Það voru skemmtilegar aðstæður í gær. Sjávarstaðan var há þegar við lögðum af stað, talsverð undiralda að vestan en vindalda á móti undiröldunni við norðanvert Geldinganesið. Það brotnuðu öldur við "Öxlina" frægu en þær voru alveg við landið.
Sjálfur hafði ég skilið hjálminn eftir heima, enda týndi ég róðrarhettunni síðustu helgi og ætlaði þess vegna bara taka rólegheitaróður og forðast allt sem gæti mögulega hvolft bátnum. Ég stóðst samt ekki freistinguna þegar ég sá hamaganginn í klettaskorunni nyrst á nesinu og bakkaði bátnum inn í ólguna. Gunnar Ingi hafði lánað mér sumarhettuna sína og ég var með þykka húfu yfir til að halda hitanum. Þegar ég var kominn í skoruna fóru öldurnar stækkandi og svo mætti mér veggur sem ég sá strax að ég kæmist ekki yfir. Aldan þrykkti mér innst í skoruna og þegar stélið á kayaknum rakst í klettana fór ég á hvolf, en veltan tókst og ég komst yfir næstu öldu. Það reyndi svolítið á jafnvægið þegar ég þreifaði á höfðinu til að athuga hvort húfan væri týnd en það var allt á sínum stað. Auðvitað hefði átt að vera hjálmur á hausnum en ekki húfa.
Leiðin meðfram vesturenda Geldinganessins var skemmtileg. Aldan var djúp, en hún brotnaði ekki beint heldur klessti á klettana og sjórinn kastaðist með látum upp í loft. Ég stakk mér inn fyrir stein sem hefur svo líklega horfið undir ölduna, því að þegar Siggi kom á eftir mér reis steinninn upp úr sjónum beint undir bátnum hans og hann gat ekkert gert til að forðast veltu. Björgunin tókst vel og það var gott að fá tækifæri til að æfa sig við svona aðstæður, held að við ættum að gera meira af því.
Þetta var án efa skemmtilegasti róður minn á árinu 2015
Hlakka til næsta félagsróðurs og lofa að hafa hjálminn með þá.