Upphaflegt plan var að róa frá Stokkseyri að Selvog en því var aflýst vegna mikillar haföldu vestan við Þorlákshöfn. Plan B var róður í Hvalfirði.
Fimm félagar tóku þátt og var sjósett í Hvammsvík kl. 12:55 og haldið áleiðis að Hvammshöfða í austan stinningskalda og vænu pusi. Mjög líflegt sjólag og ekta hopperí þennan dag. Þaðan róið austur að Þyrilsnesi og inn að Múlafjalli þar sem áð var í góðu skjóli, þótt kyrrstaðan vekti sveittum ræðurum hroll. Eftir kaffi, ömmusnúða og kryddköku handa öllum, var sjósett á ný og juðuð áfram í mótvindinum langleiðina inn að brúnni yfir Botnsá, en útfallið með tilheyrandi grynningum stöðvaði leiðangurinn rétt vestan brúar. Var því haldið heim á leið og skyldi nú aldeilis snúa taflinu við og njóta meðvinds sem við áttum svo skilið. Gekk það vel nokkur áratök - en fljótt skall á með snakablíðu. Komum í Hvammsvík klukkan 17:45 í stillu og regnúða.
Ágætis ferð sem tók vel í og endaði á rólegu nótunum. Fín byrjun á ferðasumrinu.
Þátttakendur voru Perla, Markó, Tobbi, Páll R og Örsi.
Myndir frá: