Ólafur B. Einarsson fremstur

Reykjavíkurbikarinn og Vorhátíðin gengu aldeilis blessunarlega vel. 15 sjófuglar tóku þátt, þar af fjórir í 3 km róðri. Í ljósi þess að strembið BCU-prógramm kláraðist á föstudag (og BCU-stjörnurnar voða þreyttar) er ekki hægt að vera annað en ánægður með þátttökuna. 

Ólafur B. Einarsson var fyrstur í mark. Hann hlaut harða keppni frá Hilmari Erlingssyni framan af en Hilmar missti af Ólafi þegar hann þurfti að laga stýrið á Rapiernum, skömmu áður en hann kom að beygjubaujunni, austan við Eiðið. Þetta var þó bara "small rehearsal" því við eyjuna hvolfdi Rapiernum algjörlega upp úr þurru og varð Hilmar að draga Rapierinn á þurrt. 

Páli Reynissyni sem fylgdi fast í kjölfar Hilmar tókst þó ekki að nýta sér þessi óvæntu óhöpp til að stela öðru sætinu af Hilmari og varð Páll því í 3. sæti. Þessi árangur Páls er eftirtektarverður fyrir ýmsar sakir, m.a. þær að hann rær NDK Explorer High Volume, fullvöxnum leiðangursbát og að í gær setti hann persónulegt met á róðraleiðinni. Fyrir einhverjum árum var reynt að koma Páli og jafnöldrum í e.k. eldrimannaflokk en það var greinilega algjör vitleysa. Páll er augljóslega landsliðsmaður!

Heiða Jónsdóttir vann kvennaflokkinn í 10 km. Guðrún Gunnarsdóttir, keppinautur Heiðu, varð að hætta keppni því #$%&#&&-vængárin var leiðinlega stór og Inukinn, sem hún var víst að prófa í fyrsta skipti, óþægilega óstöðugur. Nokkur alda var við vesturenda Geldinganess.

Sigurvegari í 3 km karla var Össur Imsland. Katla Gunnarsdóttir tók gullið í kvennaflokki en Katla keppti í dag eftir um tveggja ára hlé frá kayakróðri. Velkomin aftur Katla, segjum við nú bara! 

Kayakmenn ársins 2009

Á Vorhátíðinni voru afhendir Íslandsmeistarabikarar árið 2009 sem ekki komust í réttar hendur í fyrra. Varla þarf að rifja það upp að Ólafur B. Einarsson og Heiða Jónsdóttir urðu Íslandsmeistarar 2009.

Páll Gestsson, formaður Kayakklúbbsins, tilkynnti síðan hverjir hefðu orðið fyrir valinu sem sjókayakmaður og straumkayakmaður ársins 2009. Gísli H. Friðgeirsson, hringfari, er sjókayakmaður ársins. "Hann braut blað í kayaksportinu hér á landi, sagði Páll Gestsson áður en hann afhenti Gísla blómvönd. Hann mun einnig hafa kysst hann létt á kinnina, en það hefur þó ekki fengist staðfest. 

Heiða Jónsdóttir var valin straumkayakmaður ársins 2009, m.a. í krafti þess að hún hefur verið dugleg við að keppa, bæði í straumi og á sjó, en konur hafa verið óþarflega fágætar í keppnum. Í þessu tilviki er kossaflens eftir blómaafhendingu staðfest mál.

Rúsínan í pylsuendanum var þyrluæfing með Gæslunni. Lárus Guðmundsson stjórnaði æfingunni af jörðu niðri og lék sjórekinn, hálfdauðann, ískaldann, fótbrotinn, hryggbrotinn, nefbrotinn og sjónskertann kayakmann sem hafði rekið í 4 klukkustundir með eftirtektarverðum tilþrifum. Engin furða að Lárusi var strax skúbbað upp í þyrluna en honum var svo skilað snarlega niður þegar Gæslan sá að þetta var bara plat. 

Keppnisnefnd þakkar keppendum fyrir drengilega keppni og áhorfendum fyrir að mæta og hvetja sitt fólk. 

Sævar Helgason sá um skráningu og var tímavörður. Björgunarsveitin Kjölur á Kjalarnesi sá um brautargæslu. Fleiri lögðu hönd á plóginn, m.a. Gísli Karlsson sem var um tíma pulsustjóri og Pétur B. Gíslason var mættur sem fulltrúi kærunefndar. Gísli var auk þess einn þeirra sem bjargaði vestari baujunni, þeirri sem merkir staðinn þar sem keppendur í 10 km eiga að snúa. Steinninn sem hún var bundin í hafði ekki náð festu og því flaut hún af stað í austurátt, frá landi. Alls þurfti þrjá menn á sjó til að bjarga baujunni en mótstjóra láðist að rita niður nöfn þeirra sem afrekið unnu. Baujumálið fer pottþétt fyrir atvikanefnd.

Hér eru úrslitin - þau verða birt aftur á læsilegri hátt.

Athugið að mig vantar eitt föðurnafn og upplýsingar um bátagerð þeirra sem reru 3 km. Gott væri ef þessar upplýsingar kæmu til mín í pósti runar.palmason@gmail.com - eða í svari á korknum. 


Reykjavíkurbikar, laugardaginn 1. maí. 
Karlar - 10 km 
1 Ólafur B. Einarsson Ocean X 0:59:18
2 Hilmar Erlingsson Valley Rapier 1:07:00
3 Páll Reynisson NDK Explorer HV 1:08:38
4 Sigurjón Sigurjónsson NDK Greenlander Pro 01:12:30
5 Þorbergur Kjartansson Point 65° 505 01:13:40
6 Guðmundur J. Björgvinsson Quajac Sardina 01:19:15
7 Ágúst Ingi Sigurðsson Heimasmíði 01:19:35
Einar Garðarsson Point 65° XP Hætti keppni

Konur - 3 km 
1 Heiða Jónsdóttir Quajac Kitiwec 01:21:50
Guðrún Guðmundsdóttir Kirton Inuk Hætti keppni

Karlar 3 km
1 Össur Imsland Vantar upplýsingar 22:16
2 Kristján Viggósson Vantar upplýsingar 23:07
3 Einar Sveinn ....son Vantar upplýsingar 24:15

Konur - 3 km
1 Katla Gunnarsdóttir Vantar upplýsingar 28:55