Eins og alþjóð er kunnugt voru þrjár konur efstar og jafnar í Íslandsmeistarakeppninni á sjókayak þegar keppnistímabilinu lauk með vel heppnuðu Hvammsvíkurmaraþoni. Því þurfti að varpa teningi til að skera úr um hver hlyti bikarinn eftirsótta. Hlutkestinu var varpað í dag, föstudag, milli klukkan 10:25 og 10:27, á skrifstofu keppnisnefndar Kayakklúbbsins, og sá formaður nefndarinnar um þá athöfn. Haft hafði verið samband við allar þrjár og kváðust þær, aðspurðar, allar að treysta formanni fyrir verkinu og töldu ekki þörf á að senda fulltrúa sinn landshorna á milli til að votta rétta framkvæmd hlutkestisins. Þó var ákveðið að bíða nánast fram á síðustu stundu ef einhverri þeirra kynni að snúast hugur. Til þess kom ekki og því gat hlutkestið farið fram, án vottunarmanna.
Í fyrstu umferð fékk Helga Einarsdóttir úthlutað tölunum 1 og 2, Helga Hrönn Melsteð fékk tölurnar 3 og 4 og Þóra Atladóttir fékk tölurnar 5 og 6, en þessar þrjár voru efstar og jafnar að loknu Íslandsmeistaramóti.
Í fyrsta kasti datt teningurinn út af skrifborðinu og skoppaði langt út á gólf og var það kast að sjálfsögðu dæmt ólögmætt á staðnum. Þess má þó geta að talan 1 kom upp. Í næsta kasti var formaður kominn í betri æfingu og eftir að hafa hrist teninginn milli greipa sér dágóða stund lét hann teninginn gossa á borðið. Kom þá aftur upp talan 1 og þar með varð ljóst að Helga Einarsdóttir er Íslandsmeistari sjókayakkvenna árið 2011. Er henni óskað til hamingju með titilinn. Búast má við miklum hátíðarhöldum á Ísafirði af þessu tilefni enda töluvert um liðið síðan Íslandsmeistaratitill fór í þann landshluta.
Í annarri umferð var Helgu Hrönn úthlutað tölunum 1, 2 og 3 en Þóra fékk 4, 5 og 6. Upp kom talan 6 og því er Þóra í 2. sæti og Helga Hrönn vermir þriðja sætið.
Er þeim einnig óskað til hamingju.