Lög Kayakklúbbsins
 
1. Grein
Nafn félagsins skal vera Kayakklúbburinn, og aðsetur þess og varnarþing í Reykjavík.
 
2. Grein
Tilgangur félagsins er að þjálfa og efla allar greinar kayak og kanó róðurs og standa fyrir keppnum.
 
3. Grein
Hver sá sem er virkur og áhugasamur um íþrótt þessa er gjaldgengur sem félagsmaður.  Félagsmönnum skal skipt í tvo aldurshópa sem miðast við 18 ára aldur.  Umsækjandi um inngöngu í félagið skal senda inn skriflega umsókn til ritara félagsins á þar tilgerðum eyðublöðum.
 
4. Grein
Félagi getur sagt sig úr félaginu skriflega með einsmánaðar fyrirvara.  Stjórn félagsins getur sett félaga sem gerast sekir um vítavert gáleysi í fyrirvaralaust æfinga- og keppnisbann.  Slík mál skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi félagsins.
 
5. Grein
Stjórn félagsins skal skipuð sex mönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, auk tveggja meðstjórnenda.  Stjórn og varamenn skulu kjörnir á aðalfundi og starfstími þeirra er eitt ár, en geta þeir verið endurkjörnir að þeim tíma liðnum.
 
6. Grein
Stjórn félagsins skal sjá til þess að félagið starfi eðlilega.  Stjórn skal semja reglugerðir félagsins og sjá um framkvæmd þeirra.  Stjórnin skal sjá um rekstur félagsins fjárhagslega og lagalega, ekki með eigin hag í huga heldur alls félagsins.
 
7. Grein
Formaður stjórnar öllum félags- og stjórnarfundum eða setur fundarstjóra í sinn stað.  Stjórn félagsins ber ábyrgð á að félagið starfi lögum samkvæmt og fylgist með að öryggisreglum sé fylgt, einnig sér stjórn um að skipa í nefndir.  Formaður skal vera fulltrúi félagsins útávið.  Ritari sér um fundarundirbúning auk þess sem hann bókar allt markvert sem fram kemur.  Gjaldkeri sér um fjárhagshlið félagsins og færir bókhald.
 
8. Grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins og skal hann haldinn í janúar mánuði ár hvert og skal til hans boðað bréflega með minnst viku fyrirvara.  Á aðalfundi skal fjalla um skýrslu stjórnar um liðið starfsár, reikningsskil, og árgjald, aðrar tillögur frá stjórn eða félagsmönnum, kjör stjórnar varamanna og endurskoðenda fyrir næsta starfár.  Í fundarboði skal fylgja fyrirhugaðar lagabreytingar.  Fundurinn telst löglegur án tillits til fundarsóknar, hafi löglega verið til hans boðað.  Kosningu skal framkvæma með handauppréttingu en sé þess óskað sérstaklega, skal haldin leynileg atkvæðagreiðsla.  Auk aðalfundar skulu haldnir félagsfundir.
 
9. Grein
Starfsár félagsins og reikningsár skal vera milli aðalfunda.
 
10. Grein
Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda lög og reglugerðir Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambands Íslands (ÍBR/ÍSÍ).
 
Breytingar á lögum félagsins voru gerðar á aðalfundi 2000, og voru þar samþykktar samhljóða.
 
Sign.
Þorsteinn Guðmundsson
Formaður Kayakklúbbsins