Segja má að á fyrstu árum sjóakajamennskunnar hérlendis hafi verið lítið úrval báta og búnaðar og sama má segja um þekkingu manna á margvíslegri róðrartækni sem síðar átti eftir að halda innreið sína. Veltukunnátta var óþekkt lengi vel, nema á sviði straumkajakróðurs og tími stuðnings- og varnarárataka í sjókajakmennsku rann ekki upp fyrr en á 10. áratugnum. Kynni íslenska sjókajaksamfélagsins af víðfemu og metnaðarfullu námskeiðahaldi hjá Breska kajaksambandinu (BCU) átti eftir að verða neisti sem kveikti í mörgum ræðurum á næstu árum með þeim afleiðingum að færni og ástundun tók mikinn kipp. Sjóndeildarhringur ræðara víkkaði stórum og varð til þess að allir tímar ársins - og sólarhringsins - urðu kjörlendi þjálfaðra ræðara og stöðugt fjölgar í þeim hópi sem hafa bæði getu og ánægju af sjóróðrum um hávetur og hánótt ef því er að skipta. Þegar saman fór aðgengi að æfingasvæðum, bæði á sjó og í sundlaugum, fjörug umræða innan kajaksamfélagsins og námskeiðahald og síðast en ekki síst vaxandi áhugi, þurfti engan að undra hversu miklar framfarir urðu í greininni.
Að sitja í kajak í fyrsta skipti er nokkuð sérkennileg reynsla fyrir marga. Skyndilega er sem fótunum er kippt undan manni sem frá blautu barnsbeini hafa framkvæmt jafnvægisboð heilans. Í kajaknum þarf ræðarinn að læra að nota nýja líkamshluta til að halda jafnvæginu, mjaðmirnar einkum. Langflestir eiga auðvelt með að aðlaga sig þessum aðstæðum, ekki síst stálpuð börn, sem geta náð ótrúlega miklum og góðum tökum á kajak á skömmum tíma. Til að byrja með þarf að sætta sig við að kajak er í eðli sínu valtur þótt talað sé um stöðuga kajaka. Þar er átt við stöðugleika á kajakmælikvarða. Góð regla, þegar sest er í kajak á strönd, andspænis sjó (þ.e. ekki við bryggju eða fjörugrjót) er að setjast í bátinn í orðsins fyllstu merkingu, þ.e. setja sitjandann ofan í fyrst. Þetta er gert þannig að ræðarinn stendur klofvega yfir bátnum, lætur sitjandann fyrst ofan í sætið og smeygir fótunum því næst ofan í mannopið. Þesssi aðferð hefur tvíþættan tilgang, annars vegar þann að auka öryggi ræðarans með því að hann losnar við að standa í bátnum með tilheyrandi hættu á að hann reki fæturna í brúnirnar ef vindhviða feykir honum til eða félagi rekst í hann, og hinsvegar þann að hlífa botni bátsins við öllum fótatrampi. Sérstaklega er slíkt slæmt ef um er að ræða trefjabáta og undirlendið er gróft. Á meðan sest er í bát og svuntan fest, má stinga árinni undir teygjur á framdekki bátsins.
Sé sest í bát þar sem óhjákvæmilegt er að stilla honum upp samsíða fjöruborðinu er árin notuð sem stuðningur við land og sett þversum aftan við mannopið. Ræðarinn heldur þar báðum höndum um hana og stillir sitjandanum upp við síðu bátsins, smeygir fyrst öðrum fæti ofan í mannopið og síðan hinum. Árin er síðan tekin fram fyrir ræðarann og geymd á dekkinu á meðan svuntan er fest. Til eru fleiri aðferðir við að setja bát á flot en almenna regla er sú að halda þyngdarpunki líkamans, mittinu, sem allra næst mannopinu þegar sest er í bát. Nefna má aðferð sem margir ræðara á trefjabátum nota, en nú felst í að vaða í ökkla- eða hnéhæð út út í sjó ef aðstæður eru mildar, setjast klofvega á bátinn og setjast í bátinn eins og lýst var í fyrrnefndu aðferðinni hér að ofan. Með þessu er tryggt að sandur eða grjót rispi ekki bátinn þegar sest er í hann og ýtt á flot. Þetta hefur þó í för með sér að ræðarinn blotnar í fæturna nema hann sé í þurrgalla með áföstum sokk.
Þegar tveir eða fleir fara saman í róður, er eindregið mælt með því að fólk hjálpist að með að bera bátana, því þótt einn kajak sé varla þyngri en hálfur áburðapoki, er alla jafna óþægilegt að bera þessa löngu hluti einn síns liðs. Vindurinn er líka einstaklega sólginn í að fella bát og burðarmann, í það minnsta hrinda þeim og fer létt með það. Reglan er því sú, öryggis vegna, að bera bát á milli sín ef nokkur kostur er á.
Þótt til sé mjög nákvæm útlisting á "réttu" áralagi er ekki þar með sagt að allir ræðarar þurfi að læra það og eins og kvæði í barnaskóla áður en þeir halda til sjós. Að fara á kajaknum sínum í klukkutíma rólegheitaróður á áhættulitlu róðrarsvæði (inni í skjólgóðum víkum eða á mjög grunnum fjörðum) krefst ekki róðrarækni sem skilar hámarksafköstum með lágmarksfyrirhöfn. Stundum má láta nægja að róa bátnum sínum "einhvernveginn". Því er þetta nefnt til að undirstrika að kajakræðarar ætla sér mismunandi hluti með kajakmennskunni. Sumir nota kajakinn eingöngu til náttúruskoðunar og afslöppunar á fögrum sumardegi annarslagið, en aðrir mæla gæði dagsins í því hvað þeir komast hratt eða hvort þeim tekst að sigrast á ólgandi brimi í hávaðaroki. Og enn aðrir eru einhversstaðar þarna á milli. Háþróuð áratækni getur nýst öllum þessum hópum en er ekki nauðsynleg öllum. Reynslan er samt sú að langflestum finnst gott og gagnlegt að læra góða áratækni.
Samkvæmt eðlisfræðinni er vinna mæld í árangri - ekki erfiði. Rétt áratækni er lykillinn að því að minnka allt erfiði. Þetta skiptir mjög miklu máli í keppnum eða lengri ferðum að ekki sé talað um styttri ferðir í vænni öldu og þaðan af erfiðara sjólagi. Ef árinni er líkt við skrúfublað á skipi er hægt að halda áfram með líkinguna og velta því fyrir sér hvað snúi skrúfunni svo skipið komist áfram? Það er vitaskuld skipsvélin. Sérhver kajakræðari hefur sína skipsvél og nærtækt væri að halda að hana væri að finna í handleggjum ræðarans. Svo er þó ekki. Rétt áratækni sem skilar góðri vinnu grundvallast á því að leysa úr læðingi kraft sem á sér upptök í fótunum niðri í mannopinu. Þessi kraftur skilar sér upp í gegnum bolinn og loks út í handleggina. Réttast væri að lýsa handleggjunum sem drifskafti sem skilar krafti fótanna út í árablöðin. Af þessum sökum er nauðsynlegt að hafa fótspyrnur í kajökum, allra helst sjálfstæðar spyrnur en stýrisfótstig á stýrisbátum geta líka dugað. Fótstigin þarf að stilla svo að hnén bogni út í hliðar bátsins eða upp undir framdekkið og nú er allt til reiðu. Ræðarinn er beinn í baki, þó ekki fattur. Hann má halla sér 1-2 tommur fram og heldur á árinni í brjósthæð með útréttum höndum. Árinni er haldið þannig að hægri hnúinn (á rétthentum) að mynda beina línu við efri brún árablaðsins. Handtakið er aldrei losað með hægri hendinni en á þeirri vinstri er losað um takið þegar stillt er upp fyrir vinstra áratak. Ræðarinn tekur nú bolvindu til vinstri án þess að beygja handleggina að ráði og dýfir hægra árablaði í vatnið eins framarlega og unnt er. Vanalega má miða við að dýfa árinni á bátshliðinni nokkurnveginn við tærnar. Árablaðið myndar vinkilhorn við lunninguna og nú nú kemur til kasta fótanna. Um leið og áratakið er tekið með bolvindu til hægri er hægra fæti spyrnt þéttingsfast í spyrnuna. Handleggurrinn er aðeins lítillega boginn. Vinstri hendi er útrétt og í höku- eða augnhæð. Í bolvindunni fer vinstri handleggurinn inn á mitt framdekkið. Á meðan þessu fer fram er hægra árablaðið komið upp að mannopi og er tekið upp úr vatninu og gert klárt í vinstra áratak með sama hætti. Ef árablaðið er dregið langt aftur með bátnum er orku eytt í óþarfa vatnsaustur. Í þeirri aðferð sem hér var lýst, gildir sú hugsun að láta kraftinn verða til í fótunum og leiða hann upp í gegnum bolinn. Sá sem ætlar sér að róa með bogna handleggi, með árina nálægt brjóstinu og erfiða með höndnum án þess að spyrna við fótum og vinda upp á bolinn - hann endist ekkert á við félaga sinn sem notast við rétt áralag, þótt sá fyrrnefndi sé margfaldur sýslumeistari í sjómanni. Áhrifaríkur kajakróður byggist á réttri tækni.
Þegar að því er gætt að árin er í raun áhald sem nýtist sem stýri, jafnvægisstöng, skrúfublað, bremsa, björgunarverkfæri og jafnvel tjáskiptatæki skal engan undra hversu óhemju mikilvæg árin er kajakræðaranum. Það er líklega af þessari ástæðu sem áhersla er lögð á að hafa ávallt varaár meðferðis í róðra. Áralaus ræðari getur lítið gert á sjó. Áður en farið verður í nokkur helstu áratækniatriðin má telja upp helstu ástæður fyrir nauðsyn þess að hafa varaár. Í fyrsta lagi getur það hent alla að brjóta árina sína, með því t.d. að hún verður undir fullhlöðnum báti í grýttri fjöru, eða ræðarinn festir árina milli steina og brýtur hana. Bíll getur bakkað á árina við tjaldstæði eða ræðarimisst hana fram af klettum á einhverjum áningarstaðnum fjarri byggð. Athugið að ekkert er útilokað. Það getur líka hent alla að missa frá sér árina á ýmsan hátt svo grípa verði til varaárarinnar. Vindur getur hrifsað hana úr höndum ræðarans eða svipt henni upp úr bátnum í róðrarhléi. Ræðari getur misst frá sér árina í félagabjörgun eða einfaldlega fyrirvaralaust án nokkurra skýringa. Það getur líka þurft að grípa til varaárar og lána óheppnum félaga ef eitthvað af þessu fyrrnefnda hendir hann. Í dæmigerðum hópróðri eru sjaldnast allir með varaár. Minnka má til mun hættuna af því missa frá sér árina með einfaldri árataug, sem hnýtt er í árina og fest við framdekkið. Grundvallarregla er að hugsa vel um árina sína og hafa varaár.
Eins og framan gat leynast mörg mismunandi áhöld í árinni. Til að stýra kajak með ár má beita henni á skut, stefni eða hlið. Algengasta aðferðin við árastýringu á stefni (e. bow rudder) þegar báturinn er á ferð, felst í að dýfa árablaði framarlega við lunninguna, gegnt fótunum, og láta átakshlið árablaðsins snúa að bátnum. Skaftið skal vera í sem næst um 45 gráðu halla. Sé dæmi tekið af hægri beygju þá skal ræðarinn halla sér lítið eitt fram og hafa hægri handlegg útréttan í brjósthæð. Hann heldur um árina með réttum halla, dýfir blaðinu og snýr skaftinu örlítið til hægri til að ná um 40 gráðu horni við bátinn. Með vinstri hendi er árinni haldið í ennishæð og olnboginn vísar til vinstri. Um leið og beygjan er tekin er bátnum sjálfum hallað lítið eitt til vinstri með því að líkja eftir því að hægri rasskinn sé lyft. Með þessari aðferð á að vera hægt að ná 180 gráðu beygju á sæmilega liprum bát miðað við fremur stilltan sjó. Mismunandi er hversu vel bátar svara þessari aðferð, en nefna má aðaðferðin dugar mjög vel á báta með miklum valta að framan. Það tekur nokkurn tíma að ná góðum tökum á árastýringu á stefni en fyrirhöfnin er sannarlega þess virði.
Auðveldari leið er að notast við náskylda aðferð, árastýringu á skut (e. stern rudder). Hún felst í því að dýfa árablaðinu í vatnið aftan við mannopið og færa það til og frá bátnum í samræmi við krappleika fyrirhugaðrar beygju. Eins og í fyrri aðferðinni verður tekið dæmi af hægri beygju á ferð. Haldið er á árinni í hlutlausri stöðu í loftinu þvert á bátinn. Ræðarinn vindur upp á bolinn og með því færist hægra árablaðið aftur með bátnum og næst er að dýfa brún árablaðsins í vatnið en vinstri höndin liggur ofan við hægri brún bátsins sjálfs, í kviðhæð. Með hægri hönd getur ræðarinn stjórnað því hversu krappa beygju á að taka með því að ýta árablaðinu frá bátnum, eins langt og mögulegt er, án þess að hreyfa vinstri hendina að ráði. Það gefur færi á sem krappastri beygju. Þessi aðferð er einkum notuð þegar báturinn er á mikill ferð, s.s. þegar lensað er af krafti eða í brimreið. Þó getur hraðinn orðið slíkur að jafnvel þessi aðferð dugar ekki til að rétta bátinn af og þá er ekki um annað að ræða en halla sér inn í ölduna og stilla bátinn af þegar aldan er farin hjá.
Ólíkt árastýringu á stefni þarf ekki að halla bátnum neitt að ráði þegar beitt er árastýringu á skut og því finnst sumum þægilegra að beita þessari aðferð. Því stærra sem árablaðið er, þeim mun betra stýrisblað. Árastýring á skut dugar mun betur en árastýring á stefni til að beygja bátnum kröftuglega á miklum hraða upp í 90 gráðu beygju en en aftur á móti dugar árastýring á stefni upp betur til að taka allt að 180 gráðu beygju en þá þurfa aðstæður að vera ögn mildari. Hvor aðferðin hefur því sína kosti og takmarkanir. Best er að kunna báðar aðferðir og beita þeim eftir aðstæðum.
Til að beygja kajak úr kyrrstöðu eru góðar aðferðir til. Notast má við bakk-aðferðina, sem felst í að taka bakkáratök á annað borðið þangað til stefni bátsins snýr í rétta stefnu. Þessi aðferð gerir ráð fyrir að báturinn sé ekki settur á ferð um leið og beygjan er tekin, heldur að snúa honum eins og áttavitanál á punktinum. Önnur aðferð getur hinsvegar sameinað beygju úr kyrrstöðu og upphafshröðun. Enn og aftur eru því fleiri en einn kostur í boði, allt eftir fyrirætlun ræðarans.
Að beygja bát til hægri úr kyrrstöðu og koma honum á ferð felst í því að halla bátnum rækilega til vinstri og byrja áratakið eins framarlega og unnt er. Galdurinn við þessa aðferð felst ekki síst í því að um leið og tekið er á með vinstra árablaðinu er tekinn stór hálfhringur með árinni út frá vinstri hlið bátsins og árin tekin upp úr sjónum við mannopið. Best er að hafa ekki meira en 40 gráðu halla á árinni. Athugið að bátnum er hallað með mjaðmahreyfingu en efri hluti líkamans á ekki að hallast til hliðanna.
Enn ein stýrisaðferð þar sem árin er í aðalhlutverki gengur út á að beygja bátnum á ferð en að þessu sinni með flatt árablaðið ofan á vatnsyfirborðinu. Árin þarf að mynda kross við bátinn til að þetta komi að gagni. Aftur er hægri beygja valin til útskýringar. Markmiðið er að ná 90 gráðu hægri beygju og tilgangurinn er að stöðva bátinn í blálokin. Þegar komið er á ferðinni er átakslið árablaðsins snúið upp og hægri olnboganum vísað upp sömuleiðis. Varast skal að missa olnbogann niður. Hönd er kreppt um hægra skaftið og hnefanum vísað beint niður. Með þessari stellingu fæst góður stuðningur frá handleggnum. Bátnum er hallað inní beygjuna og um leið verður að varast að árablaðið sökkvi. Rétta aðferðin er að láta bakhlið árablaðsins fljóta eftir vatnsyfirborðinu, en þó með smáþunga á því. Öðruvísi beygir báturinn ekki. Þegar báturinn er að ljúka beygjuferlinum er árinni þrýst rækilega niður og báturinn réttur af með mjaðmahreyfingu. Eðlilegt er að hér sé árin farin að smávegis á kaf og til að ná henni upp er eina rétta leiðin sú að ýta henni snöggt áfram og svipta henni upp þannig að átakhshliðin vísi aftur, líkt og ræðarinn sé að smyrja kæfu ofan á brauð með árinni. Ef reynt er að lyfta árinni upp úr vatninu sömu leið og hún kom er næsta víst að ræðarinn missi jafnvægið og dragi bátinn niður á augabragði.
Til marks um hversu sjókajak er meðfærilegur er til stýrisaðferð sem fær bátinn til að beygja án þess að breyta stefnu hans. Hér er um að ræða aðferð sem er skyld árastýringu á stefni hvað árabeitingu áhrærir en markmiðið er þó ólíkt. Nefna mætti þessa aðferð árahliðarstýringu (e. hang draw stroke) en hún gengur út á að stýra bátnum til hliðanna, líkt og verið væri að skipta um akgrein á þjóðvegi. Stefni bátsins vísar í sömu átt á meðan stýringin fer fram. Tilgangurinn er að færa bátinn nær eða fjær steinum, öðrum ræðurum eða hverju sem vera skal. Gert er ráð fyrir að báturinn sé á ferð í þessari stýringu. Til að ná góðum árangri þarf að vinda bolinn vel og leggja árina samsíða bátnum örlítið ofan við lunninguna. Því næst er hægra árablaðið kafsett og átakshliðin látin snúa að bátssíðunni þannig að árablaðið skeri vatnið án nokkurs viðnáms. Vinstri höndin er í ennishæð og handarbakið vísar að höfðinu, líkt og verið væri að gá á úrið. Hægra árablaðið er haft við hlið mannopsins og árin sem næst lóðrétt upp úr vatninu. Fjarlægð milli árablaðsins og bátsins er um 40 cm og lítillega má draga árablaðið að bátnum en er þó ekki nauðsynlegt. Mesta áherslu þarf að leggja á að halda við árina svo hún fljóti ekki frá bátnum. Um leið og árahliðarstýringin er byrjuð mun báturinn rólega færast til hægri, rétt eins og honum væri ýtt mjúklega frá vinstri hliðinni. Eins og með flest þeirra atriði sem hér eru nefnd þarf að æfa þetta svo vel fari, í lygnu vatni. Einnig er mismunandi milli báta hversu framarlega árin þarf að vera.
Í beinu framhaldi af þessari stýringu kemur svo önnur útgáfa sem hönnuð er til að færa bát til hliðar, en úr kyrrstöðu. Þessi aðferð er mjög nytsamleg til að færa bátinn ef fjarlægðin er innan við 4 metra eða svo, því hún sparar tíma á þessu færi, í samanburði við það ef ræðarinn ætlaði að beygja bátnum úr kyrrstöðu. Sjá má fyrir sér aðstöðu þar sem fáeinir metrar skilja að tvo kyrrstæða ræðara hlið við hlið. Öðrum þeirra hvolfir skyndilega og þarf að reiða sig á hjálp hins. Með því að nálgast fórnarlambið með þeirri aðferð að þétta bilið með einfaldri hliðarstýringu sparast mikill tími miðað við venjulega beygju. Hafa ber líka í huga að þessi aðstaða krafðist ekki að hjálparbáturinn ætti að beygja, heldur að komast upp að fórnarlambinu. En hvernig er þetta gert?
Líkt og með árahliðarstýringuna fyrrnefndu er undið upp á bolinn og árin sett lóðrétt niður eins og lýst var. Munurinn nú er sá að ræðarinn snýr upp á árina þannig að hægra árablaðið sker vatnið í vinkilhorni út frá bátshliðinni. Þegar hún kemst ekki lengra er átakshliðinni snúið að bátshliðinni og árin dregin að bátnum. Við þetta færist báturinn til hægri. Þetta má gera eins kröftuglega og ræðarinn treystir sér til. Eingöngu hægri handleggurinn á að sjá um hreyfinguna (og sá vinstri í vinstri stýringu) en vinstri höndin á að vera kyrr í ennishæð eins og í árahliðarstýringunni. Gæta þarf þess að árin fari ekki fram með bátnum á innhalinu, heldur beina leið inn að bátshliðinni. Sömuleiðis þarf að gæta þess að stöðva árina þverhandarbreidd frá lunningunni í stað þess að draga hana alveg upp að bátnum. Til að auka enn frekar aftöstin er bátnum hallað lítið eitt til vinstri á meðan hægri árin er dregin inn. Fleiri aðferðir eru til við að færa bát til hliðar og eru þær keimlíkar þessari. Önnur aðferð byggir á því að í stað þess að draga árina inn að bátnum er hún dregin í stórum bogum fram og aftur með bátnum og þarf þá að snúa blaðinu hæfilega mikið til að smávegis viðnám skapist en öðruvísi hreyfist báturinn lítið sem ekkert. Stór árablöð gera þessa vinnu auðveldari en ella.
Loks má nefna þá aðferð sem byggir á því að notast við fyrstnefndu aðferðina, en draga árablaðið alveg upp úr vatninu áður en því er dýft í handleggsfjarlægð frá bátnum. Árin er síðan dregin inn eins og fyrr var lýst.
Til er skemmtileg æfing í afbrigðum hliðarstýringarinnar og þurfa þá tveir að æfa saman. Félagarnir stilla sér upp samsíða. Annar heldur sér fast utan um mittið á hinum sem dregur félagann og báða bátana til hliðar með árinni og má halla sér vel út fyrir borðstokkinn. Sá fyrrnefndi þarf að halda nógu fast til með rækilegu faðmlagi til að hjálparbátnum hvolfi ekki. Síðan er skipst á hlutverkum.
Góð þjálfun í hinum svonefndu stuðnings- og varnaráratökum er lykill að því að geta tekist á við úfinn sjó og háar öldur án mikillar fyrirhafnar. Mörgum reynist í byrjun erfitt að róa af öryggi í mikilli hliðaröldu en ef áratökin sem nú verða útskýrð eru orðin vel æfð, verður það sem áður þótti ógnvænleg reynsla að hreinustu skemmtun.
Fyrst verður kynntur til sögunnar lágstuðningur, (e. low brace) síðan farið í hástuðning (e. high brace), því næst fjallað um átaksflot (e. scully) og loks átaksflot úr jafnvægi. (e. off balance scully).
Lágstuðningurinn
Lágstuðningurinn hefur að markmiði að verjast falli þegar innra jafnvægi líkamans og stöðugleiki bátsins nægja ekki lengur í ólgusjó. Einkum er gripið til lágstuðnings í erfiðri hliðaröldu en að öðru leyti er ekkert sem bannar notkun lágstuðnings þegar ræðarinn telur sig þurfa að nota hann. Með lágstuðningi er átt við það þegar árin er sett út á vatnsflötinn með bakhlið árarinnar niður en átakshliðina upp. Upphafsstaðan er sú að viðkomandi (hér hægri) olnbogi vísar beint upp, hornið milli framhandleggs og upphandleggs 90-120 gráður og handarbakið snýr í stefnisátt bátsins, beint fram. Horn báts og árar er einnig 90 gráður. Í þessari stöðu má láta sig detta á árablaðið og styðja sig við það rétt áður en það fer að sökkva, og rétta bátinn af með mjaðmahreyfingu. Huga þarf að því að höfuðið þarf að leggjast að hægri öxlinni áður en báturinn er kominn í jafnvægisstöðu. Um leið og báturinn er réttur við þarf að taka árina upp úr vatninu en það er gert með því að ýta blaðinu lítið eitt áfram og taka það upp eins og lýst var í útskýringu hér að ofan (smyrja kæfu). Mikilvægt er að hafa í huga að það er mjöðmin sem réttir bátinn af en stuðningur er hafður af árinni. Þessi aðferð kemur sér mjög vel þegar hliðaralda gerir sig líklega til að hvolfa bát. Þá gildir að halla bátnum inn að öldunni, líkt og ætlunin væri að detta á hana, en beita síðan árinni fyrir sig á réttan hátt og forðast fall. Hér gegnir árin því hlutverki jafnvægisstangar eins og fyrr var nefnt, en um leið og jafnvægi er náð, breytist árin aftur í öfluga skipsskrúfu. Minnt skal á að hornréttur olnboginn má ekki lyftast upp yfir axlahæð því annars er hætta er á meiðslum. Öldur geta slegið olnboganum upp og því nauðsynlegt að vera á varðbergi og meta hvort fara þurfi yfir í hástuðning sem er næsta varnastig.
Hástuðningur
Hástuðningur er í einu orði sagt frábært fyrirbæri og nýtist sem óhemju öflugt varnarbragð gegn brotöldum allt upp í á annan metra. Aðferðafræðin er keimlík lágstuðningi með því að ræðarinn þarf að halla sér inn í hliðarölduna. Beiting handa og árar er nokkuð frábrugðin þó. Eins og nafnið bendir til þá er vinnusvæði fyrir hástuðninginn hærra en lágstuðningi. Ræðarinn heldur nú árinni láréttri í hökuhæð, hægri átakshlið blaðsins snýr niður og báðir olnbogar einnig. Handarbök snúa aftur. Hægri olnboginn verður að vera vel boginn þegar hann fer í vatnið, því hætta er á meiðslum ef handleggurinn er réttur mikið út þegar á reynir. Þegar hástuðningur er tekinn, gengur hreyfingin út á að henda bátnum alveg á hliðina, en með stuðningi árablaðsins sem lendir flatt á vatninu er hindrað að hann fari á hvolf. Þegar báturinn er á hliðinni er eðlilegt að hallinn á árinni sé sem minnstur en fari ekki yfir 40 gráður. Vinstri höndin er best höfð í sem lægstri stöðu. Báturinn er réttur við á augabragði með mjaðmahreyfingu en hún ein og sér dugar þó ekki alveg til. Því þarf að styðjast við árina á leiðinni upp með hreyfingu sem líkist því að ræðarinn væri að toga árina niður í djúpið og kýla hægri olnboga ofan í sjóinn. Eðlilegt er að árablaðið sökkvi aðeins en báturinn á að vera kominn nánast á réttan kjöld þegar árin er komin 2-3 þverhandarbreiddir undir vatnsyfirborðið. Til að ná árinni upp þarf að smyrja blaðinu lítillega inn í átt að lunningunni eða aftur með bátnum. Aðalatriðið er að reyna ekki að draga blaðið beint upp, því það dregur bátinn umsvifalaust niður aftur. Staða höfuðsins er mikilvægt á uppleiðinni því gæta verður að því að leggja það að hægri öxlinni til að rugla ekki hina mikilvægu vinnu mjaðmanna við sjálfan þyngdarpunktinn. Vel gagnast líka að skjóta vinstra hné sem allra lengst út í vinstra borð bátsins á uppleiðinni. Sannarlega eru sjókajakar berskjaldaðir fyrir hliðaröldum og ekki þarf nema litla öldu til að hvolfa kajak, sé ekkert gert til að verjast henni. En hönnun kajaka gerir það að verkum að ræðara er kleift að draga fram gífurlega öfluga - og skemmtilega eiginleika þessara mjóu báta sem þó má með réttu má segja að ráði við erfitt sjólag ef tæknin hjá ræðaranum er orðin vel slípuð.Við erfiðar aðstæður þar sem brotalda í axlarhæð eða meira ríður yfir kajak frá hlið nægir ekki að taka hástuðning eins og verið væri að æfa hann á lygnu vatni, þ.e. henda sér á hliðina og svipta sér strax upp aftur. Ræðarinn verður að láta lengd brotsins ákveða hvað hann þarf að liggja lengi á hástuðningnum, með árablaðið inni í brotinu. Ekki má rétta sig við fyrr en brotið er að fjara út. Stundum getur brotið verið það öflugt að það hrifsar bátinn og ýtir honum með látum til hliðar 1-200 metra og við það verður ræðarinn að una og verjast með hástuðningi á meðan. Hættan sem getur skapast hér, þótt ræðarinn geri allt rétt og ráði vel við öldukraftinn, er sú að aldan ýti bátnum á fyrirstöðu, sker eða mannvirki, eða annan ræðara. Þetta getur haft í för með sér skemmdir eða meiðsli, nema hvorttveggja sé. Almennt er varasamt að hætta sér vísvitandi inn í brimgarða, nema að hafa metið þá frá landi. Sé staðan þannig að ræðari er á leið meðfram brimi er öruggast að halda sig utan við það. Þótt hástuðningur sé gott vopn, dugar hann ekki í öflugu brimi. Það setur alla á hvolf án miskunnar og þá þarf að grípa til næsta varnarstigs sem er veltan. Áður en hún verður útskýrð, verður tekið fyrir auðvelt afbrigði af hástuðningi, sem nefnist átaksflot.
Átaksflot
Með átaksfloti er átt við það þegar átakshlið árablaðsins er fleytt eftir vatnsyfirborðinu til létts stuðnings. Árin er höfð í sem lægstri stöðu þvert yfir bátinn og er handstaða sú sama og í hástuðningi. Eins og smjörhníf ef árablaðinu fleytt fram og aftur samsíða bátnum. Fjarlægð blaðsins frá bátnum er hæfileg þegar vinstri höndin hefur færst til hægri, lítillega yfir miðju framdekksins. Árablaðinu er aldrei sökkt, eins og við venjulegan hástuðning. Áhrifaríkast er að vinda bolinn til hægri og vinstri og hafa hægri handlegginn að mestu í sömu stöðu. Árablaðið á ekki að vera alveg flatt við fleytinguna, heldur þarf að snúa því örlítið sitt á hvað til að mynda hvasst horn við vatnsflötinn svo átaksliðin fari eins og sjóskíði yfir vatnsflötinn. Halla má sér aðeins á árina, þó ekki af þunga. Þessi aðferð gagnast vel þegar ræðari er í kyrrstöðu og telur sig þurfa viðbótarjafnvægi en rétt er að minna á að bátur í kyrrstöðu er valtari en bátur í róðri. Mörgum ræðurum finnst þægilegt að geta gripið til átaksflots þegar verið er að bíða eftir félögum sem dregist hafa aftur úr og sjór er svolítið ókyrr. Einnig þurfa ræðarar líka að fara í kyrrstöðu á sjó af mörgum öðrum ástæðum og oft sést þá þessari aðferð beitt.Í hliðaröldu gildir undantekningalaust að ræðari skal halla bátnum upp í ölduna. Þannig nýtast eiginleika sjókajaka best til að verjast hvolfun.
Að síðustu verður nefnt kröfuharðasta afbrigðið af hástuðningi, átaksflot úr jafnvægi. Þótt hér sé talað um kröfuhörku, er hún þó ekki meiri en svo að læra má aðferðina á dagparti með aðstoð leiðbeinanda. Átaksflot úr jafnvægi hefur þann tilgang að verjast erfiðum og lífseigum hliðaröldum eins og að ofan var lýst. Það er hluti af veruleika ræðara við strendur Íslands sem annarsstaðar að geta átt von á slíkum uppákomum og óþarfi að lenda á sundi þegar til eru aðferðir við að komast hjá því. Þegar átaksflotinu er beitt er líkams - og árastaða sú sama og í upphafsstöðu fyrir hástuðning. Munurinn felst í að nú sviptir ræðarinn sér ekki strax upp aftur, heldur flýtur á bakinu með bátinn á hliðinni. Til að þetta gangi upp þarf að nota stuðning af árinni sem er fleytt eftir vatnsyfirborðinu á líkan hátt og í venjulega átaksflotinu. Ræðarinn er hinsvegar nú með olnbogann á kafi í vatninu og notar bolvindu til að hreyfa árina fram og til baka. Olnboginn þarf að vísa niður í djúpin og andlitið vísar upp. Hnakkinn er í snertingu við vatnið. Líkja má stöðunni við það þegar ræðarinn ímyndar sér að hann hangi neðan úr árinni. Mikilvægt er að nota bolinn í hreyfinguna í stað þess að leggja hana á hægri handlegginn. Hallinn á árinni á að vera sem minnstur og vinstri olnboginn hvílir á vinstri lunningunni. Áraskaftið við vinstra blaðið á að vera í snertingu við vinstri brún bátsins. Æfingin er líka möguleg með því að lyfta vinstri hönd eins hátt og ræðarinn treystir sér til, en það skilar ekki auknu öryggi. Þegar aðferðin er fullkomnuð á ræðarinn að geta haldið sér á floti eins lengi og hann ákveður sjálfur, á bæði borð.
Sjókajak er hannaður til notkunar á réttum kili, báðum hliðum og á hvolfi. Það er hins vegar ákvörðun ræðarans hvað hann vill virkja marga möguleika með því að þjálfa sig upp í að geta beitt bátnum á marga vegu.
Post edited by: Orsi, at: 2009/12/29 18:13