Keppni verður haldin í sjókayakfærni laugardaginn 01.september 2012. Markmið keppninnar er tvíþætt: Að hafa gaman saman og auka við færni okkar. Stefnt er að því að halda keppnina við bryggjuna í Bryggjuhverfinu í Reykjavík (beðið er eftir endanlegu leyfi). Aðstæður til að fylgjast með keppninni þar eru mjög góðar og eru allir félagsmenn hvattir til að taka þátt og/eða koma og fylgjast með.

Keppt verður í braut þar sem ræðari þarf að fara í gegnum hindranir og leysa tækniþrautir. Flest viðfangsefni eru í samræmi við góða róðrartækni og færni á sjókayak ásamt nokkurra „busl“ æfinga. Heildarlengd brautar er um 400 m og verða reitir afmarkaðir með baujum.

Brautin er róin á tíma og er hönnuð þannig að færni ræðara vegur meira en hraði á beinni leið. Þá er brautin höfð þannig að venjulegur sjókayak hefur betri möguleika en hraður keppnisbátur eða grænlenskur veltubátur. Í sumum þrautum þarf þáttakandi að vera í sjónum og verður fatnaður að taka mið að því, þáttakendur verða að vera í björgunarvesti.

Keppnin er ætluð ræðurum á mismunandi getustigum og er skipt í tvo flokka (i) Almennur flokkur (ii) Úrvalsflokkur.  Þáttakendur geta valið sér keppnisflokk en þeir sem hafa tekið 4* BCU þjálfun ber að fara í Úrvalsflokk.

Hver þáttakandi fær að fara tvær umfrerðir í brautinni. Efstu menn (3) í hvorum flokki sem hafa samanlagt besta tímann keppa síðan til úrslita.  Áætlað er að það taki um 10-20 mínútur að fara brautina og keppendur verða ræstir með nokkurra mínútna millibili þannig að mest verða 3-4 þáttakendur samtímis í brautinni.

Dæmi um þrautir sem verða í brautinni eru:

 

  • · Svig áfram og afturábak
  • · Svig þar sem ár er róið á annarri hlið (*)
  • · Róa til hliðar, þvert á bátsstefnu
  • · Snúa bát í hring (360°)
  • · Synda með bát
  • · Róa með höndum
  • · Róa sitjandi á skut (*)
  • · Velta til hægri og vinstri (*)
  • · Sjálfbjörgun úr sjó, valfrjáls aðferð
  • · Standa upp í bát (*)

 

Ekki er gerð krafa til þess að þáttakandi ráði við allar þrautirnar og verður boðið upp á aðra valkosti fyrir þær sem eru merktar með (*).

Keppnin er haldin að danskri fyrirmynd og áhugasamir geta kynnt sér gögn þaðan á síðunni http://www.havkajakdm.dk.

Einnig má sjá myndbönd á Youtube http://www.youtube.com/watch?v=HX9Qe2wHu8M og http://www.youtube.com/watch?v=VCgxKiHeBNA

Keppnin gefur ekki stig í keppni um Íslandameistaratitil á sjókayak.

Keppnisfyrirkomulag getur tekið breytingum og nánari upplýsingar verða birtar þegar nær dregur keppni.