Image
www.paddleworks.co.uk

Kayakklúbburinn sendir öllu kayakfólki bestu óskir um gleðilega hátíð og þakkar fyrir frábært kayakár 2009.

 

Starfsemin hefur verið í góðum gangi undanfarið og ekki minnkar mætingin í sundlaugaræfingarnar og félagsróðrana nú með hækkandi sól og lengri dögum.

Gamlársróðurinn vinsæli er nú framundan og er stefnan sett á að gera hann sem veglegastan nú í ár.  Fylgist með á korkinum hvernig útfærslan verður.

Árið 2009 var okkur kayakfólki sérdeilis gott og viðburðarríkt.  Upp úr stóð sá tímamótaviðburður í kayaksögu Íslands að félagi okkar, Gísli H Friðgeirsson reri eins og allir vita hringinn kringum landið sl. sumar.  Frábært var að geta fylgst með honum dag frá degi, bæði á korti í rauntíma og með lestri greinargóðra pistla Sævars Helga sem munu verða ómetanleg heimild um afrekið.

Annars voru allir helstu atburðir á sínum stað, árið byrjaði eins og venjulega  með sundlaugaræfingum og félagsróðrum sem hvor tveggja voru vel sótt.

Í lok vetrar var unnið gott og þarft starf við að setja saman öryggisstefnu klúbbsins, bæði fyrir félagsróðrana og ferðirnar okkar.  Þetta hefur mælst vel fyrir og öryggisstefnan og framkvæmd hennar verið til fyrirmyndar.

Í vor og sumar rak hver viðburðurinn annan.  Til að stikla á stóru má nefna:

Straumkayak: Elliðaárródeó, Hvítá fyrir byrjendur og sjómenn, Tungufljót riverrace, Vatnagleði í Skagafirði, Team old boys á Hvítá og Haustródeó.

Sjókayak: Reykjavíkurbikarinn, Egill Rauði á Norðfirði,  Hvítá fyrir sjómenn, Reykjaneshittingur, sprettróður á Norðfirði, Bessastaðabikarinn, Jónsmessuróður í Hvammsvík, 10km á Suðureyri, Vatnagleði í Skagafirði og Hvammsvíkurmaraþonið.  Ferðirnar sígildu voru farnar á Skorradalsvatn, Vatnsleysuströndina, í Breiðafjörðinn, og á Þingvallavatn.

Íslandsmeistarar 2009 voru

Straumkayak og sjókayak kvenna: Heiða Jónsdóttir

Straumkayak karla: Ragnar Karl Gústafsson

Sjókayak karla: Ólafur B. Einarsson

 

Takk aftur fyrir árið og sjáumst sem fyrst á floti, helst strax í gamlársróðrinum.

 

Palli Gests