Jirí Kostínek frá Tékklandi kom með sjókeip sinn með Norrænu til Seyðisfjarðar og lagði af stað suður Austfirðina þann 3. júlí s.l. Hann kennir sportsögu og fræði um útivist við háskóla í heimalandi sínu og er upphaflega straumkeiparæðari. Einnig hefur hann stundað klifur, ofur-víðavangshlaup o.fl. Nú vildi hann reyna á eigin skinni eitthvað af því sem hann er að kenna um leiðangra á sjókeip.
Hann lenti í vandræðum við Mýrdalssand og fórum við Guðni Páll til Víkur að sækja kappann, eftir að Karoline kona hans hafði samband við nokkra aðila sem hún fann á netinu (leitarorð líklega kayak - circumnavigate - Iceland) og óskaði eftir aðstoð við mann sinn. Vandamálið var svæsin úlnliðsbólga (tenosynovitis) á hægri hönd, en hann var vel búinn með öryggisbúnað í lagi og hafði farið erfiða leið á 10 dögum og róið og legið úti síðustu dagana í roki og rigningu.
Kona hans er komin hingað og munu þau verja nokkrum dögum saman eins og venjulegir ferðamenn og fljúga heim í næstu viku.
Mér virðist reynsla hans úr straumnum hafa skilað sér vel í brimlendingum, en hann hefur þó einnig æft sig í Eystrasalti og víðar á sjókeip. Merkilegt var að heyra hann segja frá atviki við Hjörleifshöfða þar sem hann var tekinn af stórri öldu, velt tvisvar og keyrður síðan aftur á bak og sturtað ofan í hrærigraut af sjó, loftbólum og sandi - eins og reynsla sem ég gleymi ekki frá ósi Kúðafljóts. Í þessum atgangi var sársaukinn slíkur í höndinni og erfitt að beita árinni að þar endaði ferðin sálrænt þótt hann kæmi sér síðan daginn eftir til Víkur.