Ferðafélagar voru Reynir Tómas,Steinunn, Gunnar Ingi, Lárus og Kolla, Grímur Kjartans, Guðmundur Breiðdal, Gísli Karls, Perla, Magnús S. Magnússon, Guðni Páll, Magnús Einarsson, Sveinn Axel og Hildur, Páll Reynis, Sigurjón, Egill, Bjarni Kristinsson, Guðrún Jónsdóttir, Magnús Norðdahl, Jónas Guðmundsson, Magnús Sigurjónsson, Þóra og Klara, og Hilmar Pálsson.
Nokkrir komu á fimmtudag og tjölduðu á Miðjanesi og réru á föstudeginum en heldur mun þá hafa verið hvasst. Síðdegis hafði lægt og sól var í heiði.
Lagt var af stað frá höfninni Klauf við Stað í dálitlum vindi í bak og stjórnborða yfir Þorskafjarðarmynnið að Skálanesi. Róðrarstjóri var Maggi Sigurjóns. Gísli og Gunnar Ingi leiddu fremst alla ferðina. Fyrsta pása var við Skálanesið niður undan bænum og svo var haldið áfram milli smáeyja og skerja og tanga inn Kollafjörðinn um það bil þrðjung hans, svo þverað yfir á Bæ. Þar var góð lending og ágætt tjaldstæði í Ytri Vognum niður undan gamla bænum. Þarna tóku á móti okkur heiðurshjónin Hjalti Einarsson og Kristjana Jóhannesdóttir.
Tjaldað var í þurru, en smá rigningu gerði um nóttina (Gummi Breiðdal bættist í hópinn um kl. hálf tvö !). Næsta dag var aðeins dumbungur, en þegar róið var af stað létti til, þó ekki sæist í fjallatoppa. Farð var út með nesinu, enn á millii skerja og fyrir smá nes inn í Kvígindisfjörðinn að Kirkjubóli, þar sem var lent í sandfjöru og tekin önnur góð hvíld. Þaðan var farið aðeins lengra inn fjörðinn og svo út með vesturströnd hans (örn sást) út á Svínanes. Þar var stoppað og gengið heim að bænum. Hann var yfirgefinn 1959. Gaman var að skoða hann þó hann sé að verða rústarlegur. Í ofni á einum veggnum var nýleg ritgerð á ensku um rannsóknir á staðnum. Við Kumbaravog á nestánni eða aðeins vestar versluðu Englendingar (Kumbarar = Cumbria á vesturströnd Englands) og síðar Þjóðverjar frá Hamborg og Brimum fram undir einokunartímann. Þarna hittum við 3 Frakka á skemmtiferð og hægri siglingu á fellikayökum og ræddi Magnús SM við þá að sjálfsögðu. Svo var róið aðeins inní mynni Skálmarfjarðar, en hætt var við að fara á Skálmarnes vegna tímans sem í það hefði farið og haldið aftur tilbaka fyrir mynni Kvígindisfjarðar í Bæjarnesið. Þar var stoppað á og við sker eitt, enda sumir sísvangir með í för. Svo var róið tilbaka á Bæ. Sumir fóru útúrdúra, svo sem lengra inn Skálmarfjörðinn og í hellaskoðun við Bæjarnesið. Allan daginn var nánast logn og nokkrir dropar úr lofti gerðu hreint ekkert til að minnka stemmninguna. Afslappaður og flottur dagur.
Kvöldið leið við grill og varðeld í fjörunni þar sem Hjalti og Kristjana heimsóttu okkur. Þóra og Klara notuðu nýju finnsku pönnuna. Einhver rokhrissingur og rigning um nóttina vakti ekki alla. Sunnudagur rann upp með sól í heiði. Eftir morgunmat var farið í þurra gallana í skemmunni góðu og svo í kaffi og spjall hjá hjónunum. Svo var haldið tilbaka í Klauf í rjómablíðu, fyrst í Skálanes og strauma þar, svo beint á Klaufarhöfn. Þar dengdi helmingur hópsins sér í sjósund í gallanum, eins og sjá má af fínum myndum. Svotil allir enduðu í sundi á Reykhólum, en þá í heldur efnisminni göllum.
Á Bæ ráða ríkum hjónin Hjalti Einarsson og Kristjana Jóhannesdóttir. Kristjana er dóttir síðustu ábúenda sem fluttu burt 1962. Hún var yngst barnanna, heimasætan í orðsins fyllstu merkingu og sagði okkur margt frá lífinu á bænum og í sveitinni meðan þar var bú með 3 kúm og 200 fjár. Móðir hennar, Guðrún Kristjánsdóttir, var ljósmóðir sveitarinnar og eyjanna úti á norðanverðum Breiðafirði frá 1933-62. Hjónin sýndu okkur alveg einstaka gestrisni. Ekki einasta fengum við að tjalda og fá að þurrka föt í mikilli upphitaðri skemmu á staðnum, þar sem Hjalti strengdi snúrur fyrir okkur (og þar sem var fínasta klósett og heitt og kalt vatn), heldur var okkur boðið til bæjar í kaffi og vöfflur að morgni laugardagsins, aftur þegar við komum úr laugardagsróðri og enn var kaffi og fínasta meðlæti að morgni sunnudagsins. Dvaldist sumum þar við spjall við hjónin og við að skoða húsið með ýmsum gömlum munum. Þetta var sérstakt og annarri eins gestrisni og góðvild man ég ekki eftir í Breiðafjarðaferðunum.
Alls voru rónir 12 + 26 + 9 km = 47 km.
Myndir frá ferðinni :
- Frá S.Perlu
- Frá Sveini Axeli
- Frá Jónasi
- Frá Gunnari Inga
- Frá Bjarna
Ritgerðin um Svínanes finnst hér.