Image
Laugardaginn 5. september dregur til tíðinda hjá kayakmönnum því þá verður bæði keppt í Hvammsvíkurmaraþoni og Haustródeói. Um kvöldið verður hið alræmda, en þó árlega, lokahóf og þá fagna kayakmenn uppskeru sumarsins og leggja drög að vetraræfingunum. Íslandsmeistarar verða einnig krýndir um kvöldið. Meira um það síðar. 

 

Haustródeóið verður að þessu sinni haldið í Tungufljóti en fljótið varð fyrir valinu því þar er hola sem hentar flestum og áin er yfirleitt vatnsmikil. Mæting er við brúna yfir Tungufljótið, rétt eftir að ekið er framhjá Geysi í Haukadal. Keppendur geta haft samband við Harald Njálsson í síma 898-1164, sé eitthvað óljóst í þeirra huga.

Keppni í
Hvammsvíkurmaraþoni hefst við Geldinganes klukkan 10 árdegis en keppendur þurfa að mæta hálftíma fyrr til að skrá sig. 


Lokahóf og krýning Íslandsmeistara verður svo í Kafarahúsinu í Nauthólsvík á laugardagskvöldinu.  

Maraþonið er að með hefðbundnu sniði með þeirri undantekningu að nú verður aftur boðið upp á
sveitakeppni. Á sínum tíma myndaðist ágæt stemning fyrir sveitakeppni enda þykir sumum dálítið mikið að róa heilt maraþon. Hún lognaðist síðan út af en er nú aftur komin á ról, líkt og Lasarus frá Betaníu forðum. Í hverri sveit eru þrír ræðarar og skipta þeir með sér þremur leggjum maraþonsins. (Geldinganes-Kjalarnes, Kjalarnes-Hvalfjarðareyri, Hvalfjarðareyri-Hvammsvík). Mestar líkur eru á erfiðu sjólagi fyrir utan Kjalarnes.

Þeir sem keppa í einstaklingskeppni þurfa að stoppa tvisvar á leiðinni, við Brautarholt og á Hvalfjarðareyri. Athugið að þetta eru skyldustopp! Þar er boðið upp á svaladrykki og samlokur. Keppendur verða að dvelja þar í nákvæmlega tvær mínútur áður en þeir mega halda af stað aftur. Stopptíminn er síðan dreginn frá lokatímanum.

Þátttökugjald í Hvammvíkurmaraþoni er 1.500 krónur, en í staðinn fá keppendur afhent neyðarblys til eignar. Gjaldið er eingöngu til að standa straum af kostnaði við blysin. Björgunarsveitin Kjölur á Kjalarnesi sé um brautargæslu samkvæmt venju.

Eftir maraþonið verða veitingar í boði fyrir svanga ræðara – meira um það og lokahófið síðar.

Þeir sem hafa tök á að starfa við tímatöku og annað tilfallandi í tengslum við maraþonið, vinsamlegast hafið samband við Rúnar, runarp
mbl.is eða í 899-3745

Frekari upplýsingar og ábendingar um keppnirnar munu birtast á þessari síðu fram að keppnisdegi - fylgist með!