Image

Þessi ferð var farin um Jökulfirðina sumarið 2001 og skrifuðu fljótlega eftir það. Hetjurnar ógurlegu sem lögðu á djúpið voru Adam Eliasen, Ari Vésteinsson og Rúnar Pálmason.

Dagleiðirnar á kayak voru eftirfarandi:

 

  • Hesteyri- Veiðileysufjörður
  • Veiðileysufjörður - Lónafjörður
  • Lónafjörður - Kjós
  • Kjós - Grunnavík
  • Grunnavík - Sandeyri - Vigur
  • Vigur - Álftafjörður - Arnarnes
  • Arnarnes - Ísafjörður

 

Föstudagur 22. júní

Reykjavík - Ísafjörður

Lagt af stað frá Reykjavík, höfuðborg hugans, seinnipart föstudags. Eftir langan og strangan akstur fyrir hann langa Manga komum við á Ísafjörð um kl. 2 aðfaranótt laugardags. Upphækkaður fimm dyra Ford Escort, árgerð 1987, stóð sig með mikilli prýði og hélt a.m.k. 50 kílómetra hraða á klukkustund upp vestfirsku brekkurnar.

Laugardagur 23. júní

Ísafjörður - Hesteyri - Veiðileysufjörður

Risum úr rekkju árla morguns á tjaldstæði golfklúbbs Ísafjarðar í Tungudal. Náðum í fagurgulan Hasle-Explorer bát hjá Sigurði Hafberg á Flateyri. Keyptar steikur og annað góðgæti í Bónus. Við bryggjuna beið okkar báturinn Guðný og skipperinn Henry sem hefur líklega verið nývaknaður þegar við mættum á svæðið, a.m.k. var hann órakaður og hás. Tókum til farangurinn en þar sem við höfðum nægan tíma héldu Ari og Adam á Pizza 67 og pöntuðu síðustu leifar siðmenningarinnar, 18" TNT-pizzu. Afgreiðslustúlkan lofaði skjótri afgreiðslu, pizzan yrði tilbúin á ca. 10 mínútum. Hálfri klukkustundu síðar var pizzan ekki tilbúin og niðri á bryggju seig í augabrúnir Henrys skipstjóra. Rétt áður en klukkan sló tvö högg náði pizzan þó um borð.  Ferðin yfir á Hesteyri tók um klukkustund. Veður var fremur stillt, örlítil bára í Djúpinu og því sem næst heiðskírt.  Á Hesteyri var pakkað í bátana, fyllt á vatnsbrúsana og svo haldið af stað. Allar tímamælingar hér eftir eru ögn ónákvæmar þar sem úrunum var samviskusamlega pakkað niður með öðru dóti.  Sigldum inn Hesteyrarfjörð að Stekkeyri þar sem við litum á gömlu síldarstöðina. Þaðan róið út fjörðinn og inn í Veiðileysufjörð. Kveiktum lítið bál við læk og hituðum kakó á glóðunum. Tjaldinu var slegið upp á Marðareyri nokkru innar í firðinum. Þar hittum við fyrst selinn Snorra en sáum ekki aðra menn en hann.

Sunnudagur 24. júní

Veiðileysufjörður - Lónafjörður

Vöknuðum þreyttir, enda hafði blundurinn gleymst daginn áður. Rérum út fjörðinn um hádegisbil. Á leiðinni fyrir Kvíafjall urðum við fyrir stórmerkilegri lífsreynslu sem mun seint líða úr minni. Yfir okkur sveimuðu tveir hafernir og gjömmuðu á framandi tungu.  Við eyðibýlið að Kvíum var tekið land. Fengum okkur smá hressingu og að sjálfsögðu  smá blund á eftir. Rúnar renndi fyrir fisk með litlum árangri. Áfram var haldið í leit að svefnstað í fylgd selsins Snorra. Við Sauðungseyri slógum við upp tjaldi, grilluðum dýrindis steikur, drukkum bjór og lögðum okkur eftir matinn. Við Sauðungseyri er að finna tjörn inn af eyrinni. Þar lét ástleitið álftarpar ófriðlega. Hvort þetta voru sömu álftarskammirnar og höfðu haldið fyrir okkur vöku í Veiðileysufirði skal ósagt látið. Líklegt er það samt.  Um kveldið fórum við í rómantíska kvöldsiglingu og renndum fyrir fisk. Í þetta sinn lét árangurinn ekki á sér standa, tveir vænir marhnútar og hálfs punda þorskur. Eftir útgerðina var kveiktur varðeldur sem vakti forvitni hnýsu sem rak upp nefið um 15 metra frá ströndu.

Mánudagur 25. júní

Lónafjörður - Kjós

Stysta dagleiðin til þessa, 5 km róður frá Veiðileysufirði yfir í Kjós, þar sem við lentum við ármynnið. Mun dagurinn lifa í minningunni sem Jöklaferðin mikla.  Lögðum á Drangajökul í brakandi blíðu, teljum víst að slegið hafi verið hitamet þennan dag. Gengum langt inn á jökul, en líklega ekki á hæsta tind. Á bakaleiðinni upphófust atburðir sem nú er minnst sem Vestfjörd eXtreem Games. Fyrsta þrautin var PonchoGliding og tala myndirnar sínu máli. Að ferð lokinni, böðuðum við okkur í ánni, en áttum annars rólega kvöldstund. Enn hafði ekki sést til manna, nema Snorra.

Þriðjudagur 26. júní

Kjós - Grunnavík

Það voru hreinir sveinar sem réru frá Kjós á flóðinu. Ferðinni heitið í Grunnuvík. Líkt og fyrr skein sólin en þokubakkar höfðu lætt sér inn í Jökulfirðina. Krossuðum Leirufjörðinn en þá hafði nokkuð bætt í vind og fengum við því pus á bátinn. Ákváðum því að skella okkur í land og leggja okkur þar til lægði. Blundurinn var ekki langur en þegar honum lauk hafði lægt til muna. Mælum því eindregið með þessari aðferð fyrir aðra kajakræðara. Þ.e.a.s. ef það er rok, leggið ykkur, þá lægir fljótlega. Sáum ýmsar kynjaverur, þ.á.m. flugrollur, við nánari skoðun reyndust þetta þó vera álftir, svona u.þ.b. 15 stykki. Varð hugsað til ásleitna álftaparsins. Snorri fylgdist með úr kafi. Lögðum upp í Grunnuvík eftir miðnætti að við höldum.

Miðvikudagur 27. júní

Grunnavík - Sandeyri - Vigur

Grunnavík heilsaði okkur með þoku, skömmin. Eini heili þokudagurinn var sem sagt upp runninn. Við hófum daginn á að grilla tvo þaraþorska og silfraðan ufsa sem við höfðum veitt um nóttina. Reyndar voru menn ekki á eitt sáttir um hvort ufsinn væri síld eða öfugt. Spjölluðum við Grunnvíking og þrjá skútukarla, löbbuðum um víkina og ræddum gáfulega um eilífðina. Héldum þvínæst út í þokuna.  Í þokunni týndum við fremra lestarlokinu af Hasle Explorer-bát Ara. Mælum eindregið með því að binda lokin kyrfilega við bátinn. Falli þau í sjóinn sökkva þau á örskömmum tíma, alveg eins og vatnsbrúsinn átti eftir að gera síðar. Hann náðist þó aftur. Ekki lokið. Settum svartan ruslapoka fyrir lúguna og strekktum fyrir með teygju. Gott að hafa varahluti með sér í svona kajakferðir. Heldur fór að létta til þegar við nálguðumst djúpið. Sjórinn var nokkuð órólegur þegar við fórum fyrir Veiðibjarnarnúp en róaðist þegar við komum að fossinum Míganda. Upphaflega höfðum við ætlað að sigla frá fossinum yfir til Ísafjarðar. Hættum við það enda nægur tími til stefnu og veðrið gott. Tókum land í Súrnadal en héldum áfram að Sandeyri. Hugsuðum um að fara yfir til Vigur. Hættum við. Ari og Adam fóru í Poncho-Gliding. Rúnar hugsaði um að fara yfir. Um miðnættið tókum við af skarið og sigldum af stað yfir Djúpið. Reiknaðist til að þetta væru 10 kílómetrar. Eftir því sem Vigur nálgaðist fjölgaði lundunum. Voru eiginlega eins og flugur. Seinna fréttum við að það væru um 80-100.000 lundar í eyjunni. Einn þeirra tók "lundapanikk" þegar hann sá okkur.  Komum að bæjarhúsunum undir morgun og var þá enginn á ferli. Lögðum okkur í túnfætinum hjá bóndanum. Fengum okkur ljúffenga hádegishressingu hjá húsfreyjunni. Eyjamenn eru gestrisnir með afbrigðum en vilja gjarnan frétta af ferðmönnum með smávegis fyrirvara. Gott að vita að þrátt fyrir að Vigurbóndinn taki á móti ferðamönnum, er ekki tjaldsvæði í eyjunni. Hins vegar er gott að tjalda í Tjaldtanga undir Folafæti. Þar er sandströnd og nægur reki.

Fimmtudagur 28. júní

Vigur - Álftafjörður - Arnarnes

Eftir að hafa etið góðan hádegisverð í Vigri (æðaregg, súpu og brauð) var tekinn góður síðdegisblundur áður en róið var yfir í Tjaldtanga þar sem spilað var "Extreme Frisbee" á ströndinni í kvöldsólinni. Frá Tjaldtanga sigldum við yfir í Álftafjörð og síðan fyrir Arnarnesið. Tókum land í fjörunni við Fremrihús, kveiktum bál og gistum þar yfir um nóttina. Umferð flutningabíla hélt ekki fyrir okkur vöku.

Föstudagur 29. júní

Arnarnes - Ísafjörður

Seinasti leggurinn í ferðinni tók ekki langan tíma. Eftir stuttan svefn var siglt ca. 5 km leið inn Skutulsfjörð og komið að bryggju á Ísafirði um hádegisbil. Lögðum að smábátabryggjunni á Ísafirði og náðum í úrin upp úr lestinni.

Myndasafn (frá Adam Elíasen) : {2001-Jokulfirdir}