Væntanlega hafa allar kayakkonur og -menn tekið laugardaginn 4. september frá því þá stendur mikið til hjá Kayakklúbbnum. Bæði verður keppt í Hvammsvíkurmaraþoni og í Haustródeói og þá ráðast úrslitin í æsispennandi keppni um Íslandsmeistaratitla.
Hvammvíkurmaraþonið er vissulega krefjandi enda er það sannkallað maraþon, 42,2 km (eða þar um bil). Þeir sem ekki vilja róa svo langt geta tekið þátt í liðakeppninni en þá skipta þrír keppendur með sér vegalengdinni. Karlar og konur geta skipað sama liðið. Þeir sem ekki finna sér liðsfélaga geta vafalaust fundið sér félaga á mótsdag. Boðið var upp á liðakeppni í fyrsta skipti í fyrra og reyndist það afar vel. Í lok keppni er boðið upp á kjötsúpu og keppendur fá hressingu í tveimur skyldustoppum sem eru á leiðinni. Ræst er í maraþoni kl. 10 en keppendur þurfa að mæta a.m.k. 30 mínútum fyrr. Róið er milli Geldinganess og Hvammvíkur í Hvalfirði. Rásmark er valið með tilliti til veðurs.
Haustródeóið verður haldið í Tungufljóti. Mæting er fyrir ofan brúna á fljótinu, rétt norðan við Geysi í Haukadal klukkan 12 og keppni hefst klukkan 13.00. Mikil tilþrif voru sýnd í Elliðaárródeói í vor og nú er að sjá hvort keppendur hafi bætt sig eitthvað í sumar eða hvort þeir séu kannski orðnir stirðir eftir allar grillsteikur sumarfrísins. Á bakkanum verður boðið upp á hressingu fyrir örþreytta íþróttagarpa. Hugsanlega einnig axlanudd.
Lokahófið verður haldið síðar í haust. Þar verða Íslandsmeistarar krýndir, grobbsögur sagðar og ódauðlegar kayakmyndir sýndar. Dagskrá nánar auglýst síðar.
Nánari upplýsingar um keppnirnar veitir Rúnar Pálmason, runar.palmason@gmail.com. Kannski er þó best að varpa fram spurningum og athugasemdum á korknum, svona í anda opinnar stjórnsýslu og lýðræðislegrar umræðuhefðar klúbbsins.
Gæsla í Hvammsvíkurmaraþoni er í höndum Björgunarsveitarinnar Kjalar á Kjalarnesi. Sveitin hefur stutt dyggilega við bakið á okkur í gegnum tíðina og þar er líka best að kaupa flugeldana um áramótin. Rétt er að vekja athygli á keppnisreglum: 1. Allir keppendur í öllum keppnum skulu klæðast björgunarvesti með flautu, og svuntu. 2. Allir keppendur í sjókayakkeppnum skulu hafa blys meðferðis og mótshaldarar verða að sjá til þess að allir hafi aðgang að þeim á mótsstað, s.s. með því að gefa blysin eða selja á sanngjörnu verði. 3. Óheimilt er að róa framhjá ræðara sem lent hefur í sjónum nema að tryggt sé að hjálp sé á næsta leiti og björgunarmenn viti örugglega af viðkomandi í sjónum. 4. Keppendum er óheimilt róa í kjölfari báta sem ekki eru í keppni eða þiggja aðstoð frá þeim. 5. Keppandi sem verður uppvís að brotum á reglum þessum verður vísað úr keppni og fær ekki stig til Íslandsmeistara, aðrir keppendur færast upp um sæti sem því nemur. 6. Sjókayakkeppni skal ekki hefjast fyrr en gæslubátur er kominn á staðinn. Sprettkeppnin er þó undanskilin þessari reglu. 7. Mótshaldarar skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi keppenda. 8. Ef fresta þarf keppnum vegna veðurs er varadagur jafnan næsti sunnudagur á eftir tilkynntum keppnisdegi. 9. Séu efstu keppendur á sjókayak jafnir að stigum í Íslandsmeistaramótinu að loknum öllum keppnum, ráða innbyrðis úrslit milli viðkomandi í Hvammsvíkurmaraþoninu. Hafi þeir ekki keppt í Hvammvíkurmaraþoninu ræður hlutkesti. 10. Séu keppendur í straumkayakkeppnum jafnir að stigum að loknum öllum keppnum, ráða innbyrðis úrslit þeirra á milli. Ef það dugar ekki, ræður hlutkesti. 11. Skilgreining á sjókayak er eftirfarandi: Tvö skilrúm og vatnsheld hólf beggja megin mannops og lúgur á þeim báðum. Dekklínur bæði framan og aftan við mannop og handföng fyrir fólk í sjó að halda í bæði að framan og aftan. Lengd, breidd og þyngd skiptir ekki máli.