Hver sem virt hefur fyrir sér kayak kljúfa lygnan hafflöt eða klífa brattar haföldur, sér að hér er fullkomin hönnun. Rennilegt formið sker hafflötinn áreynslulaust, en getur um leið tekist á við vont veður og þungan sjó. Allt í senn þá er kayakinn einfaldur, hagnýtur, afkastamikill og aðhæfanlegur. Rétt hlaðinn, getur hann borið búnað til margra daga ferðar. Í stuttu máli þá hentar hann fullkomlega til þess sem ætlast er til af honum. Hvernig varð hann svona? Hugum nánar að því - byrjum á grunnhönnuninni og endum á því að skoða þau smáatriði sem skipta verulegu máli við afkastagetu kayaksins.

Image

Norðurá 1979

Grunnurinn

Ferðakayökum má skipta í tvo flokka: einfalda vatnakayaka og sjókayaka,  með ýmsum tilbrigðum þar á milli. Sjóbátur er ferðabátur, en vatnabátur er ekki sjóbátur. Með öðrum orðum, vatnabátur er takmarkaðri. Þetta er vegna þess að slíkur bátur er venjulega mun stöðugri (sem er til bóta fyrir byrjendur), en lætur um leið verr að stjórn í þungum öldum og vondu veðri.

Vatnabátar eru vanalega lítið eitt breiðari en sjóbátar, og flatbotna. Þeir eru oftast fremur stuttir sem gerir þá liprari. Allt þetta kemur niður á stefnufestu og hraða þeirra samanborið við sjóbáta. Minna er yfirleitt lagt í vatnabáta, þeir eru sjaldnast með stýri eða lestarlúgum en oft eru þeir með stærra mannopi til aðvelda fólki að setjast í þá. Sjóbátum er vitanlega hægt að róa á tjörnum og litlum vötnum, en ef menn ætla að halda sig á slíkum stöðum er sjóbátur helst til of mikið þing. Sjóbátur er hinsvegar hraðskreiðari og öruggari fyrir opnu hafi. Fyrristöðuguleiki sjóbáta (sjá síðar) er ekki eins góður og á vatnabátum, en þegar sjó tekur að þyngja og vindur fer að aukast fer að reyna á heildarstöðugleika og þá fara eiginleikar sjóbátanna að njóta sín. Ef þið hafið hug á að fara í lengri ferðir eða róa styttri leiðir með ströndum landsins, þá er sjókayak hárrétti báturinn.

Hugtakasafn

Þótt kayak sé í sjálfu sér einfalt tæki, þá eru útgáfur af honum jafn margar og þær eru ólíkar. Áður en lengra er haldið er rétt að útskýra nokkur hugtök. Með skrokki er átt við neðanverðan bátinn, dekkið er ofanverður báturinn og þetta tvennt mætist í lunningunni. Skrokkurinn og dekkið geta verið úr ýmsum efnum, svo sem tré, trefjaplasti eða plasti. Í kayaknum er að sjálfsögðu sæti og til aukinna þæginda og til að menn hafi betri tök á honum er hann með (fót)spyrnu og bakstuðningi.

Mannop, nefnum við opið þar sem sest er í bátinn. Þau er oftast ílöng og mjókka að framanverðu, en einnig eru til hringlaga op þótt sjaldgæf séu. Í kringum mannopin er brún með karmi þar sem svuntan er fest á en  hún varnar því að vatn fossi inn í mannopið. Til að auka styrkleika og mynda vatnsþétt rúm, þá er skilrúm rétt aftan við sætið og framan við spyrnuna svo úr verða 2-3 ákjósanleg geymsluhólf. Lestarlok á dekkinu opna aðgang að hólfunum. Margir sjóbátar eru með stýri eða skegg til að auðvelda stefnu og stjórnun.Á hvorum enda kayaksins eru handföng eða griphnúðar. Annar aukabúnaður er til að mynda dekklínur til að grípa í eða teygjur til að geyma ýmsa hluti undir, svo sem kort, varaárar og lensidælu. Að lokum eru augljós orð eins og stefni fyrir framendann og skutur fyrir afturendann.

Image

Grunnhönnun.

Hugmyndir manna um hvaða bátur sé bestur eru jafn margar og kayakræðarnir sjálfir. Þeir vita hvaða bát þeir vilja helst róa og eru tilbúnir að tjá sig um það. Þegar litið er á kayaklag þá er ein grunnregla; öll hönnun er einhverskonar málamiðlun. Það er ekkert til sem heitir hinn fullkomni kayak ? aðeins kayak sem hentar þínum þörfum.
>Skrokklag: Skrokkur með flötum botni, skörpum köntum (botn og hlið mætast með skörpu horni) og hallandi hliðum er stöðugur. Aftur á móti er u-laga botn, með kúptum hliðum óstöðugur en um leið er auðveldara að velta honum upp ef honum hvolfir.
>Lag stefnis: Langur og mjór bátur með hvasst og þvert stefni er hraðskreiður. Þetta er vegna þess að stefnið sker vatnið í stað þess að ryðja því upp fyrir framan bátinn. Sé báturinn hinsvegar breiður fram og aftur, þá er hann líkari flutningaskipi en kappróðrarbát. Slíkur bátur rúmar mikinn farangur en er ekki hraðskreiður. Flestir sjóbátar falla einhverstaðar hér mitt á milli.
>Tveggjamanna bátar: Flestir bátar eru gerðir fyrir einn ræðara, en einnig eru til tveggjamanna bátar. Flestir hinna síðarnefndu eru útbúnir tveim aðskildum mannopum en einnig eru þeir til með einu stóru opi.
>Stýri og skegg: Margir bátar eru með stýri sem ræðarinn stjórnar með þartilgerðum fótstigum. Stýri er til að auðvelda mönnum að halda stefnu eða beygja bátnum. Sumir kayakræðarar eru þeirrar skoðunar að stýri sé aðeins hjálpartæki til að vega upp lélega róðrartækni, og sé líklegt til að bila. Hönnun og efni í þessum búnaði hefur hinsvegar lagast stórlega á síðustu árum, og því eiga stýrisbátar miklum vinsældum að fagna.
Með skeggi er er átt við hreyfanlegt spjald aftarlega á kili bátsins sem hægt er að draga upp í svokallað skeggbox. Skeggið er ekki notað eins og stýri til að beygja bátum, heldur eingöngu til að auka stefnufestu báta miðað við vindátt.
Skeggið er afar áhrifaríkt stjórntæki til að minnka vindhanaáhrif (sjá síðar) og nokkrar útfærslur eru til í þessum efnum. Algengast er að skeggið sé tengt með stinnum vír frá skeggboxi fram að mannopi. Skeggið er hægt er að draga upp og niður en ekki til hliðanna og langoftast er skegginu stjórnað með einu handtaki frá bátshliðinni á þartilgerðum sleða eða hnappi. Skegg þola illa högg því það getur beygt vírinn og því þarf að forðast að reka skeggið í steina og sjávarbotn á grynningum. Skegg er notað þannig að það er dregið alveg upp þegar róið er í mótvindi, haft alveg niðri ef róið er undan öldu/vindi (á lensi) og loks haft niðri til hálfs ef róið er í hliðarvindi eða -öldu. Benda má á bandarískan vef sem óhætt er að mæla með þar sem sýnt er með skýru myndmáli hvernig skegg virkar.
http://atlantickayaktours.com/pages/expertcenter/equipment/skeg/Skeg-1A.shtml
Rétt er að ítreka að með skeggi er bátum ekki stýrt heldur haldið á stefnu.
En hvernig á að beygja bátum með skeggi? Það má gera með því að draga inn skeggið og róa duglega með annarri árinni, eða það sem betra er, beygja bátnum með því að leggja hann örlítið á þá hlið sem er gagnstæð fyrirhugaðri beygju, Dæmi: ef beygja skal til hægri, þá er hægra hné og rasskinn lyft. Með þessari stjórn, hallast báturinn aðeins til vinstri og tekur hægri beygju. Um leið er tekið á með vinstra árablaðinu og tekinn stór hálfhringur með árinni út frá vinstri hlið bátsins. Athugið að bátnum er hallað með mjaðmahreyfingu en efri hluti líkamans skal alltaf vera beinn. Þetta þarf að æfa í sundlaug þangað til ræðarinn nær tökum á þessu.
Víst er að þetta er mög árangursrík aðferð til að beygja skeggbát.  Þessi atriði eru kennd á námskeiðum kayakklúbbsins.

Næsta skref

ÓSKA EFTIR: Mjög stöðugum og stefnuföstum sjókayak. Hann þarf að vera gríðarlega hraðskreiður, lipur og fisléttur og loks svo þægilegur að ég vil ekki standa upp úr honum!!Flestir ræðarar leita að bát sem er rúmgóður, léttur og stöðugur, heldur stefnunni, er lipur í beygjunum, verst öldum og tekur ekki á sig vind. Það er aðeins eitt vandamál: margir þessara eiginleika vinna hver gegn öðrum. Stöðugur bátur er þungur í róðri og stefnuföstum bát er um leið erfitt að beygja. Því er hver kayak einskonar málamiðlun á milli hraða, lipurleika og stöðugleika.
>Hraði: Langur og mjór bátur er hraðskreiðari en stuttur og breiður. Bátur sem hefur langan kjöl með skörpum köntum er stefnufastari en hinir styttri, sem þýðir að hvert áratak nýtist betur til að koma honum áfram.
>Lipurleiki: Stuttur og breiður bátur er liprari en langur og mjór. Niðurstaðan er því sú að hraði og lipurleiki vinna hvor gegn öðrum.
>Stöðugleiki: Breiður bátur er yfirleitt stöðugri en mjór. Flatbotna eða með v-laga botni er sömuleiðis stöðugri en bátur með u-laga botni.
Niðurstaðan er því sú að ef þú vilt bát með góðum fyrristöðugleika þá þarftu að fórna dálitlum hraða.
Nú skulum við skoða hina ýmsu þætti betur sem skipta máli við hönnun á sjókayak. Þessum þáttum er hægt að raða saman á óendanlega marga vegu.

Lengd

Lengd kayaks hefur mikil áhrif á stefnu, snúning og stöðugleika. Lengd sjóbáta er frá tæpum 5 m upp í rúma 6 m, tveggja manna báta.
Langur bátur hefur umtalsverða kosti, það er venjulega auðveldara að róa honum, hann er stöðugri en stuttur með sömu hleðslu og getur borið meira án þess að það komi niður á afköstum. Langur bátur er stefnufastari, og jafnframt hraðskreiðari og rennur betur, þ.e. afkastar meiru með minni áreynslu. Þessir eiginleikar eru sérstaklega mikilvægir á
kyrru vatni þar sem ekki er þörf að snúa í skyndi.
Stuttur bátur útheimtir meiri orku til að koma honum áfram. Langur bátur lætur betur í sjó, með því t.d. að hann er mun stefnufastari á lensi en stuttur bátur, nokkð sem ræðarar meta afar mikils.
Hér skiptir botnlag (valti ) líka nokkru máli. Að því verður vikið síðar.
Kostir stuttra báta felast hinsvegar í því að þeir eru léttari, oftast ódýrari og fyrirferðarminni - en fyrst og fremst liprari.
Hvað telst vera stuttur sjóbátur? Segja má að allir bátar undir 500 cm flokkist til stuttra sjóbáta og sömuleiðis teljast bátar vera breiðir ef þeir eru breiðari en 56 cm. Dæmigerður ferðakayak í lengri og mjórri kantinum er til að mynda 540x54cm.  Dæmi um stuttan og breiðan sjókayak væri t.d. 500x60 cm. En hvað á fólk að velja langan bát? Því er hægt að svara í löngu máli, en hér verður látið nægja að nefna þumalfingursreglu sem segir að þreföld líkamshæð sé viðunandi bátslengd. Hiklaust má þó mæla með því að ræðarar, karlar jafnt sem konur, undir 170 cm á hæð margfaldi hæð sína með 3,1 - 3,2 í þessu samhengi.

Image

Botnlag

Botnlag spannar allt frá flatbotna bátum til v-lags. Flatbotna bátur hefur góðan svokallaðan fyrristöðugleika, ólíkt u-laga bátum. Aftur á móti er seinnistöðugleiki betri í u-laga bátum Því meiri v-laga botn, því betri stefnufesta - en verri stöðugleiki.

Orðskýringar:
Fyrristöðugleiki er hinn áþreifanlegi stöðugleiki sem allir geta metið strax og þeir setjast í bát á lygnu vatni. Hann mætti mæla í þeirri fyrirhöfn sem þarf til að hagga bát og leggja hann á hliðina, jafnvel hvolfa. Því meiri fyrirhöfn sem það útheimtir, því meiri fyrristöðugleiki.
Seinnistöðugleiki felst í því hvað báturinn veitir mikið viðnám þegar komin er 30-40 g slagsíða á hann. Til að prófa seinnistöðugleikann er bát hallað aðeins á hliðina sbr. mjaðmahreyfingu og athugað hvenær hann virðist ætla að "stöðva fallið" rétt áður en honum hvolfir.

Image

Kantar

Kanturinn sem um ræðir er þar sem botn og hlið koma saman. Skarpir kantar gefa góðan fyrristöðugleika en lítinn seinnistöðugleika. Aftur á móti gefa mjúkir kantar lítinn fyrristöðugleika en betri seinnistöðugleika.

Hliðarnar

Bátur með hallandi hliðar er með góðan seinnistöðugleika. Þótt hann hafi verri fyrristöðugleika þá hentar hann vel í kviku þar sem menn þurfa að halla bátnum inn í ölduna. Fyrir sunnudagsróður á lygnu vatni er flatbotna bátur með beinum hliðum það sem þú þarft.

Image

Samhverfa.

Samhverfa er heildarútlit bátsins séð ofanfrá. Sumir bátar eru samhverfir, sem þýðir að framhelmingurinn er spegilmynd af afturhelmingnum en aðrir eru ósamhverfir.

Samhverfur bátur er liprari, en ósamhverfur bátur er hraðskreiðari og stefnufastari en þá um leið ekki eins lipur.
Til eru tvær tegundir af ósamhverfum bátum; fiskiformið og sænskaformið. Bátur með fiskiformi er breiðari fyrir framan miðju en bátar með sænskaforminu er breiðastir aftan við miðju.

 

Stefnislag.

Stefni á kayak getur verið þunnt eða þykkt. Sama á við um skutinn. Bátur með þykku stefni eða skut gefur auka flot og lyftir sér betur upp á öldurnar í stað þess að stinga sér í gegn eins og hraðskreiður bátur með þunnu stefni.

 

Botnsveigja.

Með botnsveigju (e. rocker, ísl. valti, sbr. valti á ruggustól) er átt við línuna frá stefni aftur í skut, hversu bein, eða bogin hún er. Því beinni botnlína því auðveldara er að halda stefnu, en þá um leið er báturinn ekki eins lipur. Bátur með sveigða botnlínu (mikinn valta, "bananalag") fylgir öldunni betur vegna þess að endarnir sitja hærra í vatninu.

Image

Rúmtak

Rúmmál er oftast gefið upp í lítrum. Rúmmál segir til um burðargetu.Ferðakayakar eru með heildarlítrafjölda frá 250 lítrum en sjaldgæft er að sjá báta með meira en 450 l rúmmál. Til viðmiðunar má nefna að kayak með um og  yfir 300 l rúmmál eru algengastir og dugar í allar kayakútilegur þar sem róið er dögum saman með allan viðleguútbúnað.

Þyngd.

Þyngd á kayak ræðst af því efni sem notað er. Því léttari sem bátur er því meðfærilegri. En oft má setja samansem merki á milli þyngdar og endingar.

Stöðugleiki.

Þegar hanna skal bát sem á að vera stöðugur en ekki um of, stendur hönnuðurinn frami fyrir ýmsum vandamálum:
>Fyrristöðugleiki kayaks er ákveðinn fyrst og fremst af breidd bátsins og hæðinni á sætinu. Takmörk eru fyrir því hvað við viljum hafa bátinn breiðan á kostnað annarra þátta.
>Hæð sætis hefur áhrif á þungamiðju, svo sæti er haft eins neðarlega og mögulegt er til að auka stöðugleika.
>Langur bátur hefur góðan stefnustöðuguleika, en er þá um leið valtari.
>Bátur með sveigða botnlínu hefur lakari stefnustöðuleika þar sem sjólínan er styttri, en þá um leið verður seinnistöðugleiki betri, hentar því vel til að kljást við úfinn sjó og háar öldur.
>Flatur botn hefur góðan fyrristöðugleika og hallandi hliðar góðan seinnistöðugleika, sem kemur sér vel í háum öldum.
>Rétt hlaðinn bátur er með lægri þungamiðju og verður því stöðugri.

Stefnufesta og beygja.

Á sama hátt koma upp vandamál í hönnun þegar togast á stefnufesta og beygjugeta:
>Því betur sem bátur heldur stefnu, því verra er að beygja honum.
>Botnsveigja hefur áhrif á stefnufestu og beygju. Bátur með beina botnlínu frá stefni aftur í skut er fastur á stefnunni og sérstaklega ef botnlag er einnig v-laga.
>Flatbotna skrokkur er viðkvæmari fyrir hliðarvindi en v-laga og á því til að reka út á hlið.
>Fiskiformið er stefnufastara en sænskaformið.
>Hugtakið "vindhanaáhrif" (e. weathercocking) kemur gríðarlega oft við sögu í ræðu og riti um kayakmennsku, hvort sem er á Netinu eða í bókum um sportið. Hér um að ræða þá hegðun báta að leita með stefnið upp í vindinn.
Benda skal á að langflestir sjókayakar sýna þessa hegðun - í mismiklum mæli - en til að sporna við þessu er skeggið eða stýrið notað til að halda bátnum á réttri stefnu. Til eru einnig bátagerðir, fáar þó, þar sem vindhanaáhrifin koma fram í því að skuturinn snýst upp í vindinn. Hvort heldur sem er, þá er heppilegt að hafa stefni og skut sem lægst svo að áhrif vinds gæti mest um miðjan bát og rífi minna í horn eða hala báts með tilheyrandi snúningi.
>Hleðsludreifing hefur mikil áhrif og skal því leitast við að hlaða bát þannig að farmurinn sé sem næst miðju, annars verður erfiðara að stýra bátnum.

Hraði og mótstaða.

Samband hraða og mótstöðu er flókið.
>Mjór bátur er hraðskreiðari þar sem hann hefur minni mótstöðu í vatninu.
U-laga skrokkur hefur minna heildaryfirborð sem þýðir minni mótstöðu við vatnið og þá meiri hraða. Bátur með þykkt stefni og skut framkallar mikla iðu og af þeim sökum velja hönnuðir þunnt stefni og skut.
>Lengri vatnslína þýðir yfirleitt hraðskreiðari bát. Þegar bátur rennur í gegnum vatnið þarf skrokkurinn að kljúfa vatnið við stefnið og sameina það aftur við skutinn, og gera það eins ?mjúklega? og mögulegt er. Því lengri sem vatnslínan er, því mýkri verður ferlið. Sænskaformið er sagt hafa minni mótstöðu en fiskiformið og samhverfur skrokkur.
>Stuttur bátur og einnig bátur með sveigða botnlínu sitja að jafnaði dýpra, því verður heildarbreiddin meiri, sem er þess valdandi að mótstaða við vatnið verður meiri.

Öldur.

Að framan var minnst á stefnislag en segja má að hönnuðir hafi tvo möguleika í þeim efnum; þ.e. lágt, þvert og hvasst stefni sem sker í gegnum ölduna. Hitt er oddlaga, uppbeygt stefni, sem hjálpar bátnum til að klifra uppá ölduna, frekar en að stinga sér í gegn. Það eru skiptar skoðanir meðal hönnuða hvort sé betra.
Dekklag er hlutur sem líka væri vert að skoða. Hvernig gefur yfir bátinn er komið undir því hvernig stefnið klýfur sjóinn og þá líka hvernig dekkið hreinsar af sér. Að róa lensinn getur reynst mönnum hvað erfiðast, þá kemur bogin botnlína sér vel. Það er vegna þess að minni líkur eru á að báturinn grafi sig að framan þegar hann rennur fram af öldunni.
Að lokum, við hönnun á sjókayak liggur margt fleira að baki en hér á undan er talið. En eins og haft er eftir einum ágætum hönnuði: "Tölvur geta hjálpað mikið til við hönnun á kayak, en þær geta ekki sagt þér hvernig tilfinning það verður að róa bátnum, eins og þegar róið verður í ólgusjó. Suma hluti verða menn bara að prófa".

Að lokum

... nokkrar fræðslusíður um kayakróður sem Kayakklúbburinn Reykjavík getur hiklaust mælt með:


http://atlantickayaktours.com/pages/expertcenter/main-expert-center.shtml
www.kayakpaddling.net/
Kayarchy - the sea kayaker's online handbook and reference

Þýtt og endursagt Þ.G.
Uppfært af Ö.S
Síðast uppfært af SAS