41. siglingaþing SÍL (Siglingasamband Íslands) fór fram 22. febrúar síðastliðinn og þar átti Kayakkúbburinn rétt á þremur fulltrúum eins og önnur siglingafélög landsins.  Samkvæmt ársskýrslu SÍL eru níu virk siglingafélög aðilar að sambandinu og miðað við iðkendatölur ÍSÍ er Kayakklúbburinn fjölmennasta aðildarfélagið.  Iðkendum í siglingum hefur fjölgað milli ára, voru 1493 árið 2012 en 1594 árið 2013.

 

 

Starfsemi SÍL er í föstum skorðum, en rekstur sambandsins hefur verið erfiður síðustu ár þó að tekist hafi að rétta reksturinn nokkuð við árið 2013.  Aðaláherslur í starfi SÍL eru fræðslu-og útbreiðslumál og meðal annars er verið að undirbúa verkefni þar sem komið er á tengingu milli útikennslu skóla og siglingafélaga.  Það verður spennandi að fylgjast með því verkefni og gæti jafnvel verið gott tækifæri að kynna kayak íþróttina, sýnist okkur svo.  Annað mál sem brennur á flestum siglingafélögum á Reykjavíkursvæðinu er fyrirhuguð brú yfir Fossvog en í ársskyrslu SÍL kemur fram að slík brú loki fyrir starfsemi Brokeyjar og Ýmis í núverandi mynd.  Það gæti haft áhrif á þann hluta starfsemi okkar sem er í Nauthólsvík. 

Það væri gaman að auka samstarf Kayakklúbbsins við önnur siglingafélög, við mætum miklum velvilja á vettvangi SÍL og almennt er fólk mjög áhugasamt um starfsemi okkar og þykir mikið til koma um virkni klúbbsins.  Þar leynast tækifæri fyrir áhugasama.