Hringfararnir tilvonandi John Peaveler og Magnús Sigurjónsson lögðu upp frá Geldinganesi um klukkan hálf elllefu í morgun. Með þeim reru þrír félagar í klúbbnum, þeir Örlygur Steinn Sigurjónsson sem ætlar að verða þeim samferða upp á Snæfellsnes, Páll Gestsson formaður og Gunnar Ingi Gunnarsson sem sögðust í morgun ætla að snúa við á Akranesi. Eiginkona Johns, Ayesha, var þarna einnig og dóttir þeirra á öðru ári. Um ferð þeirra Johns og Magnúsar var skrifað í blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, í morgun. Meiri upplýsingar um ferðina er einnig að finna á korknum.

 

Greinin úr Mogganum er birt hér í heild, sem er auðvitað ekki til eftirbreytni út af alls konar höfundarréttarákvæðum, en svo vill til að ritnefnd hefur góð sambönd inni á Mogga.

 

Þarf ekki að óttast sýkingar í ennisholum

Rúnar Pálmason, runarp@mbl.is

Klukkan 10 í dag  kannski ekki æðislega stundvíslega, munu þeir John Peaveler og Magnús Sigurjónsson leggja af stað í hringróður um Ísland á kajökum. Aðeins hafa níu manns róið hringinn á undan þeim, þar af einn Íslendingur.

Peaveler ætlar að ljúka róðrinum innan tveggja mánaða en Magnús lýkur ekki hringróðrinum fyrr en á næsta ári. Magnús er reyndur kajakkennari og ástæðan fyrir því að hann verður svona miklu lengri er sú að hann ætlar að skipta róðrinum í tvennt, eða öllu heldur í þrennt. Þeir Peaveler og Magnús verða samferða í Hrútafjörð en þangað koma þeir væntanlega 17. júní. Þar tekur Magnús sér smávegis frí en ætlar svo að taka aftur upp þráðinn í júlí og róa til Húsavíkur. Afganginn klárar hann væntanlega næsta sumar.

Bandaríkjamaðurinn John Peaveler, býr og starfar í Kuwait þar sem hann og kona hans Ayeshah, hafa rekið dýraathvarf í fimm ár. Hann er jafnframt mikill baráttumaður fyrir mannúðlegri meðferð á dýrum og hringróðrinum um Ísland er ætlað að vekja athygli á Certified Humane samtökum í Bandaríkjunum sem gefa út vottorð um að tilteknir framleiðendur hafi farið vel með húsdýr sín.

Passar að snerta ekki sjóinn

Peaveler er ekki ókunnur löngum kajakróðri því árið 2004 reri hann um 2.400 kílómetra leið frá Skagway í Alaska til Seattle í Washington-ríki. Síðan hefur hann lítið róið, einkum vegna þess að sjórinn undan Kuwait er ekki beinlínis hentugur fyrir slíkar íþróttir. Sjórinn er gríðarlega mengaður og raunar loftið einnig. „Síðast þegar ég æfði kajakveltu fékk ég sýkingu í ennisholurnar. Það segir sína sögu,“ sagði Peaveler. Sjórinn sé mjög mengaður af skólpi, enn meira eftir að skólpleiðsla hafi rofnað þannig að skólp rann óhindrað í sjóinn í tvo mánuði. Skólpi úr skipum sé einfaldlega sturtað í flóann. „Í Kuwait passaði ég mig á að snerta aldrei sjóinn, hvorki þegar ég reri eða þegar ég tók land. Þegar ég fór í reynsluróður með Magnúsi við Reykjavík og tók veltur, þurfti ég að minna sjálfan mig á að það væri allt í lagi að fara á kaf,“ sagði hann.

Hægt er að lesa meira um Peaveler og hringferð hans á vefnum: www.johnpeaveler.com