Uppskeruhátíð kayakfólks fór fram með pompi og prakt á laugardagskvöldið var. Hún var nú í fyrsta sinn haldin á vegum SÍL ásamt skútufólki og heppnaðist með miklum ágætum að blanda þessu saman.
Eini Íslandsmeistarinn sem gat mætt var Íslandsmeistari karla í sjókayak, Ólafur Einarsson og var honum afhendur farandbikarinn við dynjandi lófatak. Helga Einarsóttir, meistari kvenna á sjókayak var fjarri góðu gamni á Vestfjörðum og straumkayakmeistarinn, Jón Skírnir, er í Sviss í sínu námi.
Kayakkona ársins, Þóra Atladóttir, var á staðnum og tók við sinni viðurkenningu ásamt sjálfboðaliða ársins, Örlygi Sigurjónssyni. Kayakmaður ársins, Magnús Sigurjónsson, var hins vegar fjarstaddur í þetta skipti. Umsagnir um þetta sómafólk má sjá með því að smella á Read more ...
Kayakkona ársins 2011: Þóra Atladóttir
Þóra er feykiöflugur ræðari og mjög sjáanleg í öllu klúbbstarfi. Sundlaug, félagsróðrum, æfingaróðrum, ferðum o.s.frv. Alltaf tilbúin að miðla reynslu og aðstoða. Fyrsta konan til að klára BCU 4star leader í núverandi BCU kerfi.
Kayakmaður ársins 2011: Magnús Sigurjónsson
Magnús er óþreytandi við að breiða út kayaksportið. Formaður sundlauganefndar og iðulega þar að stjórna málum og segja til. Heldur uppi starfi BCU á Íslandi, þjálfun og prófum. Okkar aðal kayaknámskeiðahaldari til margra ára. Öflugur og ósérhlífinn í flestum viðburðum á vegum klúbbsins.
Sjálfboðaliði ársins 2011: Örlygur Steinn Sigurjónsson
Alltaf boðinn og búinn að aðstoða og taka þátt í klúbbstarfi. Hefur á þessu ári þess utan unnið að útgáfu bókarinnar “Sjókajakar á Íslandi. Allt um róðrartæknina og öryggisatriðin”, yfir 100bls bók sem stefnt er að komi út á uppskeruhátíðinni 15. okt. Alger hvalreki fyrir kayakfólk.