Aðalfundur Kayakklúbbsins fór fram fimmtudaginn 27. janúar og stóð tæpa tvo tíma að meðtöldu kleinuáti.  Hann fór vel fram og án óspekta og var heldur tíðindalítill.  Ekki urðu mannabreytingar í stjórn og ársreikningur var samþykktur athugasemdalaust.

Klúbburinn stendur vel og félagafjöldi er stöðugur í kring um 300 meðlimi sem borga félagsgjöld.  Skýrsla stjórnar fól í sér yfirferð á ársskýrslunni sem má sækja á pdf formi hér.  Þar má finna ársreikninginn sundurliðaðan og einnig skýrslur allra nefnda sem tíunda það sem gerðist á árinu 2010.  Einnig getur þar að líta ýmsan fróðleik, m.a. athyglisverðar pælingar varðandi keppnir og ferðasögur allra ferða klúbbsins síðasta sumar.  Það er bæði skemmtileg og fróðleg lesning.

Eftir hefðbundna dagskrá voru tekin fyrir önnur mál og var ýmislegt spjallað.  Aðstöðumál voru rædd og þar er vonandi eitthvað farið að sjá til lands eins og má lesa á korkinum.  Keppnisfyrirkomulag er einnig sívinsælt umræðuefni, hvernig getur við t.d. aukið áhuga og þátttöku í keppnum klúbbsins.  Ungliðastarf bar einnig á góma og ýmislegt fleira.  Þetta urðu góðar og gagnlegar umræður og er öllum fundargestum kærlega þökkuð koman.