Image

Leiðakort

Ferðin var frábær. Við vorum ellefu alls, níu að sunnan og tvö frá Akureyri.

Farið var frá Sandinum út fyrir bjargið í Ágúlshelli og svo siglt með háum klettum Bakrangafjalls að minni Purkár og Kotamýrardals, út með Vegghömrum og í lendinguna í Naustavík.

Gaman var að koma í gamla steinhúsið í Naustavík og átta sig á lífsaðstæðum fyrri tíma þar.  Grillað um kvöldið og setið inni í fremra eldhúsinu við spjall af því að dálítill strekkingur var úti við um kvöldið. Svo lægði og næsta morgun var sól og blíða. Flaggað var á þjóðhátíðardaginn, eins og sjá má á einni af frábærum myndum Magnúsar. Svo var haldið norður með ströndinni og þræddir sjávarbásar og víkur, farið milli kletta og dranga og gegnum klettagat: Semingsbás, Skálavík, meðfram Vargsnesi að Þyrsklingi, Duggara og Tá (þremur klettum í sjónum) og í Rauðuvík norðan við Vargsnes. Það var flott áning í sólinni og leifar gamalla verbúða skoðaðar og sumir tóku með sér fáeina skrautsteina.

Þá var haldið norður enn, í Haugsvíkina og undir háum hlíðum með stríðum og háum fossum fyrir Ófæru og að Knarrareyri við Hofsvík á austanverðum Flateyjardal. Þar var slegið up tjaldbúðum við fjárhúsin sem Árni bóndi Tómasson hlóð svo haganlega í flötum fjörusteinum á fyrri hluta síðustu aldar.  Sjórinn hefur greinilega tekið talsverðan toll af þeim ef marka má myndir af svæðinu í Ferðafélagsbókinni frá 1992. Þarna bjó líka sögualdarpersónan Finnbogi rammi.  Grillað aftur um kvöldið. Í kvöldsólinni var rölt um svæðið sem er fallegt og notið útsýnis á Flateyjardalsfjöllin, á höfðana og Flatey og heim að Brettingsstöðum handan Dalsárinnar. Það var mildur andvari. Svo var endað á varðeldi og ekki var hægt að hugsa sér betra þjóðhátíðardagskvöld né betri félagskap hressra ræðara. Meira að segja var flaggað aftur.......

Næsta morgun var lagt af stað í algeru logni út á Skjálfandaflóa milli Flateyjar og lands. Ákveðið var að geyma Flatey til næsta árs en róa rólega inn flóann og gá til hvala. Því miður héldu þeir sig lengra úti og austar í flóanum, en í staðinn var útsýnið á Hágöngurnar og tignarleg Víknafjöllin frábært þar sem þau rísa brött úr hafi og ná frá 950 og allt í 1180 m hæð. Eftir 3ja tíma róður var enn frábær eftirmiðdegisáning í Rauðuvík og svo róðið inn á Sandinn.

Það ber að þakka Magga fyrir að leiða okkur svo vel um þetta sérstæða svæði.

Myndir : 2006-Nattfaravik Magnús og Páll

Texti; Reynir Tómas