Hér að neðan getur að líta lista yfir útbúnað þann sem hentar við hinar ýmsu aðstæður í kayakróðri.  Örlygur Steinn Sigurjónsson tók saman þennan ágæta texta. 

 

Nauðsynlegt er að vera rétt búinn á kayökum hvort sem ferðin er lengri eða styttri. Þó að ferðin sé ekki nema hálfsdagsferð í góðu veðri, getur hún snúist upp í andstæðu sína ef skortir upp á kunnáttu í björgun, og búnað. Ekki má gleyma ýmsum þeim öryggistækjum sem á þarf að halda svo sem sjúkragögnum, fjarskipta- og leiðsögutækjum og fleiru. Æskilegt er að allur innri klæðnaður sé úr ullar- eða Fleeceefnum.

Hér má finna útbúnaðarlista sem hæfa annarsvegar dagróðrum og hinsvegar lengri ferðum. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir sjávarföllum og veðurspám og róa með traustum félögum/félaga sem kunna félagabjörgun. (Að róa einsamall krefst sérstakrar kunnáttu og undirbúnings). Sækið námskeið áður en haldið er út á sjó. Skiljið ferðaáætlun eftir hjá einhverjum í landi og látið vita hvenær komið er í land. Þetta gildir ekki síður fyrir dagróðra.

Allur búnaður í geymsluhólfum sem ekki má blotna skal vera kirfilega frágenginn í sjópokum því oftast sullast eitthvað vatn ofan í lestarnar. Aldrei skal treysta því að lestarlokin séu 100% vatnsheld. Geymið þungu hlutina sem næst mannopinu og dreifið léttari búnaði út í skut og stefni. Langflestir sjókayakar eru með þremur hólfum og jafnvel fjórum. Flestir ferðabátar hafa um 290-350 lítra heildarrými, að mannopi meðtöldu. Geyma má fyrirferðamikla en létta hluti á dekki, s.s. tjalddýnu en varist að setja þunga hluti á dekkið því það hefur áhrif á stöðugleikann.

Fyrir alla róðra gildir:  Lærið félagabjörgun og sjálfsbjörgun, þ.e. hvernig á að príla upp í bát upp á eigin spýtur.  (ath.: leggið fyrst áherslu á félagabjörgun og sjálfsbjörgun áður en byrjað er að æfa og treysta á veltuna sem öruggt sjálfsbjargarúrræði). Æfið með kayakklúbbnum, spyrjið reyndari ræðara, varist slysin og njótið þess að róa.

 

 

Dagróðrar 10-30 km (eða 2-6 klst)

1. björgunarvesti 

2. toglína, lærið notkun og æfið

3. varaár,  sundurtakanleg, geymd á dekki.

4. neoprenhetta

5. sjúkrakassi í vatnsþéttum umbúðum

6. lensidæla og svampur

7. áttaviti og neyðarflauta

8. kort í plasti

9. nesti

10. drykkur

11. neyðarblys

12. áralúffur

13. húfa, vettlingar, peysa  - og vindjakka til að bregða yfir sig í róðrarhléum.

14. sími í vatnsþéttu hulstri í vestisvasa

15. þurrrgalli

16. undirföt ef þurrgalli er notaður, annars neoprengalli

17. svunta

18. róðrarskór

19. hjálmur (hjálmar hafa alla tíð verið staðalbúnaður í straumvatnsróðri en eru nú að breiðast út meðal sjókayakfólks sem sjálfsagt öryggistæki. Hjálmar geta bjargað fólki frá miklum meiðslum ef bát er hvolft á grynningum eða við kletta. Einnig ef menn lenda á sundi og klemmast á milli tveggja báta við félagabjörgun. Metið aðstæður)

20. Vita hvenær er flóð/fjara (er vindátt á móti falli? Slíkt getur á sumum stöðum skapað mikla ólgu)

21. Vita af veðurspá

 

 

Helgarróður eða lengra

 

I. Í róðrinum:

1. björgunarvesti

2. róðrarljós, rautt blikkandi

3. neyðarljós, hvítt blikkandi

4. tvö neyðarblys í vestisvasa eða á dekki, traustlega fest.

5. sími í hulstri og/eða vhf talstöð. Rás 16 er neyðarrás skipa. 

6. toglína. Að toga veikan, meiddan eða þreyttan ræðara er varasamt í eðli sínu. Nauðsynlegt er að  læra og æfa.

7. varaár á dekki, sundurtakanleg.

8. neoprenetta í vasa eða á höfði

9. sólhattur

10. sjúkrakassi í daghólfi í vatnsþéttum umbúðum

11. kort á dekki, í plasti

12. áttaviti á dekki

13. gps á dekki. Þarf að þola vatn.

14. hjálmur á höfði eða á afturdekki

15. undirföt og sokkar  ef um þurrgalla er að ræða

16. róðrargalli/þurrgalli

17. lensidæla á dekki. Sumir bátar eru með innbyggðri dælu. Muna svamp.

18. stakkur

19. róðrarbuxur, neoprengalli eða stakar vatnsheldar buxur

20. svunta

21. áraflot, öryggistæki sem nýtist ekki nema með því að læra notkun og æfa.

22. neyðarflauta

23. hnífur á vesti

24. róðrarflaska á dekki

25. orkubitar í vesti

26. áralúffur í daghólfi eða á höndum

27. róðrarskór

- Munið veðurspár og sjávarföll, kannið staðhætti, gerið áætlun um vegalengdir og tíma, skipuleggið flutning á bátum, gerið varaáætlun og leggið áherslu á góð samskipti við fólk á svæðinu, landeigendur og aðra. Varpið fyrirspurnum á korki Kayakklúbbsins um leiðina. Mikil þekking hefur safnast upp hjá félögum klúbbsins.  Ekki er hægt að mæla með því að fólk fari í lengri ferð án þess að hafa æft hvolfun, og bjargast um borð í bát aftur. Hægasti ræðari hópsins þarf að geta ráðið við verkefnið. Sjáið til þess að leiðangursstjórn sé í traustum höndum. Verið viss um að samskipti innan hópsins séu sem öruggust. Verið með áætlun um hvað gera skuli ef einhver hvolfir bát. Kemur hann blautur inn að beini í bát og hvert er hægt að fara til að skipta um föt? Geta allir framkvæmt félagabjörgun? Gerið einnig ráð fyrir þeim möguleika að enginn komist í félagabjörgun t.d. ef hópurinn hefur óvart tvístrast, sjólag er slæmt og enginn sér eða veit af manni í sjónum. Allir ættu að æfa sig upp í að geta verið sjálfbjarga. Laugaræfingar eru góðar til þessa. Virðið viðkvæmt dýralíf. 


II. Í geymsluhólfum báts:

1. tjald. 1-3 manna veðurþolið göngutjald. Tveir deila oft tjaldi ofan í báta til mikils hagræðis. Pakkið tjaldinu ekki endilega í tjaldpokanum, heldur má troða því fram og aftur í bát, í vatnsheldum umbúðum til öryggis.

2. dýna, loftdýna eða frauðdýna

3. svefnpoki. Tölur um kuldaþol svefnpoka eru oft ýktar og því skal miða við að svefnpoki fyrir sumarnotkun i tjaldi sé amk. gefinn upp fyrir 8 stiga frost.

4. tjaldljós

5. prímus, lítil veiðistöng og spúnar.

6. dagnesti, (þrumari og rúllupylsa, frónkex og kaffi svíkur engan)

7. landnesti, (fiskur eða ket, kartöflur, pasta og salat. Frostþurrkaður matur er einnig frábær að margra mati en dýr) Taka má merkimiða af niðursuðudósum og pappírsumbúðir og merkja dósir með vatnsheldu tússi - ef svo slysalega vildi til að allt blotnaði. Einnig er matur í náttúrulega vatnsheldum umbúðum, s.s. ávextir hentugur sem neyðarmatur.

8. vatn

9. aukaskeggvír eða stög til að gera við hreyfibúnað stýrisbáta.

10. verkfærasett, amk. klippitöng, skrúfjárn, spotti, ductape, sexkantur og fastur lykill

11. klósettpappír (lítil skófla til að grafa úrgang og eldspýtur til að kveikja í pappírnum)

12. sólvörn, sólgleraugu og derhúfa

13. eldfæri

14. hitabrúsi

15. mataráhöld, pottur, sleif, bolli og hnífapör. Grillgrind ef ferðast er um rekaviðarsvæði.

16. vatnsflöskur, ef útséð er um að ekki er hægt að afla vatns á leiðinni. Hið vinsæla róðrarsvæði um Breiðafjarðareyjar krefst t.d. oftast vatnsburðar. 1.5 l á dag lágmark.

III. Klæðnaður í landi, á tjaldstað (miða skal við að geta verið þurr og heitur í tjaldstað ef veður hamlar för)

1. undirföt, þunn flís eða ullarblönduð nærföt

2. utanyfirföt, regn- og vindheld

3. buxur, léttar

4. þunn peysa, venjuleg, eða flís

5. þykkari peysa eða dúnjakki

6. sokkar

7. tvær húfur

8. vettlingar

9. skór/stígvél

10. útvarp fyrir veðurspár

11. þvottabúnaður eftir þörfum og plássi, tannbursti og tannkrem í filmuboxi, handklæði og sundföt.

 

 

Margt í kayakmennsku útheimtir allskyns basl með stífan og óþjálan búnað sem getur valdið fingrameiðslum. Fingur á kayakræðurum eru afar berskjaldaðir og jafnan undir miklu álagi nánast frá fyrstu mínútu til enda ferðar hvort heldur er verið að bera báta, opna lestarlúgur, meðhöndla hvöss vekfæri, róa sjálfum bátnum, bisa við svuntur og róðrargalla svo dæmi séu nefnd. Verndið hendur eins og mögulegt er. Hér eru helstu meiðsli sem geta herjað á kayakræðara. 

 

Skurðsár á höndum (þegar ýtt er á flot og hendi rekst á hvassa hluti í fjöruborði eða fólk sker sig á hnífum, niðursuðudósum eða ýmsum verkfærum)

Skurðsár á höfði (þegar árablað rekst í viðkomandi. Einkar hætt við þessu við félagabjarganir)

Blöðrur sem springa á höndum eftir áratök. Blöðrur geta einnig myndast á fótum. Meðhöndlið blöðrur nægilega snemma og forðist sýkingar í þeim

Fingur sem fara úr lið þegar haldið er í griphnúða báts og fingur lenda óvart í lykkjunni sjálfri.

Axlarliðhlaup (sérstaklega varasamt í brimi)

útlimabrákanir/-brot þegar dottið er um sleipa fjörusteina. Geta einnig orðið höfuðmeiðsl. Farið einstaklega varlega í grýttum fjörum.

Fótameiðsl ef bátur hlunkast á ræðara í fjöruborði. 

Höfuðmeiðsl ef stjórnlausir bátar stanga fórnarlamb á sundi (mjög hættulegt). Sömuleiðis ef bátar keyra inn í búk ræðara. (einkar hætt við þessu í ógusjó eða brimi)

Brunaslys ýmiskonar í tjaldstað. (Sjóðandi vatn eða gasbrunar)

Ristarmeiðsl ef þungur bátur dettur á fótinn þegar viðkomandi missir hann í burði.

Höfuðmeiðsl við grjóthrun þegar ræðarar róa undir bjargi

Höfuðmeiðsl ef báti hvolfir á grynningum eða upp við klettafjöru

Andlitsmeiðsl (alvarleg) ef brim kastar áraskafti framan í ræðara. (sérstaklega hætt við þessu er róið er á móti brimi og árinni er haldið í andlitshæð)

 

 Af þessu má sjá að hjálmar geta gert mikið gagn í kayakferðum og einnig þarf að miða sjúkragögn við eðli þeirra meiðsla sem hér eru talin upp og flokkast sem viðráðanleg á vettvangi. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á örugg fjarskipti við land ef alvarlegri meiðsl verða og þörf er á sjúkraflutningi. Best er að treysta þó á góðan undirbúning þar sem markmiðið er að lenda ekki í óviðráðanlegum aðstæðum. Alltaf þarf að vera áætlun til að "bakka út" í tæka tíð.

 

 

Næturróðrar

1. Róðrarljós, rautt blikkandi, helst tvö ljós, svo öruggt sé að félagar sjáist frá öllum hliðum. Ljósin mega ekki vera of skær. (Mæla má með Eco Flare) Neyðarljós, strobe, notist aðeins í neyð.

2. blys

3. varaár

4. endurskin á bát. Dekklínur eða endurskinsmerki á bátsskrokki.

5. endurskin á björgunarvesti

6. kort í plasti

7. áttaviti

8. gps vatnshelt

9. höfuðljós, vatnshelt til að nota við lýsingu á kort og til að lýsa upp lendingarstaði

10. þurrgalli

11. neoprenhetta

12. aukahúfa

13. áralúffur

14. kayakskór

15. undirföt

16. sokkar

17. sími og/eða vhf talstöð

18. vita af veðurspám, birtufari, tunglgangi (oft er bjart af tungli) og sjávarföllum, hafís(!)

19. aukapeysa

20. sjúkrakassi

21. nesti og næring

-Næturróðrar eru vaxandi og jafnframt krefjandi afbrigði í kayakmennsku hérlendis. Spyrja má: hversvegna næturróðrar? Því er til að svara að ræðarar geta lent í myrkri við ýmsar aðstæður, eða þá að menn sækjast eftir þeirri skemmtilegu reynslu að fara á sjó í myrkri. Augu venjast myrkrinu upp að vissu marki og því er mikilvægt að hafa ekki skær ljós nálægt sér. Róðrarljós eru aðeins til að félagarnir sjái hver annan á um 0-200 metra færi miðað við besta skyggni. Hríð og éljagangur krefjast þess að menn rói þétt saman.

Kunnátta í rötun með áttavita og kortum auk þekkingar á sjólagi og vindáttum og hvernig bátar haga sér með tilliti til eðlilegrar stefnuskekkju í hliðarvindum og hvernig skuli leiðrétta þær, er sérstaklega mikilvægt.  Nokkur ráð eru með að átta sig á öldulagi í myrkri, s.s. að fylgjast með öldutoppum sem oft glampar á vegna ljósa frá þéttbýli eða tungli. Mikilvægt er að horfa vel til hliðanna í næturróðri og fylgjast með aðvífandi öldum. Þetta má gera með því að líta til hliðanna í þriðja hverju árataki. Í næturróðrum er jafnframt afar mikilvægt að kunna bátameðhöndlun og varnaráratök. Skipaumferð ber að varast og ræðari skal miða almennt við að enginn sjófarandi geti komið auga á hann í myrkri. Það er á ábyrgð ræðara að halda öruggri fjarlægð við skip og báta. Innsiglingar við hafnir þarf að umgangast í samræmi við réttar umferðarreglur og fara alltaf stystu leið milli bauja. Þá er nauðsynlegt að þekkja fyrirhugaða róðrarleið að degi til áður en farið er í næturróður. Þá er mikilvægt að róa með traustum félögum og allra helst þarf amk. einn í hópnum að hafa reynslu af næturróðrum.

Til er gagnlegt kerfi milli ræðara til að vita hver af öðrum sem felst í að hver og einn fær númer. Þegar ræðari nr. 1 kallar sitt númer þarf sá nr. 2 að kalla sitt og svo koll af kolli þar til síðasta númerið kemur fram. Þannig má átta sig á því ef einhvern vantar ef talnarunan kemur ekki óslitin fram. Koma þarf upp reglu um að sá nr. 1 byrji hringinn með vissu millibili t.d. á 2-5 mín fresti, og er hann lætur ekki í sér heyra, þarf að athuga með viðkomandi.