Dagsferð í Straumfjörð á Mýrum.
Sólin virðist ætla að skína og róðrarveður með besta móti skv. útlitinu nú fyrir þetta einstaka svæði. Ferð sem er m.a. ætluð þeim sem eru að byrja að ferðast á kayak, en hafa samt einhverja reynslu (sjá dagskrána og öryggisreglurnar). Reyndari félagar munu leggja sig eftir því að leiðbeina þeim óreyndu. Mæting um kl. 10:00 á laugardagsmorgni í Straumfirði og farið á sjó kl. 11:00.

Það tekur um eina og hálfa klst að keyra í Straumfjörð, sem er sérstaklega fallegur staður stutt frá Reykjavík (minnismerki um franska skipið Pourqui pas? er þar). Farið er niður á Mýrar rétt handan við Langá á Mýrum í átt að Ökrum og þar áfram þar til komið er að afleggjara niður í Straumfjörð. Fara þarf varlega vegna kríuunga á veginum nálægt bænum og mikils fuglalífs á svæðinu. Farið meðfram bænum og út að sjónum suðvestan við bæinn og leggið við ströndina neðan við sumarhús sem þar er. Róið verður annaðhvort norður að Knarrarnesi og e.t.v. að Hjörsey á Mýrum eða enn líklegar suður með ströndinni að breiðum hvítum sandströndum við mynni Borgarfjarðar (að Kúaldarey og Álftanesi) og farið heim seinni part dags. 
Ekki er lengur hægt að tjalda í Straumfirði, en hugsanlegt að fara norður að Laugagerðisskóla á Mýrum rétt norðan við Haffjarðará á laugardagskvöldi og tjalda þar, og fara næsta dag annaðhvort niður að Ökrum við Akraós og róa þar eða fara niður í Haffjarðarós og róa niður í Bæjarey og Haffjarðarey, ellegar fara á Hlíðarvatn. 
Látið vita á korkinum, með e.maili til mín eða hringið í mig til að tilkynna þátttöku, enda gott að vita nokkurn vegin hverjir koma. Allir velkomnir og þurfa ekki að vera félagar í klúbbnum.

Reynir Tómas Geirsson, gsm: 824-5444, e-mail: reynir.steinunn@internet.is