Við Örlygur fórum á sjó kl. 17 og tókum einfaldar æfingar úti á Eiðsvíkinni, veltur, snertitog (contact tow) og félagabjörgun. Þetta er varla meira en 10 mínútna verkefni í birtu, blíðu og ládeyðu. Aðstæður voru þó ekki þannig í dag:
- Það var að koma myrkur,
- vindur um 10 m/s SV,
- sjór kaldur og
- vindalda hátt í meter á hæð.
Allt gekk þetta vel nema þegar ég var í sjónum búinn að grípa í stefni björgunarbátsins, Örlygur rétti mér báðar árarnar, sem ég tók í aðra greipina og hélt hinni hendinni yfir stefnið. Með vettling á hönd náði ég ekki að góma dekklínuna, stefnið hófst upp og hneig með öldunni og skrapp undan hendinni. Örlygur var þá tómhentur og ég syndandi með tvær árar á eftir bátunum sem rak undan vindinum! Þetta bjargaðist þó allt og bættist í reynslubankann og var bara skemmtilegt.
Það vill svo til að gamlir bekkjarfélagar mínir hittast í kaffi í Perlunni, fyrsta þriðjudag í mánuði á æfingartíma okkar. Síðast fékk ég senda eftirfarandi vísu:
Gísli rær öllum árum
allt um kring.
Við Perluvinir kökur klárum
og kjöftum í hring.