eftir að slípa mig rosalega mikið. Að sjálfsögðu fer ég bara á bátinn með alvöru grænlenskt prik og þetta gerir það að verkum að maður þarf að fylgjast miklu betur með hverju einasta árataki (awereness of the blade, fyrir þá sem þekkja Dóra). Ef maður gerir eitthvað vitlaust er hann búinn að snúa sér á punktinum. Hann er ekki eins rásfastur og hinir bátarnir mínir. Skeggið er líka svolítið ofarlega í sjó, af því að rokkerinn er svo mikill.

Báturinn er sérpantaður eftir máli og hann hefði ekki mátt vera hálfum sentimetra þrengri. Ég bað um ákveðna lengd miðað við breidd, að fenginni reynslu. En lagið á bátnum, það lét ég sérfræðingana um.

Málið er að ég á von á öðrum sem verður með öðru lagi og því verð ég að játa að lagið á bátnum er ekki alveg eins og ég hefði viljað hafa það. Mér finnst aðeins of mikill rokker í bátnum (of mikið bananalag). Kannski er það af því að ég er lítið vanur bátum með miklum rokker og aðstæður á Ísafirði eru þannig að við erum ekki mikið að róa í brjáluðu veðri og í miklum öldum. Ég hugsaði hann meira sem veltuæfingabát heldur en að sem leiktæki fyrir miklar öldur. Svona bátur er ekki alveg vatnsheldur því þar sem skinnþverböndin koma inn í bátinn lekur svolítið. Og þegar ég er búinn að róa honum í hálftíma eða klukkutíma þá þarf ég að losa hann. Þetta er náttúrulega rosalega flott montprik! Það væri svosem ekkert mál að gera hann vatnsheldan með glæru sílikoni en mig langar bara ekkert til þess. Þetta háir mér svo sem ekkert við veltuæfingar því mér er löngu orðið kalt og farið að svima þegar báturinn er orðinn fullur.”

Grænlendingurinn hans Dóra er byggður eins og gömlu grænlensku kayakarnir nema hvað efniviðurinn er að nokkur leyti annar. Að sögn Halldórs láku grænlensku kayakarnir alltaf en það kom ekki að sök því Grænlendingarnir voru ekki sífellt að leika sér að því að velta bátnum og gera allskonar hundakúnstir. Þeir voru bara að veiða.

Halldór er sem sagt búinn að fá sér grænlenskan kayak og grænlenska ár og hann er líka búinn að kaupa sér stakk sem er með grænlensku sniði, svonefndan tuilik. Tuilik er í stuttu máli sagt hlýr stakkur, með lokaða hettu sem maður reimar að andlitinu, og síðan lokast stakkurinn yfir mannopið. Passar fínt á grænlenska bátinn og ekki síður á Inuk. Hönnunin er grænlensk en stakkurinn er búinn til úr nýtísku efni.

Báturinn hans Halldórs er úr smiðju sem er í bænum Qagortoq sem er sunnarlega á vesturströnd Grænlands. Meira um þá hér: www.greenlandkayaks.gl og hér er myndband af Halldóri á veltuæfingu: http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.Channel&ChannelID=147771088

Þessa smiðju stofnaði sjálfur Baldvin Kristjánsson, Grænlandsfari o.s.frv.

Halldór fékk bát nr. 1 úr smiðjunni og Ágúst Ingi Sigurðsson fékk bát nr. 2. Ágúst á reyndar eftir að sækja sinn bát en Ágúst mun vera í mánaðarlöngum róðri – á vélbát, í þetta sinnið – og er væntanlegur í viðhafnarferð til Ísafjarðar innan skamms til að taka við bátnum. Þetta eru auðvitað mun merkilegri menn en Svíakonungur enda fékk hann bara báta nr. 3-5. Issípissí.

Og hvað kostar svo sérsmíðaði gripurinn sem var fluttur frá Qagortog, til Nuuk, þaðan til Danmerkur og loks til Ísafjarðar? Halldór hefur bara ekki hugmynd um það því hann fékk bátinn að gjöf frá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru í Hnífsdal. Áfram Halldór! segja þeir hjá HG eins og fleiri á Ísafirði. Já og víðar.

Dori: bb.is

Myndasafn á PicasaWeb