Fjórir ræðarar fóru á sjó, GHF, Páll R, Andri og Lárus.
Lárus komst með harðfylgni og þeirri grænlensku út í gegn með austanáttina aðeins á hægri hlið, ég lagði af stað í kjölfarið en bátinn (Explorer) hrakti nokkuð undan vindi ofan á ísnum og vindhviður gripu í stórt árarblaðið og skelltu mér á hliðina á ísnum af og til. Þá fór ég upp úr mannopinu og reyndi að skríða áfram með því að liggja ofan á því en ísinn brotnaði undan vinstra hné og ég sökk í sjóinn hlémegin við bátinn, sem ýtti mér nær undir ísinn þegar ég var að reyna að klifra upp í aftur. Þetta hafðist þó að lokum.
Andri var á eftir mér og sóttist honum svipað og mér en sneri við og hélt eftir fjörunni með bátinn í eftirdragi í humátt eftir Páli.
Róðurinn var ekki heldur léttur móti vaxandi vindi. Við fórum að Leirvogshólma og þá hefur kl verið nálægt 11, vindmælir í Geldinganesi sýndi þá meðalvind 16m/s, en hviður 17-22m/s. Utan við hólmann var mun meiri vindstrengur og rauk þar úr sjónum og var vindur vaxand, en mælirinn í Geldinganesi hætti að sýna mælingar. Við tókum þessa hraðlest og brunuðum á undanhaldi að Veltuvík. Þar var hætt við björgunaræfingu, sem við höfðum rætt með spána um 15m/s vind í huga. Róðurinn endaði með alllöngum göngutúr eftir ísilagðri fjörunni.
Þetta er orðinn langur pistill um stuttan 4ra km róður en ekki er ein báran stök, því að ekki var okkur unnt þess að njóta kaffisopa eftir puðið - kaffivélin er biluð.