Föstudag 1Júlí mættu klúbbfélagar á Skarðströnd tilbúnir í útilegu. Veðrið var okkur hliðholt, lítill vindur og þurrt, sem reyndist vera veðrið okkar alla helgina fyrir utan smá skúri.Róðurinn frá Fagradal og út í Akureyjar tók okkur aðeins einn og hálfan tíma og við renndum inn að Bæjarey og röskuðum kvöldmatar tíma ábúenda þeirra Birgis og Lilju sem tóku vel á móti okkur að vanda. Okkar beið slegin og slétt grasflöt þar sem við slógum upp tjöldum eins og á fínasta tjaldstæði og ekki leið á löngu þar til öllum hópnum var boðið i kaffisopa og nýbakaðar kleinur sem þóttu öðrum betri, kvöldið leið því hratt við matartilbúning, spjall og tjaldstúss.

Laugardagurinn var tekin hæfilega snemma i dagróður um Akureyjar þar sem farið var í land Höfn og Klofrifur áður en við rérum norður fyrir Akureyjar og yfir Hrúteyjarröst í Hrúteyjar. Að loknu stoppi í Skarðseyjum og Hrúteyjum rérum við til baka yfir röstina. Á leiðinni var rennt til fiskjar, ekki var um mokveiði að ræða en þó nóg til að einhverjir gætu smakkað fisk i kvöldmatnum, róður dagsins endaði í afslöppuðum og skemmtilegum 20 km.

Um hádegisbil á Sunnudegi var haldið heim á leið með viðkomu i skerjum sunnan við Akureyjar þar sem skarfabyggð er mikil, þar tókum við land áður en við rérum i land og tókum síðasta spottann með landi frá Níp að Fagradal, alls rérum við rúma 40 km í ferðinni.

Alls mættu 20 ræðarar í ferðina, allt félagar sem vel réðu við aðstæður og kunnu vel til verka við útilegu, sem og þær reglur sem gilda þegar farið er um í hóp, td. að fylgjast með félaganum og vera hluti af hópnum á sjó, en ekki síður þegar í land er komið að vinna saman við að koma þunglestuðum bátum upp og niður þannig að álag verði skaplegt fyrir alla.

Ég vil þakka öllum fyrir frábæra samveru, samvinnu og aðstoð á sjó og landi, ekki síst Sigurjóni og Susanne fyrir aðstoð við róðrarstjórn sem er krefjandi verkefni og kallar á fulla athygli allan tímann.

Guðna Páls var sárt saknað en veikindi settu strik i hans reikning.Sérstakar þakkir fá ábúendur Birgir og Lilja.

lg

 Breidafjordur2022