Tímamótaáfangi í kayaksportinu náðist í vikunni sem leið þegar Magnús Sigurjónsson öðlaðist alþjóðleg réttindi til að halda Incident Management (IM) námskeið í nafni Jeffs Allen, auk björgunarnámskeiðs sem Jeff hefur þróað og kennt á undanförnum árum. Magnús hefur þarmeð sest á bekk með útvöldum hópi kayakmanna á heimsvísu sem fá IM réttindi hjá Jeff, og er þetta um leið mikilsverður áfangi í menntun íslenskra ræðara sem vilja tileikna sér færni í sjóbjörgun í hæsta gæðaflokki. Töluvert hagræði er að stöðugu innlendu framboði á IM námskeiðunum, en hingað til hafa nemendur ýmist þurft að fara erlendis á þau, eða flytja inn kennara.

Á Incident Management námskeiðum eru þátttakendur þjálfaðir í að skipuleggja sjóbjörgunaraðgerðir og stjórna hóp samhliða, en á björgunarnámskeiðunum er áherslan lögð á persónulega færni við bjarganir þar sem farið er skipulega í mismunandi útfærslur á toglínunotkun, félagabjörgun og fleira.

Jeff Allen hefur síðastliðinn áratug eða svo kennt námskeið sín um víða veröld og hefur á þeim höfundarrétt en veitir, við vissar aðstæður, ákveðnum aðilum hlutdeild í námskeiðahaldinu. Magnús hefur á liðnum árum verið aðstoðarmaður Jeffs á námskeiðunum, bæði hér heima og í Bretlandi og hefur samstarf þeirra nú leitt til fullra kennsluréttinda Magnúsar. Er honum óskað til hamingju með áfangann.