Get ekki orða bundist.
Við Erna rérum Viðeyjarhring í gær sem er svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað þegar við vorum rétt komin fram hjá Fjósaklettum á bakaleiðinni mættum við kayakræðara sem var einn á ferð að því er virtist. Ég tók á mig smá krók til að heilsa uppá kauða, sem var á hefðbundnum gulum Prion. Þekkti nú ekki manninn en heilsaði og svona þegar við mættumst, en þegar við vorum hlið við hlið tók ég eftir því að hann var alls ekki einn því að í afturlestinni sat lítill gutti, 3 - 4 ára. Ég horfði á eftir þeim orðlaus með hökuna niður á bringu, var á báðum áttum um hvort ég ætti að elta þá uppi og segja eitthvað en gerði ekkert og hélt mína leið.
Var lengi hugsi um þetta..
hvað gæti maðurinn gert ef hann hvoldi t.d. út á miðju Viðeyjarsundi? Hann var í þurrgalla en ekki krakkinn.
Var hann með síma, talstöð eða blys? Kannski ekki!
Þegar við vorum hálfun heim ákváðum við að keyra niður að Sundahöfn til að kíkja eftir þeim og að lokum keyrðum við aftur uppí Geldinganes til að tékka einhvern veginn á þeim, en sem betur fer voru þeir þá komnir í land aftur og voru að ganga frá.
Hvað finnst ykkur um þetta, á maður að skipta sér af svona... eða er þetta bara allt í lagi?!