Góðar myndir hjá þér , Örlygur – ágætlega skýrar og bjartar þó þungbúið hafi verið í lofti-takk fyrir það
Þegar ég horfi á myndir þá skoða ég fyrst hvort ég sé sjálfur á mynd- svo er ekki þarna því ég mætti ekki í róður.
En þá er það margt annað sem auga á festir.
Hjá mér er það æfingastaðurinn ykkar þarna vestan við Þórnesið.
Þeim stað kynntist ég fyrst strákur um fermingu. Þá um hvítasunnu fengum við fjórir jafnaldrar lánaðan árabát til útilegu um hátíðina í Viðey.
Lagt var upp frá Vatnagörðum –þar sem nú er athafnasvæði Eimskip í Sundahöfn.
Og við rérum þvert yfir Viðeyjarsund sem þá var miklu breiðara en nú er , og lentum í fjörunni góðu á Hrafnasandi- og settum bátinn upp fyrir flóðalínu.
Síðan var allur viðlegubúnaður borinn upp að austurhlíð Kvennagönguhóla og tjaldað þar.
Krían var nýlokin við fyrsta varp svo að þá hófst eggjatínsla sem hluti af mat okkar.
Okkur hafði borist til eyrna að kríuegg væru einkar góð fyrir púnginn á fermingardrengjum- okkur þótti það heilræði. Við átum mikið af kríueggjum.
Og tíminn var notaður í að kanna gamla þorpið sem var við Sundabakka -t.d var Skólahúsið alveg heilt og með öllu – grindurnar á veggjunum í leikfimisalnum voru flottar til æfinga .
Síðan var farið út á Þórsnes með sundfötin – klifrað út á klettinn og stungið sér til sunds og synt þarna um – þar sem þið voruð að kayakast áðan.
Flottur sundstaður- ber eða á skýlunni.
Og síðan var þvælst víða um Viðey. Þá var búskapur í eynni – beljur,hestar og nokkrar kindur.
Við þekktum ábúanda vel það sem hann lenti alltaf í Vatnagörðum með afurðir eða fór með neysluvörur heim í eyna.
Þetta voru semsagt dýrðar dagar okkar strákanna alla Hvíasunnuna í Viðey.
Árið var 1952, eftir krist.
Og síðan var róið í land eftir hádegi á annan í hvítasunnu.
Engin björgunarvesti voru þá til-nema í stórum farþegaskipum-engin blys-engar talstöðvar og enginn sími –nema hjá ábúandanum í Viðey.
Sennilega væru foreldrar –í dag- settir í tugthús fyrir að leyfa börnum að fara í svona ævintýraútilegu.
En þá þótti þetta merki um verðandi manndómsmenn- sem við vorum
Biðst velvirðingar á þessum kjaftavaðli