Langþráð ferð var farin dagana 13.-16. júlí sl. en þá lögðu fimm kayakræðarar á Langasjó í Skaftárhreppi. Lagt var úr Reykjavík að kveldi miðvikudagsins og ekið austur í Landbrot þar sem gist var í sumbústað yfir nóttina. Veðurspáin hljóðaði upp á hægbreytilega átt og hlýindi fram á laugardag en þá átti hann að snúa sér í suðvestan átt, það var því gríðarlegur hugur í hópnum. Árla fimmtudagsmorgun var risið úr rekkju og blasti þá við því sem næst heiður himinn og þegar betur var að gáð hreyfði ekki hár á höfði. Spenningurinn minnkaði ekki við þetta og var hamast við að lesta bílinn og koma hópnum af stað.
Landið skartaði sínu fegursta á leiðinni upp á hálendið Gjátindur, Grænifjallgarður, Uxatindar og svo sjálfur Sveinstindur birtust okkur hver af öðrum og drógu aðeins úr óþreyjunni eftir því að sjá fyrirheitna vatnið. Langisjór birtist okkur svotil spegilsléttur um hádegisbil og þar sem þetta var fyrsta ferð hópsins með útilegugræjurnar meðferðis í bátana þá fór þó nokkur stund í að koma öllu dótinu fyrir. Eftir að ferðalangar höfðu snætt var lagt var frá landi með fulllestaða báta í blankalogni og sól. Róið var sem leið lá með suðurströnd Langasjóar undir Fögrufjöllum. Fjórir af fimm ferðalöngum voru í fyrsta sinn á Langasjó og því var ferðahraðinn ekki mikill fyrst um sinn þar sem margt var að skoða og dást að. Þegar um 5 km voru að baki komu hellar í vatnsborðinu í ljós og voru þeir skoðaðir í krók og kring. Fyrsta stopp var í eyju skammt undan landi og gafst þar tóm til að eta og bera saman bækurnar. Örlítil suðvestan gjóla var farin að gera vart við sig þannig að ferðin gekk hratt norður með vatninu. Landslagið varð æ hrikalegra eftir því sem norðar dró og myndavélarnar voru ekki sparaðar. Næsta áning var í Fagrafirði en það er alveg nauðsynlegt fyrir kayakræðara sem róa Langasjó að koma þar við því að fjörðurinn ber svo sannarlega nafn með rentu. Síðasti spottinn var róinn í einum legg og tók róðurinn yfir vatnið rúma 6 tíma með stoppum.
Slegið var upp tjaldbúðum í Montvík. Grillkolin voru tekin upp og lambakjötinu skellt á grillið við góðar undirtektir viðstaddra. Fljótlega eftir uppvask var gengið til náða eftir góðan dag.
Föstudagur tók á móti okkur með alskýjuðu en mildu veðri og var ákveðið að halda í gönguferð um Fögrufjöll. Gengið var upp frá Montvík yfir fjallgarðinn og niður að lóninu milli Skaftár og Útfalls. Útsýnið af toppum fögrufjalla var ekki af verri endanum þrátt fyrir að sólin næði ekki í gegnum skýin. Þegar niður að lóninu var komið fór hann að ryðja af sér og sólin hafði betur. Þar sem veiðistengur höfðu verið teknar með í túrinn var ekki annað hægt en að renna fyrir fisk í vísindaskyni. Það kom á daginn að nóg er af bleikju bæði í Langasjó og Útfalli en seint verður sagt að fiskurinn sé stór. Þar sem lambakjötið hafði verið flutt í kílóavís norður Langasjó, var veiða/sleppa aðferðinni beitt óspart, ef frá er talinn einn tittur sem lenti á grillinu. Þegar í kampinn var komið var grafin hola og hvítlauksítroðnu lambalæri hent á kolin sem þar voru kynt. Rétt áður en veislan átti að hefjast varð óvæntasta uppákoman í túrnum en þá birtist okkur ofan úr Fögrufjöllum göngumaður nokkur austurrískur. Bar hann það nokkuð með sér að vera svangur og var honum auðvitað vísað til sætis að víkingasið. Milli þess sem hann slafraði í sig lærið kom í ljós að hann hafði verið á göngu í tíu daga og átti þrjá eftir. Var hann að koma frá Heklu og ætlaði að enda í Landmannalaugum þar sem hann ætlaði að taka rútu til byggða. Eitthvað hafði hann misreiknað matarþörfina og var hann þakklátur fyrir matinn. Ekki stoppaði hann þó lengi og jafn snögglega og hann hafði birst okkur þá hvarf hann út í rökkrið sem var að færast yfir.
Eftir þessa veislumáltíð og nokkrar umræður um þennan kolóða mann sem hafði nánast rifið utan af sér fötin og eyðilagt skóna í Hekluhraunum var haldið í stutta kvöldgöngu upp í fjallshlíðarnar fyrir ofan kampinn til að ná veðurfréttum. Meðan beðið var eftir fréttunum var hellt uppá kaffi og fjallapelinn tekinn upp til að hafa með því. Allir hlustuðu með andakt á veðurspámanninn þar sem hann þuldi upp vísindin og að því loknu var felldur dómur: Ræs klukkan 06.30 og ekkert múður!!! Spáin hljóðaði upp á SV-átt og rigningu þegar líða tæki á laugardaginn og því var það samdóma álit allra að því fyrr sem lagt yrði af stað því betra.
Lognið var algjört á laugardagsmorgninum þegar skriðið var úr pokanum. Eftir að hafa nartað í morgunbitann var pakkað saman og að því búnu um áttaleytið var róið af stað. Ákveðið var að róa til baka með suðurströndinni eins og gert hafði verið á leiðinni inn úr. Annað slagið var eins og einhver pikkaði í öxlina á ræðurum sem hættu öllum róðri til þess eins að njóta kyrrðarinnar á vatninu.
Seinna morgunkaffi var drukkið á eyju út á miðjum Langasjó. Þegar róið var af stað kom í ljós að íbúar eyjarinnar voru ekkert sérlega hrifnir af okkur. Það var himbrimapar sem kom með miklum bækslagangi á móti bátunum en álitu líklega sem svo að þarna færu þeirra ofjarlar og syntu í hæfilegri fjarlægð frá hópnum. Það var hinsvegar alveg ljóst hver átti þetta vatn og hverjir voru gestirnir.
Þegar leiðin var u.þ.b. hálfnuð fór að rigna og þegar nær dró Sveinstindi fór lognið eitthvað að ókyrrast og það fór að gjóla úr suðri. Sveinstindur var hulinn þoku þegar komið var á leiðarenda og það var því pakkað í bílinn og kerruna og allar pælingar um að ganga á tindinn slegnar á frest þar til í næstu ferð á svæðið. Það verður að segja Veðurstofunni það til hróss að í þetta skiptið gekk spáin upp. Slagveðursrigning og þoka var það sem tók við og létti ekki fyrr en komið var yfir Hellisheiði.
Þetta var eins og áður var getið fyrsta ferð hópsins með allan viðlegubúnað í bátunum og ef að ferðirnar sem fram undan eru verða allar eins og þessi þá höfum við eitthvað til að hlakka til. Það sem skyggði á ánægjuna var flugan, hún var í stuði og uppskárum við nokkur bit þannig að hafið endilega með ykkur flugnanet ef ferðinni er heitið á Langasjó.
- Áki Ó. Thoroddsen
- Anna Ólafsdóttir
- Ágúst Jónsson
- Oddný Guðrún Guðmundsdóttir
- Magni Friðrik Gunnarsson
Myndasafn {2005-08_Langisjor}