Frá Þorsteini J

Fyrirhugað var að róa frá Hvítanesi í Hvalfirði yfir á Þyrilsnes, gera kaffistopp í Þyrilsey, róa yfir Brynjudalsvog og aftur í Hvítanesið. Áætluð vegalengd var um 12 km og ferðin var auglýst sérstaklega fyrir byrjendur og nýliða.

Á sjó fóru 19 bátar, yst á Hvítanesi úr lítilli vík vestan við stóru bryggjuna frá stríðsárunum. Guðni Páll var róðrarstjóra til aðstoðar, Þóra var fremsti ræðari og Klara aftast. Eftir lauslegt mat okkar á getu hópsins og með hliðsjón af NA 4-6 m/s mótvindi frá Þyrilsnesi ákváðum við Guðni Páll að fara ekki beint yfir á Þyrilsnes en róa fyrst inn í áttina að Fossá. Allt gekk þetta vel og hópurinn fór í land í þægilegri sandfjöru sunnan í Þyrilsnesi til að rétta úr sér.

Áætlunin var að róa austur með Þyrilsnesi og þvera yfir í eyjuna, en alltaf má búast við vindhviðum af Þyrli í þröngum Botnsvoginum. Við klettasnös einna mátti greina í fjarska að vindstrengur rótaði sjónum upp innan við Þyrilsey. Hópurinn þéttist þarna við klettinn, en þegar Þyrilsey varð sýnileg hertu sterkari ræðarar á sér og stefndu beint á eyjuna og hópurinn dreifðist langt frá landi.

 

Þá barst vindhviða yfir okkur eins og hendi væri veifað og ólgusvæðið, fyrir innan Þyrilsey, með hvítfextum vindöldum brunaði hratt til okkar. Það er mat mitt að þessi vindur hafi verið á bilinu 15-20 m/s í um 10 mín eftir að hann hófst, en síðan minnkað niður í 10-12 m/s og að fremstu ræðarar hafi átt eftir um 200 m en þeir öftustu um 400 m í Þyrilsey þegar hviðan skall yfir.

 

Hópurinn hefði aðeins átt eftir 5-10 mínútna róður að Þyrilsey í stilltu veðri en nú tvístraðist hann. Nokkrir ræðarar tóku vel á og skiluðu sér fljótt að landi í Þyrilsey. Þrír ræðarar fengu aðstoð til að ná til Þyrilseyjar, einn hópur sló alveg undan vindi vestur með Þyrilsnesi og fór í land í skjólgóðri vík. Annar hópur fór undan vindi, með vindinn aftan á vinstri hlið og í land neðan við þjóðveginn gegnt Þyrli.

Hópurinn í Þyrilsey tók matar-og menningarhlé eins og fyrirhugað var en ekki var ráð að sameina hópana um sinn, vindur enn hvass og margir þurfandi fyrir hvíld og hressingu. Sævar flutti hópnum pistla um merka sögu þessa svæðis. Loks sameinuðst hóparnir þrír á ný utan við Fossá og heim var haldið að loknum eftirminnilegum degi.

Gísli H. F.

Myndir :